Samfélagsmiðlar

Góður gangur í flugi Lufthansa til Íslands

Lufthansa Group er stærsta flugvélasamsteypa Evrópu en félagið er þó ekki umsvifamikið á Keflavíkurflugvelli. Á því eru ýmsar skýringar og hafa í sjálfu sér meira með legu landsins að gera og umrót á þýska markaðnum að gera

Íslenskir farþegar eru rétt um átta af hverjum hundrað farþegum sem fljúga með Lufthansa frá Keflavíkurfllugvelli.

„Heilt yfir þá erum við mjög ánægð með flugið til Íslands. Í fyrra fjölgaði farþegunum þar um 22 prósent þrátt fyrir að framboðið hafi aðeins verið aukið um 12 prósent á sama tíma. Sætanýtingin var því góð en tölur fyrir þetta ár eru ekki ennþá opinberar,” segir Andreas Köster, sölustjóri Lufthansa Group fyrir Bretland, Írland og Ísland, í samtali við Túrista. Innan þýsku samsteypunnar eru nokkur evrópsk flugfélög en aðeins hluti þeirra flýgur hingað. Þannig hefur Ísland ekki ennþá komist á kortið hjá Austrian, Swiss eða Brussels Airlines.

Þotur Lufthansa fljúga þó hingað allt árið frá Frankfurt og yfir sumarmánuðina frá Munchen. Yfir aðalferðamannatímabilið bætast einnig við ferðir frá Eurowings og því til viðbótar bjóða leiguflugfélögin Austrian Holidays og Eidelweiss upp á ferðir hingað yfir háönnina. Yfir vetrarmánuðina takmarkast ferðir þessarar stærstu flugfélagasamsteypu Evrópu við ferðir þrjá brottfarir í viku á vegum Lufthansa frá Frankfurt.

Á þessu verða ósennilega gerðar miklar breytingar á næstunni þrátt fyrir fyrrnefnda fjölgun farþega og bætta sætanýtingu. „Flugtíminn til Íslands frá Frankfurt er nokkuð langur og þar með þarf að taka frá þotu í lengri tíma til að sinna ferðunum. Fyrir suma af keppinautum okkar, sem bjóða upp á tíðari brottfarir til Íslands, tekur flugið skemmri tíma,” bætir Köster við og segist ánægður með mynstrið sem er í flugáætluninni til Íslands eins og er. „Það er mikilvægt að dreifa þjónustunnni á milli flugfélaga og þar sem Frankfurt er ennþá aðal tengistöðin er ég ánægður með að fljúgum þaðan allt árið til Íslands.”

Niðurstöður landamærakönnunar Ferðamálastofu sýna að rétt um þrír af hverjum eitt hundrað ferðamönnum hér á landi eru í vinnuferð. Þetta er mun lægra hlutfall en í löndunum í kringum okkur en sú staðreynd er ekki ástæða þess að Lufthansa eykur ekki umsvif sín hér á landi að sögn Köster. „Við viljum líka fá fleiri farþega um borð sem eru á leið í frí.”

Smæð íslenska markaðarins vegur kannski þyngra í því samhengi. Köster bendir til að mynda á að aðeins átta af hverjum hundrað farþegum sem nýta sér ferðir Lufthansa frá Keflavíkurflugvelli eru Íslendingar. Fjórðungurinn komi frá Þýskalandi og Ítalír eru álíka fjölmennir. Aðspurður um ferðir íslensku farþeganna þá segir Köster að um áttatíu prósent þeirra haldi sig í Evrópu en bróðurpartur þeirra millilendi aðeins í Frankfurt eða Munchen og haldi svo áfram til annarra áfangastaða í álfunni. Um tíundi hver Íslendingur flýgur áfram með Lufthansa til Asíu og Eyjaálfu á meðan rétt um fjögur prósent nýta sér áætlunarflug þýska félagsins til Afríku.

Sem fyrr segir þá er lággjaldaflugfélagið Eurowings hluti af Lufthansa Group og en það félag hefur dregið töluvert úr flugi til Íslands undanfarin ár. Í júlí 2016 stóð félagið til að mynda fyrir 45 brottförum héðan til fimm þýskra borga samkvæmt talningu Túrista. Í nýliðnum júlí voru ferðirnar aðeins 18 talsins til tveggja borga. Skýringin á þessum mikla samdrætti skrifast þó ekki á minni hylli Íslands sem áfangastaðar að sögn Köster. „Eurowings er fyrst og fremst að takast á við tvö verkefni. Annars vegar samkeppni lággjaldaflugfélaga á heimamarkaði og hins vegar fjölgun ferða til Mallorca.” Hann bætir því við að Eurowings verði að sýna stöðugleika í rekstri og þyrfti því í raun að hafa úr fleiri flugvélum að moða til að geta sinnt fleiri mörkuðum með skilvirkum hætti. „Eurowings kemur vonandi aftur af meiri þunga til Íslands á næstu árum.”

Auk Lufthansa þá flýgur Icelandair daglega til Frankfurt og það gerði WOW air líka. Sölustjóri Lufthansa segir þó ekki hægt að sjá einhverjar sérstakar breytingar á þeirri flugleið eftir fall WOW air. „Auðvitað eru eru alltaf einhver áhrif en Lufthansa flýgur til 73 landa og því mikið um tengifarþega hjá okkur. Breytingar á eftirspurn á milli tveggja landa hefur því lítil áhrif á heildina,” segir Köster að lokum.

Nýtt efni

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …

Fyrir viku hélt Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fund með helstu ráðgjöfum sínum, innanríkisráðherra og fulltrúum veðurstofu og almannavarna landsins til að ræða viðbrögð við hitatíðinni framundan, frá apríl til júní. Sérstaklega er talin ástæða nú til aðgæslu vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar. Verulegar líkur eru taldar á að hiti fari fram úr venjulegum hámarkshita í …

Frumvarp um að veita þúsundum óskráðra innflytjenda á Spáni heimild til landvistar og atvinnu er nú til meðferðar í fulltrúadeild spænska þingsins (Congreso de los Diputados) eftir að 700 þúsund manns höfðu undirritað áskorun um setningu laga þessa efnis. Nærri 900 samtök studdu þessa áskorun um að breyta stöðu óskráðra útlendinga í landinu.  Ef fyrirliggjandi …