Það er ekkert land í Evrópu sem er eins spennandi heim að sækja eins og Ítalía að mati lesenda breska blaðsins Telegraph. Þar á eftir kemur Ísland. Þetta sýna niðurstöður árlegrar könnunar ferðablaðs Telegraph en í henni tóku 90.000 manns og er þetta annað árið í röð sem Ísland fær silfrið. Að þessu sinni fékk Króatía bronsið þar sem álit Bretanna á Grikklandi dalaði ögn í ár
Í umsögn Telegraph um Ísland segir að það sé aðdáunarverð frammistaða hjá landi sem áður var varla til í huga ferðafólks að ná öðru sætinu annað árið í röð. Einnig er tekið fram að verðlagið á Íslandi sé nú viðráðanlegra og þangað sé auðveldara að komast. Landslagið og norðurljósin eru svo sögð eitt helsta aðdráttaraflið en líkt og komið hefur fram hefur sala á sérstökum norðurljósaferðum um Norðurland selst betur en gert var ráð fyrir.
Bretar eru fjölmennastir í hópi ferðamanna á Íslandi yfir vetrarmánuðina og flogið er hingað reglulega frá London, Manchester, Bristol, Birmingham, Manchester, Glasgow, Edinborg, Aberdeen og svo Belfast á N-Írlandi.
20 bestu ferðamannalönd Evrópu að mati Telegraph:
- Ítalía
- Ísland
- Króatía
- Grikkland
- Noregur
- Portúgal
- Spánn
- Slóvenía
- Austurríki
- Frakkland
- Sviss
- Tyrkland
- Kýpur
- Svíþjóð
- Danmörk
- Ungverjaland
- Bretland
- Pólland
- Tékkland
- Finnland