Samfélagsmiðlar

Viðkvæm staða í fluginu býður upp á verðstríð í vetur

Það er dýrara að reka flugfélag í dag en fyrir ári síðan en þrátt fyrir það er ekki víst að það muni koma fram í fargjöldunum á næstunni.

Farmiðaverðið í vetur gæti reynst neytendum hagstætt en eigendum flugfélaganna ekki.

Forsvarsmönnum WOW air tókst að selja skuldabréf fyrir rúma 6,4 milljarða í útboðinu sem farið hefur fram síðustu vikur. Í tilkynningu sem félagið sendi út í fyrradag segir að aukalega verði gefin út skuldabréf fyrir um 1,3 milljarð króna. Ekki liggur fyrir hvort þessi viðbót er í höfn eða ekki en stjórnendur WOW munu ekki ætla að tjá sig um útboðið að svo stöddu. Þar með fæst ekki heldur svar við því hvort söluvirði allra skuldabréfanna skili sér til WOW eða hvort hluta er haldið eftir, t.d. af kröfuhöfum. Og hvaða áhrif hefur það á framtíðarplön WOW að ekki seldust skuldabréf fyrir allt að 12 milljarða eins og upphaflega var lagt upp með.

Vissu lítið um WOW þar til í sumarlok

Hvað sem þeim vangaveltum líður þá er ljóst að starfsemi WOW er komin á flug á ný og óttinn við skyndilegt hrun í ferðaþjónustu hér á landi í haust er ástæðulaus. Það er þó engum blöðum um það að fletta að staða stjórnenda WOW er snúnari núna en oft áður. Útboðsgögnin fóru víða og nú þekkja samkeppnisaðilaranir félagið miklu betur. Þar til nú í sumarlok vissu stjórnendur Icelandair, Norwegian og Lufthansa nánast ekki neitt annað um fjárhag WOW air en að félagið hafði skilað 4,3 milljarða hagnaði árið 2016 og að sætanýtingin hækkaði í hverjum einasta mánuði. Í útboðsgögnum WOW birtast aftur á móti ítarlegar upplýsingar um reksturinn, tapið í fyrra og í ár og hvernig viðsnúningurinn á næsta ári á að nást.

Vonandi tekst að snúa við blaðinu og koma rekstrinum réttum megin við núllið. Það vona sennilega allir nema kannski þeir sem eiga í mestri samkeppni við WOW. Og það er ekki útilokað að núna, þegar viðkvæm staða WOW er opinber, að þá sjái stjórnendur annarra flugfélaga sér leik á borði. Einhverjir þeirra gætu hugsað með sér að það sé ódýrara að fara í verðstríð núna og tapa á farmiðunum tímabundið í stað þess að hækka fargjöldin í takt við hækkandi olíuverð og leyfa WOW að ná vopnum sínum á ný.

Gætu þolað tímabundið tap

Stjórnendur Icelandair hafa ítrekað sagt að þeir geri ráð fyrir hækkandi fargjöldum í ár. Það hefur hins vegar ekki gengið eftir og það er ein helsta ástæða þess að afkoma félagsins hefur versnað til muna. Félagið á hins vegar sjóði og gæti þolað tap í einhvern tíma. Sérstaklega ef það væri liður í því að gera helsta samkeppnisaðilanum hér heima erfitt fyrir. Í Noregi hafa svo líklega stjórnendur Norwegian legið yfir upplýsingum um WOW og þeir gætu líka gert sér mat úr stöðunni. Fjárhagur norska flugfélagsins er þó ekki upp á marga fiska og þurftu eigendur þess að leggja því til aukið fjármagn í vor. Skrifast slæm staða félagsins einna helst á harða samkeppni í flugi milli Norður-Ameríku og Evrópu en Norwegian er það félag sem hefur bætt mestu við framboðið í flugi yfir Atlantshafið síðustu ár og það í nafni lágra fargjalda. Tekjurnar hafa hins vegar ekki dugað fyrir kostnaði. Félagið á engu að síður stóran flugflota og til stendur að selja elstu vélarnar til að koma fjárhagnum á réttan kjöl. Áfram er því útlit fyrir að Norwegian geti haldið farmiðaverðinu lágu og það gæti reynst íslensku félögunum erfitt. Sérstaklega WOW air þar sem fjárhagsstaða félagsins er veikari.

Það er heldur engum blöðum um það að fletta að það er almennt ódýrt að fljúga um þessar mundir. Fargjöld vetrarins eru til að mynda í mörgum tilfellum nokkru ódýrari en þau sem voru í boði verðkönnunum sem Túristi gerði á árunum 2011 til 2016. Og farmiðaverðið sem var fátítt þá er núna áberandi á bókunarsíðum flugfélaganna. Það ástand gæti varað miklu lengur alla vega á meðan staðan á markaðnum er svona brothætt.

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …