Samfélagsmiðlar

Útlendingaandúð kemur niður á atvinnulífi

Veitingaþjónusta

Starfsfólk frá öðrum löndum heldur uppi veitingaþjónustu víða - MYND: ÓJ

Íslenskt atvinnulíf er mjög háð aðfluttu vinnuafli. Það á ekki síst við um ferðaþjónustuna. Umsvif hennar væru mun minni ef ekki kæmu hingað útlendingar þúsundum saman til starfa á ári hverju. Samkvæmt Hagstofunni voru 35.233 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi í júní 2023. Þar af voru um 15.500 útlendingar. 

Heildartalan yfir þá sem unnu á gisti- og veitingastöðum um hábjargræðistímann er um 20 þúsund, í þeim hópi eru manneskjur með erlendan bakgrunn í miklum meirihluta. Þetta er fólkið sem sér um að elda, þjóna, þrífa og afgreiða – en líka stjórna rekstri víða. 

Flugafgreiðsla – MYND: ÓJ

Fyrir um áratug voru starfsmenn með íslenskan bakgrunn fimmfalt fleiri í ferðaþjónustu en innflytjendur. Nú eru sex Íslendingar á móti fjórum útlendingum – og tæplega það. Hlutfall innflytjenda fer hækkandi, ekki bara í ferðaþjónustu heldur líka í öðrum greinum.

Samtök ferðaþjónustunnar minntu á það í ályktun á aðalfundi sínum að útflutningsverðmæti greinarinnar hafi verið 598 milljarðar á síðasta ári eða sem svarar tæpum þriðjungi af heildarútflutningi vöru og þjónustu. Þetta eru tekjur af þjónustu við útlenda ferðamenn, þjónusta sem að stórum hluta er borin uppi af erlendu vinnuafli. 

Hótelafgreiðsla – MYND: ÓJ

Mikil umræða hefur verið í samfélaginu síðustu mánuði um það hvort viðhorf til útlendinga, einkum þó flóttamanna, séu að breytast – verða neikvæð hér á landi. Hugsanlega er þar of mikið gert úr hávaða sem fylgir litlum hópi fólks á samfélagsmiðlum – fólki sem lætur margt lítt grundað flakka í hita og þunga dagsins. Það er þó víst að útlendingaandúð fer vaxandi víða í Evrópulöndum og er það sprottið af óöryggi og áhyggjum heimamanna vegna versnandi afkomu en líka af því að óvandaðir stjórnmálamenn telja sér í hag að etja saman þjóðfélagshópum – efna til ófriðar gagnvart þeim sem eru ekki eins og við. Þess vegna þurfa Íslendingar að fylgjast grannt með því sem er að gerast í löndum nærri okkur. 

Rútuleiðsögn – MYND: ÓJ

Eins og áður sagði, þá blasir auðvitað við að íslensk ferðaþjónusta og hagkerfið allt þarf vinnandi hendur frá útlöndum. Það væru heldur ekki byggð mörg hús á Íslandi án iðnaðar- og verkamanna frá útlöndum – hvað þá eldað, þjónað, þrifið og afgreitt á hótelum, veitingastöðum og kaffihúsum landsins. Svo þarf að framleiða matvæli og sinna lösnu og veikburða fólki. Við ráðum ekki við þetta ein og getum þakkað samningnum um Evrópskt efnahagssvæði að hingað kemur fólk til starfa – en við þurfum fólk úr fleiri áttum, ef við eigum að geta haldið samfélaginu gangandi – og til að afla tekna af þjónustu við rúmlega tvær milljónir erlendra ferðamanna á ári. 

Það er ágætt að hafa í huga að samkeppni um vinnandi fólk fer harðnandi á Vesturlöndum. Ekki er sjálfgefið að íslensk ferðaþjónusta frekar en aðrar starfsgreinar eigi greiðan aðgang að hæfu og góðu vinnandi fólki. Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki, eins og önnur, gætu þurft sum hver að bæta aðbúnað þeirra sem koma hingað í vinnu til skamms tíma. Ef þjálfað og reynt fólk er óánægt fer það annað. Velmegunarþjóðirnar eldast hratt og eina vonin til að halda uppi þjónustustigi í heilbrigðiskerfinu, við umönnun, í byggingariðnaði, ferðaþjónustu og fleiri starfsgreinum er að fá útlendinga til starfa. Hinsvegar geta rótgrónir fordómar og útlendingaandúð þvælst fyrir – vonandi þó ekki á Íslandi. 

Á kaffihúsi – MYND: ÓJ

Útlendingafordómar eru sannarlega víða orðnir vandamál. Það á við um Holland, Austurríki og ekki síst Þýskaland, svo þrjú Evrópulönd séu nefnd. Þetta á ekki síst við um Þýskaland, sérstaklega þann hluta landsins sem tilheyrði gamla alþýðulýðveldinu, Austur-Þýskalandi. Þar eru lífskjör lakari, tækifærin færri, óánægjan með ráðandi öfl meiri eftir að verksmiðjum var lokað eftir fall kommúnismans og atvinnutækifærum fækkaði. Fordómar og þekkingarleysi ráða afstöðu margra. 

Chemnitz er þriðja stærstu borg Saxlands sem tilheyrði Austur-Þýskalandi. Á dögum alþýðulýðveldisins fékk borgin raunar annað nafn: Karl-Marx-Stadt. Eftir fall Austur-Þýskalands völdu íbúarnir í atkvæðagreiðslu að endurreisa gamla heitið. Merki kommúnismans skyldu afmáð. En fleira hvarf – líka gömul framleiðslutæki og atvinnumöguleikar. 

Nafn Chemnitz hefur frá þessum tíma gjarnan verið tengt útlendingaandúð, sem sérstaklega hefur beinst að flóttafólki, og hefur borgin hefur komist í fréttir vegna harðra mótmælaaðgerða gegn innflytjendastefnunni. Þar hefur fylkingum andstæðra fylkinga lostið harkalega saman. Borgarstjórinn í Chemnitz, sem kosinn er beint, hefur síðustu 30 árin komið úr flokki Jafnaðarmanna en í borgarstjórninni er hægiöfgaflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) næst stærstur, á eftir Kristilegum demókrötum. AfD bætti við sig rúmum 12 prósentum í kosningum 2019. Þá hafði Chemnitz skapað sér orð sem miðja útlendingaandúðar í Þýskalandi. 

Veitingasala – MYND: ÓJ

Rótgróin útlendingaandúðin í Chemnitz er hreinlega orðin til trafala í atvinnulífi borgarinnar. Neikvæð viðhorf gagnvart útlendingum á þessum slóðum gera fyrirtækjum ekki aðeins erfitt um vik að fá til sín ófaglært fólk heldur líka iðnaðarmenn og sérþjálfað verkafólk. Reuters-fréttastofan sagði nýverið sögur af meðalstórum fyrirtækjum í Chemnitz og víðar í Þýskalandi sem misst hefðu frá sér faglært fólk sem gefist hefði upp á landlægri útlendingaandúð. Þetta gerist á sama tíma og fyrirtæki í mörgum greinum líða fyrir skort á starfsfólki. 

Þegar skoðaðar eru tölur um skráða hatursglæpi sem sprottnir eru af útlendingaandúð í Þýskalandi sést að þeir voru þrefalt fleiri 2022 en 2013 og teljast tilvikin nú um 10 þúsund á ári. Einn af öðrum forða þeir sér sem telja sig geta fundið tækifæri annars staðar. Og það horfir ekki vel í þessum efnum. Opinberar tölur í Þýskalandi benda til að árið 2035 vanti um sjö milljónir sérþjálfaðs verkafólks til starfa. Það er hátt hlutfall í landi þar sem um 46 milljónir manna eru á vinnumarkaði. Staðan í Chemnitz er ekki beysin. Frá sameiningu Þýskalands 1990 hefur íbúum í borginni fækkað um 20 prósent – í rétt um 250 þúsund manns, og hlutfall útlendinga er komið í 14 prósent. Þjóðernissinnaðir hægrimenn bregðast við þessu með reglulegum og háværum mótmælum. Þeir virðast helst trúa því að upp hefjist ný gullöld í Þýskalandi ef vinnufúsum höndum verður fækkað. 

Í byrjun ársins stigu forystumenn nokkurra þýskra fyrirtækja fram og vöruðu við slæmum áhrifum hægriöfgahyggju á efnahag þessa stærsta hagkerfis álfunnar – Þýskalands. Meðal þess sem væri í húfi ef framgangur AfD héldi áfram væri ímynd landsins. Hætta væri á að þau sem réðu yfir erlendu fjármagni myndu sniðganga Þýskaland og mun erfiðara yrði að fá til starfa þjálfað fólk sem landið bráðvantaði. Þýskaland myndi dragast aftur úr. 

Meðal öfgafyllstu liðsmanna AfD hafa jafnvel verið á lofti hugmyndir um að flytja beri útlendinga úr landi – á eitthvert tiltekið svæði í Norður-Afríku, Þær hugmyndir þóttu minna óþægilega á nasíska fortíð í þessu stóra og mikilfenglega landi. Upp reis mikil mótmælaalda þögla meirihlutans í landinu. Fólki ofbauð málflutningur málsmetandi AfD-liða og krafa um að banna bæri flokkinn var sett fram. 

Ástandið er eldfimt í Þýskalandi og víðar í álfunni. Í Evrópuþingkosningunum 6.-9. júní fæst mæling á viðhorfum kjósenda á þessum tímum sem mótast af áhrifum tæknibreytinga með aukinni sjálfvirknivæðingu – og líka orkuskorti og stjórnmálaspennu vegna Úkraínustríðsins. 

Erlendur ferðamaður fær aðstoð – MYND: ÓJ

Ísland er hluti af Evrópu og fyrirtæki hér sækja starfsfólk á sama vinnumarkað. Viðhorf afmarkast ekki af landamærum. Neikvæð upplifun útlendinga á vinnumarkaði getur orðið til trafala, komið í veg fyrir nýtingu tækifæra. Þetta á við um öll lönd Evrópu – líka Ísland. Þetta á við um allar starfsgreinar – ekki síst ferðaþjónustu. 

ÁSKRIFT MEÐ 50% AFSLÆTTI Í EINN MÁNUÐ. FULLT VERÐ Í FRAMHALDINU EN ALLTAF HÆGT AÐ SEGJA UPP.

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …