Samfélagsmiðlar

Þessi eru nefnd í tengslum við stjórnarkjör Icelandair

Framboðsfrestur til stjórnarkjörs hjá Icelandair Group rennur út um mánaðamótin. Nú þegar eru nokkrir nefndir sem álitlegir frambjóðendur.

Neðri röð frá vinstri: Björgólfur Jóhannsson, Helga Árnadóttir, Guðni Hreinsson, Ragnhildur Geirsdóttir, Ragna Árnadóttir og Þórunn Reynisdóttir.

Það er ljóst að eitt sæti losnar í stjórn Icelandair Group á aðalfundi félagsins í næsta mánuði því Ásthildur Otharsdóttir, sem setið hefur í stjórninni síðustu sjö ár, gefur ekki kost á sér að nýju. Innan fjármála- og ferðageirans eru farnar af stað bollaleggingar um hverjir það eru sem muni gefa kost á sér í stjórnina og þykir flestum viðmælendum Túrista það vera ljóst að von sé á uppstokkun. Staða Úlfars Steindórssonar, stjórnarformanns, mun þó vera sterk. Er þá ekki bara vísað til starfa hans heldur líka umtalsverðar persónulegrar fjárfestingar hans í félaginu og nauðsyn þess að halda ákveðnum stöðugleika í stjórninni.

Aðrir í stjórnarmenn gætu hins vegar séð fram á að missa sæti sín og einn þeirra sem nefndur hefur verið sem nýr stjórnarmaður er Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandair Group. Á það er bent að hefð hafi skapast innan Icelandair fyrir því að farsælir forstjórar félagsins setjist síðar í stjórn þess. Það hafi Sigurður Helgason gert og líka alnafni hans þar á undan.

Annar forstjóri Flugleiða, Ragnhildur Geirsdóttir, er jafnframt sögð álitlegur kostur fyrir stjórn Icelandair. Sú staðreynd að hún hafi nýverið látið af starfi sem aðstoðarforstjóri WOW air þykir þó flækja fyrir mögulegu framboði hennar. Helga Árnadóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónstunnar og núverandi framkvæmdastjóri þró­un­ar-, sölu- og markaðssviðs Bláa lónsins, er að mati viðmælenda Túrista talin líkleg til að fá brautargengi gefi hún kost á sér í stjórn Icelandair Group. Meðmælendur Helgu vísa til reynslu hennar úr ferðageiranum og hversu vel hún þekki flugfélagið eftir að sinnt þar ýmsum stjórnendastöðum.

Nafn Þórunnar Reynisdóttur, forstjóra Ferðaskrifstofu Íslands, er jafnframt nefnt í tengslum við framboð en hún hefur, líkt og Helga, reynslu af stjórnendastörfum innan Icelandair og jafnframt í innlendum og erlendum ferðaþjónstufyrirtækjum. Þess má geta að í Fréttablaðinu í dag er Þórunn orðuð við stjórnarframboð og í frétt blaðsins er vísað til þess að Pálmi Haraldsson, eigandi Ferðaskrifstofu Íslands, er nú í hópi tuttugu stærstu hluthafa í Icelandair.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, og fyrrum stjórnarmaður í Icelandair er einnig sögð geta átt möguleika á endurkomu í stjórn Icelandair en hún átti þar sæti um árabil en náði ekki endurkjöri í fyrra.

Björg­vin Skúli Sig­urðsson, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Kortaþjón­ust­unn­ar og þar á undan yfirmaður viðskiptaþró­un­ar­sviðs Lands­virkj­unn­ar, hefur líka verið nefndur sem frambærilegur frambjóðandi. Sömuleiðis fyrrum samstarfskona hans í Landsvirkjun, Ragna Árnadóttir. Þá sérstaklega vegna starfa hennar sem formaður „Rögnunefndarinnar“ en sú þekking sem hún aflaði sér vegna í tengslum við þá vinnu þykir geta komið að góðum notum í stjórn Icelandair núna þegar staða innanlandsflugs er óljós og flugfélagsins bíður það verk að taka afstöðu til uppbyggingar flugvallar við Hvassahraun.

Fyrrum framkvæmdastjóri Loftleiða, Guðni Hreinsson, er líka talinn geta átt fullt erindi í stjórn Icelandair Group eftir að hafa rekið dótturfélag þess með góðum árangri um langt skeið. Jón Björnsson, fyrrum forstjóri Festis og Magasin du Nord í Danmörku, var einn þeirra sem orðaður var forstjórastöðuna í Icelandair eftir að Björgólfur lét af störfum er. Hann er nú ofarlega á blaði yfir þá sem taldir eru eiga erindi í stjórn Icelandair Group í þeim ólgusjó sem félagið er í núna. Er þá litið til árangurs Jóns af viðsnúningi stórra fyrirtækja, til að mynda Festis og Magasin du Nord í Danmörku. Jón hefur einnig reynslu af stjórnarsetu í erlendum fyrirtækjum.

Flestir þeirra sem Túristi hefur rætt við eru hins vegar sammála um að Icelandair Group myndi njóta góðs af því að fá erlendan sérfræðing í flugrekstri inn í stjórn fyrirtækisins. Bent er á að flugfélagið starfi á alþjóðlegum mörkuðum og það mætti endurspeglast í stjórn fyrirtækisins. Fresturinn til þess að undirbúa framboð erlends sérfræðings er hins vegar ekki talinn nægjanlegur fyrir aðalfundinn sem fram fer 8. mars. Þess ber að geta að Túristi hefur ekki kannað hug ofantalinna einstaklinga til framboðs í stjórn Icelandair Group.

 

 

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …