Samfélagsmiðlar

Skiptastjórar skammta svör

Fréttir af gangi mála í þrotabúi WOW air eru misvísandi eftir því hvor skiptastjórinn tjáir sig.

Þegar umsvif WOW air voru mest þá stóð félagið fyrir þriðju hverri flugferð frá Keflavíkurflugvelli, var með ríflega þúsund manns í vinnu og var skilgreint sem kerfislega mikilvægt fyrirtæki. Innan stjórnarráðsins var starfandi sérstakur hópur sem undirbúa átti viðbrögð ef rekstur flugfélagsins færi úr skorðum.

WOW fór svo í þrot í lok mars og lögmennirnir Þorsteinn Einarsson og Sveinn Andri Sveinsson voru skipaðir yfir þrotabúið. Skipun þeirra var nokkuð umdeild en líkt og Túristi greindi frá hafði Þorsteinn verið í forsvari fyrir Isavia í stórum málum.

Sem fyrr segir fara þeir félagar núna fyrir þrotabúi fyrirtækis sem var metið þjóðhagslega mikilvægt og stefnir í að kröfurnar munu nema tugum milljarða króna. WOW skuldaði Isavia rúma tvo milljarða, Umhverfisstofnun hefur lagt 3,8 milljarða króna stjórnvaldssekt á búið og Flugfreyjur krefjast milljarðar svo fáein dæmi séu nefnd.

WOW air átti þó engar flugvélar né fasteignir og helstu verðmætin því ekki eins ekki auðseljanleg.  Þann 10. júlí hafði Vísir það hins vegar eftir Sveini Andra Sveinssyni að ónefndur aðili hefði keypt það „verðmætasta úr þrotabúinu“ án þess þó að tilgreina sérstaklega um hvað eignir væri að ræða. Tveimur dögum síðar sagði Fréttablaðið frá því að amerískir fjárfestar hefðu fest kaup á vörumerki, bókunarvél og flugrekstrarbókum WOW og staðfesti Sveinn Andri í fréttinni að uppsett kaupverð hefði verið greitt en vildi ekki tjá sig frekar.

Allar götur síðan hefur Túristi og líklega fjöldi annarra fjölmiðla reynt að fá skýrari svör frá Sveini Andra um málið og sérstaklega eftir frétt viðskiptakálfs Moggans í síðustu viku um að kaupverðið hefði í raun ekki verið greitt. Sveinn Andri svarar þó engu og það hafa heldur engin svör fengist frá Þorsteini.

Hann tjáir sig hins vegar við Mbl.is í dag og staðfestir að kaupum Michele Ballarin og amerískra fjárfesta á eignum WOW hafi verið rift. Af frétt Mbl að dæma þá hefur Þorsteinn ekki verið spurður um fyrri fullyrðingar Sveins Andra um að kaupverðið hafi verið greitt. Þar með liggur það ekki fyrir á þessari stundu hvort það hafi einhvern tíma verið greitt fyrir „verðmætustu“ eignir WOW líkt og Sveinn Andri hafði staðfest.

Mbl.is hefur það jafnframt eftir Þorsteini að fleiri hafa sýnt eignum úr þrotabúi WOW áhuga og tiltekur sérstaklega varahluti í Airbus þotur. Hann segir ekkert um sölu á vörumerkinu og bókunarvélinni. Og frá Sveini Andra heyrist ekki orð ef frá er talið stutt viðtal við hann í Fréttablaðinu fyrir helgi um færslu sem hann hafði sett inn á Facebook um óskylt efni.

Á meðan Þorsteinn heldur áfram að skammta Mogganum stutt svör og Sveinn Andri gerir slíkt hið sama við Fréttablaðið þá stefnir í að það komist seint upp á yfirborðið hvað þeir félagar hafa selt, fyrir hvaða upphæð, á hvaða forsendum og hvaða samningum hefur nú verið rift. Kröfuhafar WOW air munu skiljanlega vera farnir að ókyrrast.

Nýtt efni

Margir sem eru að basla í ferðaþjónustu fjarri höfuðborgarsvæðinu horfa öfundaraugum til Suðurlands, sem nýtur nálægðar við Keflavíkurflugvöll og Reykjavík - og státar af áfangastöðum sem ferðamenn sækjast eftir að heimsækja og hafa verið mjög vel kynntir síðustu áratugi.   Það er stöðugur straumur ferðamanna um Suðurland, meðfram „gullströndinni,“ sem hótelhaldarinn fyrir austan nefndi svo - …

Löngu áður en hið svokallaða „Bulletproof“ kaffi leit dagsins ljós settu Tíbetar smjörklípu út í morgunteið sitt til að byrja daginn á rjúkandi og næringarríkan hátt. Í köldu háfjallalofti Himalaja-fjallanna hefur þessi salti, rjómakenndi og hitaeiningaríki drykkur orðið að daglegri hefð sem er ómissandi í matarmenningu þjóðarinnar.Á máli heimamanna nefnist drykkurinn „po cha,“ sem einfaldlega …

Í nærri fimmtán hafa Icelandair og bandaríska flugfélagið Jetblue átt í samstarfi sem gerir viðskiptavinum þeirra kleift að kaupa tengiflug með hinu félaginu á einum miða og innrita farangur alla leið. Þannig getur farþegi sem ætlar héðan til Orlando í sumar keypt farið alla leið hjá Icelandair þó flogið sé með Jetblue seinni legginn, frá …

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …