Ef kaup Indigo Partners á WOW air verða að veruleika þá gætu nýir eigendur breytt íslenska lággjaldaflugfélaginu í einskonar gerviflugfélag. Þannig gætu þeir gert farþegum hins bandaríska Frontier að fljúga til Íslands og skipta þar yfir í þotu á vegum ungverska flugfélagsins Wizz air en þó sem farþegar WOW air. Indigo Partners á nefnilega Frontier og fer með stóran hlut í Wizz air. Kaupin á WOW myndu þá vera liður í að tengja saman leiðakerfi flugfélaganna tveggja. Þetta er alla vega tilgáta flugsérfræðingsins Samuel Engel í grein í Forbes tímaritinu.
Hugmyndin um að nýta vörumerkið WOW til að fljúga farþegum milli Evrópu og N-Ameríku með þotum Frontier og Wizz air er áhugaverð. Það verður þó að teljast harla ólíklegt að þessi viðskiptaáætlun sé á borðinu hjá eigendum Indigo Partners. Flækjustigið við að tengja saman flugferðir ólíkra flugfélaga hefur til að mynda lengi staðið í vegi fyrir því að lággjaldaflugfélög bjóði upp á þennan valkost. Hvað þá þegar um er að ræða „últralággjaldaflugfélög“ líkt og stjórnendur Indigo Partners sérhæfa sig í að eiga og reka.
Uppbygging leiðakerfa Frontier og Wizz Air í dag er svo annar þröskuldur. Allar starfstöðvar Wizz air eru í austurhluta Evrópu ef frá eru taldar stöðvarnar í Vínarborg og í Luton skammt frá London. Farþegar Frontier, sem kæmu frá Bandaríkjunum, gætu því nær eingöngu flogið áfram frá Íslandi til borga í Póllandi, Rúmeníu, Ungverjalandi, Bosníu, Slóvakíu eða Úkraínu. Og farþegar Wizz air, frá þessum löndum, hefðu ekki úr miklu að moða ef ferðinni yrði haldið áfram með Frontier flugvél til Bandaríkjanna frá Keflavíkurflugvelli. Þeir gætu þá aðeins flogið til Denver, Orlando, Chicago eða Trenton sem er skammt frá Philadelphia. Frontier er reyndar líka með starfsstöð í Las Vegas en Airbus þotur flugfélagsins drífa ekki þaðan til Íslands.
Það er ósennilegt að markaðurinn fyrir ferðir til Denver sé ýkja stór í Varsjá, Skopje, Búkarest eða Kænugarði. Og þeir eru kannski ekki nógu margir sem sem eru á leið frá Trenton í Bandaríkjunum til Belgrad, Wroclaw, Vilnius eða Timisoara. Ef Indigo ætlar í raun að nýta sér Keflavíkurflugvöll sem tengistöð fyrir Wizz air og Frontier þá þyrftu flugfélögin að opna starfsstöðvar í evrópskum og bandarískum stórborgum líkt og WOW air hefur gert. Það myndi þó hafa í för með sér hækkandi rekstrarkostnað hjá Frontier og Wizz Air og kaupin á WOW myndu því kalla á umtalsverðar fjárfestingar.
Það má líka velta því fyrir sér afhverju Indigo Partners þyrfti á WOW að halda til að halda úti útgerð eins og Forbes lýsir. Evrópskt og bandarískt flugfélag geta í dag boðið upp á tengingar frá Keflavíkurflugvelli jafnvel þó þau eigi ekki hlut í íslensku flugfélagi. Hver raunveruleg sýn Indigo Partners er fyrir WOW air gæti komið í ljós á næstu dögum.