Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Óskars Axelssonar

Kvikmyndaleikstjórinn Óskar Axelsson komst í hann krappann í París en ferðaðist um Ísrael og Palestínu án vandræða. Hann hefur farið víða og leggur áherslu á að borða að hætti heimamanna hvar sem hann kemur.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Ég fór til Mæjorka tveggja ára en man svo sem ekki mikið eftir því. Við fjölskyldan fórum þangað á hverju ári þegar ég var lítill og fyrstu ferðaminningarnar eru sannarlega þaðan.

Best heppnaða utanlandsferðin:
Ég hugsa að það hafi verið ferð okkar Huldu, konunnar minnar, til Ísrael og Palestínu. Sú ferð var æðislega vel lukkuð að öllu leyti. Við gistum ýmist á hótelum eða hjá fólki sem tengdust ísraelskum vinum okkar í New York, þar sem við bjuggum á þessum tíma.
Vorum m.a. í nokkra daga í Kibbutz sem staðsett er í Negev eyðimörkinni.
Saga þessa landsvæðis er náttúrulega svo ótrúlega mikilvæg og það er fátt sem jafnast á við að ráfa um innan múra hinnar gömlu Jerúsalem. Þá er Tel Aviv hreint stórskemmtileg og afslöppuð strandborg, minnti mig einna helst á Barcelona, bara minni. Og tilfinningin að fljóta um í Dauðahafinu er eitthvað sem erfitt er að lýsa með orðum.
Við höfðum lesið okkur mikið til um margþætta sögu landsins og vorum ágætlega að okkur í stöðu mála í deilum Ísraela og Palestínu, eða „the conflict“ eins og þeir sjálfir kalla það. Og hvert sem við komum voru allir mjög áhugasamir um að ræða um deiluna og allir sem við hittum vildu segja okkur frá sínum sjónarmiðum. Við ferðuðumst vítt og breitt um landið. Fórum m.a. til Hebron í Palestínu en miðbærinn þar er hreinlega í herkví Ísraela sökum þess að nokkur hundruð bókstafstrúar gyðingar, flestir nýlega fluttir til Ísrael frá Brooklyn, ákváðu fyrir nokkrum árum að ryðjast þar inn í nokkrar byggingar, hertaka þær og byggja sér svo heimili ofan á byggingarnar. Maður upplifði sig eins og í miðju stríði þarna í miðbænum, en fyrir utan hann iðaði allt af lífi og fjöri.
Það var annars magnað að upplifa, bæði í Ísrael en þó auðvitað miklu meira í Palestínu, hvað fólk var í senn hissa og þakklátt fyrir að við hjónin vorum bara þarna á eigin vegum í fríi. En flestir sem heimsækja þetta umdeilda landsvæði hafa einhverja aðra ástæðu en hreinræktaðan túrisma.

Verst heppnaða utanlandsferðin:
Ætli það sé ekki ferðalag okkar hjóna til Portúgal fyrir nokkrum árum. Við vorum að fara í brúðkaup vina okkar. Brottför frá New York á afmælisdaginn minn og okkur tókst að missa af flugvélinni út af því að þáverandi úrið mitt, sem átti víst að vera beintengt gervihnöttum og því rosalega nákvæmt, ákvað að vanstillast eitthvað. Úrið endaði í ruslafötu á JFK og við enduðum heima á meðan farangurinn okkar fór sem leið lá til Lissabon í gegnum Dublin. Við flugum svo daginn eftir þannig að við náðum alla vega brúðkaupinu, þó töskurnar, með smókingnum og kjólnum, hafi tekið yfir viku að skila sér og setti það heilmikið strik í reikninginn það sem eftir lifði frísins í Portúgal.

Tek alltaf með í fríið:
Ég fer hvergi án þess að „lesgleraugun“ (sjá hér) séu með í för. Hjálpa mér að sofna á hverju einasta kvöldi, án þess að ég fái hálsríg!

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:
Líklega þegar reynt var að ræna mig í París, rétt hjá Gare du Nord lestarstöðinni fyrir all mörgum árum. Ég var á Interrail ferðalagi með félaga mínum og kannski eittvað kærulaus í fasi. Tveir gaurar plötuðu mig og áður en varði var annar þeirra kominn með veskið mitt í hendur. Mér brá svakalega. Lét öllum illum látum, öskrandi á þá alls kyns fúkyrði, en tókst einhvern veginn að hrifsa af þeim veskið aftur. Félagi minn forðaði mér áður en illa fór og ég var svo í sjokki nokkuð lengi á eftir.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:
Það er útilokað að svara þessu. Ég legg mikið upp úr því að borða „local“ mat og er sennlega yfirleitt þannig stemmdur að mér finnst hann nánast alltaf bragðgóður. En ef ég verð að velja ætli ég nefni ekki steikurnar í Argentínu, „mixed grill“ – yfirleitt medum well done að hætti heimamanna, en engu að síður meyrar einsog smjör.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Önnur spurning sem ómögulegt er að svara! En jæja, get a.m.k. nefnt það sem kemur fyrst upp í hugann:
New York, enda heimili okkar hjóna í 8 ár. Róm. Hong Kong, er nýkominn heim þaðan, mjög heillaður. Amorgos, friðsæl eyja í gríska eyjaklasanum.
Sarlat, smábær í S-Frakklandi þar sem vinafólk okkar á lítin búgarð. Hef heimsótt þau tvisvar og mun vonandi gera oft til viðbótar.
Vieques, lítil eyja fyrir utan Puerto Rico. Þar er að finna einn besta „bioluminescent bay“ veraldar, en að svamla þar um á miðnætti og lýsast upp af þessum örverum, er eitthver magnaðasta upplifun sem ég hef átt.

Draumafríið:
Þessa dagana dreymir mig helst um að heimsækja Japan. Þarf að láta það rætast sem fyrst.

TENGDAR GREINAR: Ferðaminningar Teits Þorkelssonar
NÝJAR GREINAR: Keflavíkurflugvöllur á meðal 100 bestu

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …