Planta þarf fimm trjám fyrir 1.009 krónur til að kolefnisjafna flugferð héðan til Kaupmannahafnar og heim aftur með Icelandair ef farþeginn er á Saga Premium farrými. Ef viðkomandi hefur látið sér duga sæti aftar í vélinni þá þarf að gróðursetja þrjú tré til að kolefnisjafna flugið til Danmerkur og heim aftur. Ef ferðinni er heitið alla leið til San Francisco, á vesturströnd Bandaríkjanna, þá þarf farþegi á Saga Premium að kaupa sextán tré. Sá sem situr á almennu farrými léttir hins vegar á flugviskubitinu með kaupum á ellefu trjám fyrir 2.116 krónur.
Þetta sýnir ný reiknivél um kolefnislosun á heimasíðu Icelandair sem gerir farþegum félagsins kleift að kolefnisjafna flugferðir sínar í gegnum Kolvið áður en lagt er í hann.
Aðspurð segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að flugfélagið leggi ekki til mótframlag. Nýverið hóf skandinavíska flugfélagið SAS hins vegar að kolefnisjafna allar flugferðir vildarklúbbsfélaga, starfsmanna og yngri farþega þeim að kostnaðarlausu. Segja má að Icelandair gangi því mun skemmra en SAS sem er einmitt í töluverðri samkeppni við Icelandair í flugi milli Skandinavíu og Norður-Ameríku.
Flugfélög hafa um árabil boðið farþegum að kolefnisjafna flugferðir sínar og til að mynda hrinti KLM þess háttar átaki úr vör árið 2008. Í haust tvöfaldaði flugfélagið á tímabili framlag farþega í tengslum við ákveðið átak. Og nú færist í vöxt að flugfélög bjóði farþegum að kaupa lífdísel fyrir ákveðna upphæð í tengslum við hverja flugferð.