Samfélagsmiðlar

Áfram gistináttagjald þó virðisaukaskattur tvöfaldist

reykjavik Tim Wright

Virðisaukaskattur á gistingu á Íslandi verður sá næst hæsti í Evrópu. Hlutfall opinberra gjalda af ódýrri gistingu verður hins vegar það hvergi hærra í álfunni. Um mitt næsta ár hækkar virðisaukaskattur á ferðaþjónustu úr 11% í 24% en í ársbyrjun 2019 lækkar skatthlutfallið svo niður í 22,5%. Þar með verður virðisaukaskattur á gistingu á Íslandi sá næst hæsti í Evrópu. Hlutfall opinberra gjalda af ódýrri gistingu verður hins vegar það hæsta í álfunni.
Í haust hækkar gistináttagjald á gistingu hér á landi úr 100 krónum í 300 krónur. Áfram er gert ráð fyrir þessu gjaldi í fjármálaáætlun ríkisins þrátt fyrir að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, þar á meðal hótelgistingu, ríflega tvöfaldist 1. júlí á næsta ári. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Túrista um hvort breytingar á virðisaukaskattskerfinu hafi áhrif á gistináttagjaldið. En fyrir helgi tilkynnti Benedikt Jóhannsson, fjármálaráðherra, að ferðaþjónustan færi úr neðri þrepi virðisaukaskatts og upp í það efra. Þessari breytingu hafa forsvarsmenn ferðaþjónustunnar mótmælt harðlega og meðal annars bent á að með þessu verði álögur á ferðaþjónustu hér á landi þær næst hæstu í Evrópu. Aðeins í Danmörku er virðisaukaskattur á greinina hærri. Þar í landi er aðeins eitt skattþrep, 25%, en ekki tvö eða fleiri líkt og víðast hvar annars staðar. Og þar sem þrepin eru fleiri en eitt er ferðaþjónusta almennt í neðri þrepum, í Svíþjóð er virðisauki t.a.m. 25% en aðeins 12% á hótelum og matsölustöðum. Í Finnlandi og Noregi greiða hótelgestir 10% virðisaukaskatt, í Þýskalandi er hlutfallið 7%, 10% í Frakklandi og 13% á Spáni. 

Opinber gjöld vega þyngst hér á landi

Innheimta á 100 króna gistináttagjaldi hófst hér á landi fyrir fimm árum síðan en á hinum Norðurlöndunum tíðkast ekki þess háttar gjald. Upphæð þess þrefaldast í haust og þá þurfa gestir á íslenskum gististöðum að greiða 300 krónur aukalega fyrir hvert herbergi hverja nótt. En eins og áður segir er áfram gert ráð fyrir tekjum af þessum skatti í fjármálaáætlun ríkisins sem fjármálaráðherra kynnti fyrir helgi.
Þar með verður hlutfall opinberra gjalda af hótelgistingu, í ódýrari kantinum, hærra hér á landi en til að mynda í Danmörku og þrefalt hærra en í Noregi. Af 15 þúsund króna hótelreikningi sem gefinn verður út hér á landi, seinni hluta næsta árs, þá munu 3.203 krónur renna í ríkissjóð í stað 1.586 kr. í dag. Danski skatturinn tekur ögn minna í sinn hlut eða 3 þúsund krónur af 15 þúsund króna herbergi. Á hinum Norðurlöndunum er upphæðin mun lægri eða 1.607 til 1.364 krónur eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.
Þannig heldur hótelstjóri í Þrándheimi í Noregi eftir 13.636 krónum af 15 þúsund króna hótelreikningi á meðan starfsbróðir hans á Ísafirði fær 11.797 krónur í sinn hlut fyrir jafn dýra gistingu. Hagur þess vestfirska vænkast þó um 148 krónur þann 1. janúar 2019 þegar efra þrep virðisaukaskattsins fer niður í 22,5%. 

Danski skatturinn tekur meira af dýrari gistingu

Hlutfall skatta af hótelreikningum er hins vegar hærra í Danmörku en hér á landi þegar litið er til dýrari gistingar en samkvæmt athugun bókunarsíðunnar Trivago kostar meðalnótt á reykvísku hóteli um 23 þúsund krónur um þessar mundir. Þegar gistingin kostar orðið það mikið þá er vægi skattsins ögn hærra í Danmörku en hér á landi. Hins vegar er það miklu hærra en hjá hinum löndunum í norðurhluta álfunnar, löndum sem hafa upp á margt sambærilegt að bjóða og ferðaþjónusta hér á landi.
Sem fyrr segir þá kemur það fram í svari fjármálaráðuneytisins til Túrista að áfram sé gert ráð fyrir gistináttagjaldi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, hefur hins vegar viðrað þá hugmynd að gjaldið renni til sveitarfélaga í framtíðinni. Samkvæmt upplýsingum Túrista frá samtökum danskra hóteleigenda hefur ekki verið umræða í Danmörku um að leggja á gistináttagjald. Þess háttar gjald tíðkast hins vegar á meginlandi Evrópu þar sem virðisaukaskattur á gistingu er mun lægri en verður hér á landi eftir breytinguna á næsta ári.

 

Nýtt efni

Útgerðir skemmtiferðaskipa virðast bjartsýnar um að fólk sæki mjög í siglingar á árinu. Ferðaþorstanum eftir innilokun Covid 19-áranna hafi ekki enn verið svalað. Þá kjósi margir, sem á annað borð hafa efni á því, verja fleiri ferðadögum á friðsælu floti um heimsins höf fremur en að olnboga sig í gegnum manngrúa borga og vinsælla ferðamannastaða. …

Það voru keyptar 390 þúsund gistinætur á íslenskum gististöðum í janúar eða 13 prósentum færri en í janúar í fyrra. Næturnar núna voru álíka margar og í janúar 2019 en það var í mars það ár sem rekstur Wow Air stöðvaðist. Gisitnóttum útlendinga á skráðum gististöðum, stór hluti heimagistingarinnar fellur þar ekki undir, fækkaði um …

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

Vinna við aðgerðaáætlun í tengslum við ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030 er langt komin. Birt hafa verið í Samráðsgátt drög að tillögu til þingsályktunar og óskað umsagna. Það kemur síðan í hlut Alþingis að vinna úr tillögum sem orðið hafa til í víðtæku samráði hagaðila í ferðaþjónustu - og ákveða síðan hvert skal stefna. Þær …

Þjóðarflugfélög Frakka og Hollendinga mynda samsteypuna Air France-KLM Group og hagnaðist fyrirtækið um 934 milljónir evra á nýliðnu ári. Sú upphæð jafngildir 140 milljörðum króna. Aldrei áður hefur þessi fransk-hollenska samsteypa skilað svona miklum hagnaði að því fram kemur í tilkynningu nú í morgun í tilefni af birtingu uppgjörsins. Þar kemur fram að stríðið á …

Karólínska háskólasjúkrahúsið í Stokkhólmi er það sjöunda besta í heimi samkvæmt árlegum lista bandaríska tímaritsins Newsweek. Þetta er fimmta árið í röð sem Karólínska er á lista yfir þau 10 bestu en Björn Zoëga hefur verið forstjóri sjúkrahússins öll þau ár. Björn sagði stöðunni upp nú í ársbyrjun og lætur af störfum í næstu viku. …

Þetta eru ískyggilegar fréttir fyrir Íslendinga og aðrar þjóðir landanna sem liggja að Norður-Atlantshafi. Það er hluti af kjarngóðu og upplýstu uppeldi allra landsmanna að heyra um mikilvægi Golfstraumsins - helst snemma í frumbernsku, og landsmenn eru minntir á mikilvægi hans reglulega út æviskeiðið. Golfstraumurinn liggur frá Karíbahafinu og hingað norður eftir og gerir það …

Lestarferð á fjölförnustu viðskiptaferðaleiðum Bretlands losar innan við helming af því CO2 sem jafn löng ferð með rafbíl gerir, samkvæmt útreikningum sem The Rail Delivery Group, hagsmunasamtök lestarfélaga þar í landi, hafa reiknað út og sagt er frá í The Guardian. Þar sem um er að ræða vistvænstu lestirnar, sem einungis ganga fyrir rafmagni, þá …

Toyota í Japan tilkynnti í morgun að framleiðsla fyrirtækisins hefði aukist um sjö prósent í janúar og að þetta væri þrettándi mánuðurinn í röð sem fleiri bílar væru framleiddir en í sama mánuði árið á undan. Meginskýringin er sögð mikil eftirspurn í Bandaríkjunum. Í janúar runnu rúmlega 740 þúsund fleiri Toyotur af færiböndum verksmiðjanna en …