Samfélagsmiðlar

Vélmenni lesa inn hljóðbækur

Fyrir mánuði sendi Storytel frá sér fréttatilkynningu þar sem kynnt var ný þjónusta fyrir notendur. Brátt eiga hlustendur hljóðbóka möguleika á að velja nýjan lesara ef þeim líkar ekki innlesturinn. Valraddirnar eru allar skapaðar af vélmennum eða svokölluðum gervigreindarupplesurum. 

Þetta nýja verkfæri Stoyrtel er tekið í gagnið vegna þess að 89 prósent af þeim sem hætta við að hlusta á bók segja að það sé vegna þess að þeim líkar ekki við upplesarann, röddina eða lestrarstílinn. Storytel vill gera sitt til þess að halda í hlustendur og þar með áskrifendur og þess vegna er hljóðbókahlustendum hjá Storytel nú gefinn kostur á að velja nýjar raddir. Verfærið kallast Voice Switcher og þar getur maður valið á milli fimm mismunandi lesvélmenna:

Carin, sem les rólega og yfirvegað. Rödd þroskaðrar konu (MYND: Storytel)

Amanda er ung og kraftmikil kvenrödd (MYND: Storytel)

Erik hefur milda og djúpa rödd (MYND: Storytel)

Martin er miðaldra karlmaður og les nokkuð blátt áfram (MYND: Storytel)

Stefan notar rödd leikarans Stefan Sauk sem les á kröftugan og dramatískan hátt (MYND: Storytel) 

Storytel á Íslandi hefur enn ekki tekið upp Voice Switcher-verkfærið og ekki vitað hvenær eða hvort þessi þjónusta verður tekin upp fyrir íslenska áskrifendur. Enn sem komið er eru bara 25 bækur á sænska Storytel með þennan möguleika um val á milli fimm mismunandi gervigreindarradda. 

Leikarar og aðrir innlesarar hafa ekki verið sérlega hrifnir af þessari nýju samkeppni um upplestur en Storytel telur að gervigreindarraddirnar komi bæði hlustendum, höfundum og forlögum til góða. 

Leikarinn Stefan Sauk hefur selt Storytel notkunarrétt á rödd sinni þannig að streymisveitan hefur fengið leyfi til að skapa hans rödd með gervigreindarforriti og nota til upplestrar á öllum þeim bókum sem Storytel telur rödd hans henta. Stefan segir í samtali við sænsku fréttaþjónustuna TT að gervigreindarrödd geti aldrei keppt við rödd mannsins. Gervigreindina vanti innlifunarhæfni leikarans og því óttast hann ekki að leikarar verði settir alveg til hliðar af lesvélmennum. Stefan reyndi þó að verja sína eigin rödd með því að kaupa einkarétt á henni en sú tilraun tókst ekki. Hann ákvað því að bjóða rödd sína til sölu til gervigreindarvélmennis í eigu Storytel. Hann er fyrsti leikarinn sem fer þessa leið. 

„Ég er satt að segja svolítið hræddur við þróun gervigreindar og hvað tæknin eigi eftir þýða fyrir heiminn og fyrir leikara sem lesa inn hljóðbækur.“ En hann réttlætir ákvörðun sína með því að hann hafi átt tvo valmöguleika: „Að standa fyrir utan og skammast – eða ganga inn og reyna að hafa áhrif.“

Storytel gerði tilraun með nýju gervigreindarraddirnar á vegfarendum í Stokkhólmi áður en Voice Switcher-verkfærið var kynnt. Niðurstaða tilraunarinnar sýnir að níu af hverjum tíu geta ekki gert greinarmun á rödd úr mannsbarka og rödd úr vélbarka gervigreindarvélmennis. 

„Tilraunin sýnir að við höfum þróað innlesara, eða raddir, sem eru í hæsta gæðaflokki,“ sagði Johan Ståhle, talsmaður Storytel.

Þann 14. mars var haldin mikil samkoma á vegum Storytel í Danmörku. Streymmisveitan veitti þar svonefnd Mofibo Awards besta lesara ársins í nokkrum flokkum. Að þessu sinni voru lesararnir af holdi og blóði en mögulega hlýtur vélbarki verðlaunin í framtíðinni. 

Nýtt efni

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …

Farþegar á leið til New York frá Róm, París, Ósló, London, Berlín eða Aþenu geta flogið beint með norska lágfargjaldaflugfélaginu Norse Atlantic. Í mörgum tilfellum er félagið með ódýrustu sætin á þessum leiðum og keppir því við íslensku flugfélögin um þá farþega sem vilja komast á milli fyrir sem minnst og setja það ekki fyrir …

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …