Samfélagsmiðlar

Bæta í flugið frá Grænhöfðaeyjum

Höfuðborg Bandaríkjanna er einn þeirra áfangastaða sem bætast brátt við leiðakerfi Capo Verde Airlines. Jens Bjarnason, forstjóri flugfélagsins, segist vænta þess að talsverð eftirspurn verði eftir ferðum milli Vestur-Afríku og Bandaríkjanna.

Ein af þotum Capo Verde Airlines. Stél þota félagsins eru í mismunandi litum.

Í byrjun desember fara þotur Capo Verde Airlines jómfrúarferðir sínar til borganna Lagos í Nígeríu, Luanda í Angóla, Porto Alegre í Brasilíu og Washington í Bandaríkjunum. Þar með verða áfangastaðirnir flugfélagsins í Evrópu, Afríku og Suður- og Norður-Ameríku þrettán talsins. Og á sama tíma stækkar flugfloti þess úr þremur Boeing þotum í fimm. Flugfélagið er að meirihluta í eigu íslenskra fjárfesta og dótturfélags Icelandair Group.

Forstjóri Capo Verde Airlines er Jens Bjarnason sem áður var einn af framkvæmdastjórum Icelandair. Jens segir nýju áfangastaðina fjóra sérstaklega valda með tilliti til þeirra möguleika sem þeir opna fyrir tengifarþega. „Allir þessir nýju staðir eru valdir vegna tengiflugsins og þarna erum við í raun komin á þann stað að geta staðið við slagorðið okkar, „Connecting Four Continents“. Við væntum þess að það verði talsverð eftirspurn eftir flugi milli vestur Afríku og Bandaríkjanna.“

Ferðalagið með Cape Verde Airlines frá Washington til höfuðborga Senegal og Angóla tekur um 12 tímar en það bætast í að minnsta sex tímar við ef ferðast er með Air France eða hinu portúgalska TAP.  Fargjöld þeirra félaga eru líka mun hærri eins og staðan er í dag samkvæmt lauslegri athugun Túrista. Aftur á móti eru ferðir Cape Verde Airlines ekki eins tíðar og til að byrja með verður flogið til Dulles flugvallar við Washington þrisvar í viku.

Jens bendir einnig á að frá brasilísku borginni Porto Alegre sé lítið um bein flug til Evrópu því einnig bundnar vonir við fjölda tengifarþega á þeirri flugleið. Áfangastaðir Capo Verde Airlines í Evrópu eru í dag borgirnar Lissabon, Róm, Mílanó og París og ferðalagið frá brasilísku borginni og áfram til Parísar eða Rómar tekur tæpa sextán klukkutíma. Heimferðin er um tveimur tímum styttri. Ferðalagið með Air France frá París til Porto Alegre tekur um fimmtán og hálfa klukkustund með millilendingu í Sao Paulo í Brasilíu.

Farþegar sem fljúga með Icelandair yfir Norður-Atlantshafið þurfa oft ekki að bíða nema í tæpa klukkustund í Leifsstöð á milli flugferða. Tengitíminn er lengri fyrir þá sem fljúga með Capo Verde Airlines yfir hafið. „Í langflestum tilvikum er tengitíminn innan við tvær klukkustundir. Við viljum fara varlega í að stytta tímann meira en það á meðan við og flugvöllurinn erum að ná tökum á að reka svona tengistöð. Við höfum séð miklar framfarir í afgreiðslutíma á síðustu mánuðum sem lofar góðu með framhaldið,“ segir Jens og bætir því við að hlutfall tengifarþega hjá flugfélaginu sé í dag 48 prósent. Til samanburðar þá hefur hlutafallið verið rúmur helmingur hjá Icelandair síðustu ár.

Þær eru tíu eyjarnar sem tilheyra Grænhöfðaeyjum og á sjö þeirra eru flugvellir. Jens segir því að öflugt innanlandsflug skipti miklu máli fyrir alþjóðaflug Capo Verde Airlines sem er í boði á tveimur þeirra, Sal og Praia. „Við áætlum að 10 til 15 prósent farþega muni nýta sér tengiflug til annarra eyja hér á Grænhöfðaeyjum. Vandi okkar fram að þessu hefur verið sá að flugfélagið sem sinnir innanlandsflugi hér hefur ekki treyst sér til að breyta sinni flugáætlun til að bjóða upp á slíkar tengingar. Við sjáum þó fram á betri tíma því þessa dagana er annar aðili að hefja flug á ATR-42 flugvélum í samstarfi við okkur. Við ætlum einnig að bjóða upp á „Stopover“ fyrir tengifarþega og þar er lykilatriði að hafa góðar tengingar.“

Icelandair samsteypan á 36 prósent hlut í Capo Verde Airlines og stjórnformaður þess er Björgólfur Jóhannsson, fyrrum forstjóri Icelandair Group en hann á einnig hlut í félaginu. Og þoturnar sem nýttar eru í áætlunarflugið frá Grænhöfðaeyjum eru í eigu Icelandair. Kyrrsetning á Boeing MAX þotum um heim allan hefur hins vegar orðið til þess að það félag hefur sjálft þurft að leigja flugvélar. Aðspurður segist Jens þó ekki reikna með að kyrrsetningin muni hafa áhrif á flugáætlunina frá Grænhöfðaeyjum en hún gæti orðið til þess að leigja þyrfti flugvélar annars staðar frá.

Áætlanir hinna nýju íslensku eigenda Capo Verde Airlines gera ráð fyrir að félagið skili fyrst hagnaði árið 2021. Aðspurður um hvernig gangi að styrkja félagið þá segir Jens að sú fimm ára viðskiptaáætlun, sem lá til grundvallar kaupum á félaginu, hafi gert ráð fyrir að félagið yrði komið með tólf flugvélar í rekstur árið 2023. „Í dag er ekkert sem segir okkur annað en að það geti gengið eftir. Reiknað var með taprekstri fyrstu tvö árin en félagið hefur tryggt sér aðgang að fjármagni sem brúar það bil miðað við forsendur viðskiptaáætlunarinnar.“

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …