Samfélagsmiðlar

Leitin að besta hótelinu

Á hótelið að vera hápunktur ferðarinnar eða bara staður til að halla sér yfir hánóttina. Hverjar sem þarfirnar eru þá eru hér nokkur góð ráð til að finna heppilegustu gistinguna.

Flugmiðinn er í höfn og nú er komið að því að finna gott hóteltilboð. Þú byrjar að leita á Booking.com en þar birtast hundruðir gistikosta og úrvalið er ekki minna á Hotels.com og öllum hinum bókunarsíðum. Þú skoðar hvað dóma hótelin fá á Tripadvisor og jafnvel hvaða gistingum Lonely Planet mælir með í borginni. Að lokum stendur valið á milli tveggja kosta og þá er að sjá hvernig heimasíður hótelanna líta út og hvaða kjör bjóðast þar. Svo þegar komið er að því að bóka þá hefur gistingin hækkað hressilega eða ekkert er laust lengur og þá þarf að byrja upp á nýtt.

Auðvitað gengur þetta ekki alltaf svona illa en það getur engu að síður tekið óratíma að finna sér heppilega gistingu í útlöndum en hér eru nokkur ráð um hvernig má auðvelda sér leitina.

Viltu besta tilboðið?

Það getur verið stressandi að fara inn á síður eins og Booking.com og Hotels.com þar sem sífellt er verið að hamra á því að akkúrat núna sé einhver að bóka herbergi á hótelinu sem þú ert að skoða eða að bara á þessari mínútu sé þessi 60% afsláttur í boði. Þessi sölutrix hafa verið gagnrýnd enda sýnt fram á að stundum er ekki innistæða fyrir þessum yfirlýsingum og sérstaklega ekki afsláttarprósentunni. Við höldum samt áfram að skoða þessar síður því þar bjóðast oft góð kjör. Túristi hefur hins vegar lengi mælt með því að lesendur noti leitarsíðu HotelsCombined til að bera saman tilboð allra þessara bókunarsíðna og líka Trivago.  Þessar leitarvélar birta nokkur tilboð fyrir hvert hótel og þannig má fá yfirsýn yfir tilboðsflaumin á einfaldan hátt. Stóri gallinn við þessar leitarvélar er sá verðið sem þar birtist er ekki alltaf með söluskatti og því hækkar prísinn stundum þegar komið er inn á bókunarsíðuna sjálfa.

Það sem hins vegar góð regla að skoða alltaf líka hvaða kjör eru í boði á heimasíðum hótelsins sjálfs. Hótelin borga nefnilega sölusíðunum þóknanir og reyna stundum að komast hjá því með bjóða þeim gestum sem bóka beint betra verð.

Viltu betra hótel?

Ef þú vilt að hótelið verði einn af hápunktum ferðarinnar jafnvel þó að sé ekki fimm stjörnu hótel þá mælir Túristi með úrvalinu hjá Tablet Hotels og Mr and Mrs Smith. Stór hluti hótelanna á þessum síðum teljast til lúxus hótela en þarna leynast oft góðir gististaðir sem rukka álíka mikið fyrir herbergin og hefðbundin þriggja stjörnu hótel.

Viltu búa á réttum stað?

Það getur einfaldað ferðalagið óskaplega að bóka hótel sem liggur vel við höggi upp á ferðir til og frá flugvelli eða er í þeim borgarhluta sem við reiknum með að verja mestum tíma í. Það má því réttlæta fyrir sér aðeins dýrari gistingu í stað þess að ferðst sífellt í leigubílum eða eyða dýrmætum tíma í neðanjarðarlest. Notaðu því Google maps til að sjá hvernig samgöngurnar eru og hversu langan tíma tekur að labba heim úr búðunum upp á hótel eða að veitingastöðunum sem heilla mest. Á bókunarsíðunum er oftast hægt að sía leitina eftir ákveðnum hverfum og það gott að nýta sér þann möguleika.

Viltu sveigjanleika?

Einn af kostunum við að bóka í gegnum síður eins og Booking.com er að gistinguna þar má oftast afbóka með sólarhrings fyrirvara. Það er mikill kostur ef ferðaplön breytast eða ef þú finnur betra tilboð annars staðar. Á sama hátt vilja sumir bíða með að bóka gistinguna fram á síðustu stundu vitandi að þá er oft hægt að gera góð kaup.

Viltu barnarúm eða barnaherbergi?

Það þarf alltaf að gefa upp aldur barnanna áður en hægt er að leita eftir lausum herbergjum. Stundum gefa hótelin eða bókunarsíðum foreldrunum val um að hafa börnin upp í rúmi hjá sér en það er ekki alltaf svo og sérstaklega þegar þau eru komin á skólaaldur. Þá fara sumar bókunarsíður í baklás og bjóða bara upp á sérherbergi fyrir krakkana og þá verður gistingin allt í einu fokdýr. Þá borgar sig heldur að heyra í hótelinu sjálfu og sjá hvaða lausnir starfsfólk þess býður.

Viltu bílastæði?

Þó það einfaldi oft ferðalagið að geta keyrt á milli staða þá getur verið vesen að leggja bílnum. Sum hótel bjóða upp á bílastæði en oftar en ekki borgar þú aukalega fyrir það. Það er því betra að skoða verðskrá hótelsins sjálfs hvað það varðar því það er ólíklegt að Booking.com eða aðrar síður hafi þessar upplýsingar.

Sem fyrr segir þá er það þægilegt fyrsta skref í leitinni að byrja á skoða öll tilboðin sem leitarvélar HotelsCombined og Trivago finna. En það er góð regla að skoða líka hvað er í boði á heimasíðu viðkomandi hótels, þar gætu leynst góð tilboð líka.

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …