Samfélagsmiðlar

Sérstaða Icelandair ef norska ríkið bjargar Norwegian

Finnskir, sænskir og danskir ráðamenn fara fyrir stórum hlutum í Finnair og SAS. Nú gæti norska ríkið á ný eignast hlutabréf í flugfélagi og þar með yrði Icelandair eina norræna millilandaflugfélagið sem er alfarið í einkaeigu.

Þotur SAS og Norwegian á Kaupmannahafnarflugvelli.

Óvissan um framtíð Norwegian er mikil þessa dagana og umræðan í Noregi minnir um margt á spennuna hér á landi fyrir ári síðan þegar WOW air var á leið í þrot. Líkindin með félögunum tveimur eru líka töluverð þó Norwegian sé vissulega margfalt umsvifameira en WOW air var.

Annar stór munur á félögunum tveimur er sá að það norska er skráð á hlutabréfamarkað. Stjórnendur þess þurfa því að veita reglulegar upplýsingar um reksturinn. Gríðarlegar skuldir eru því ekkert leyndarmál og nú þegar tekjurnar eru í lágmarki, vegna útbreiðslu kórónaveirunnar, þá hefur vandi Norwegian margfaldast. Í lok síðustu helgi biðlaði því Jacob Schram, forstjóri flugfélagsins, til norskra stjórnvalda um aðstoð við að bæta lausafjárstöðu félagsins.

Þegar þarna var komið við sögu hafði gengi hlutabréfa í félaginu lækkað um áttatíu prósent frá því að krísan vegna útbreiðslu kórónaveirunnar hófst fyrir alvöru. Eftir þetta neyðarkall forstjórans lækkaði gengi bréfanna ennþá meira. Í morgun rauk það hins vegar upp í kjölfar frétta um að norsk stjórnvöld væru að skoða hvernig þau gætu komið félaginu til bjargar.

Sú von dofnaði þó um hádegisbilið í dag þegar varaformaður viðskiptanefndar norska Stórþingsins sagði það ekki áhugavert að kaupa gríðarlega skuldsett fyrirtæki sem spákaupmenn halda uppi verðinu á. Í framhaldinu fór gengi hlutabréfanna að dala á ný.

Norskir ráðamenn hafa samt ekki ennþá gefið það endanlega frá sér að koma Norwegian til bjargar. Og þá jafnvel með því að koma inn með nýtt hlutafé en norska ríkið hefur áratuga reynslu af flugrekstri í gegnum eignarhald sitt á SAS. Norska ríkið seldi aftur á móti tíu prósent hlut sinn í því félagi fyrir tæpum tveimur árum síðan og voru bréfin seld þegar gengi SAS var tvöfalt hærra en það er í dag.

Á næstu dögum kemur svo í ljós hvort norska ríkið eignast á ný stóran hlut í flugfélagi og haldi Norwegian í loftinu lengur. En það sænska og danska eiga ennþá sín hlutabréf í SAS og ráðherrar í þessum tveimur löndum hafa tekið jákvætt í að efla það félag í núverandi krísu. Þá jafnvel með auknu hlutafé en sænski ríkissjóðurinn á í dag 14,82 prósent í SAS og danski 14,24 prósent.

Svíarnir hafa reyndar lengi viljað selja en það vilja Danirnir alls ekki. Þá er bent á hversu mikilvægt fyrirtækið er Dönum og að Kaupmannahafnarflugvöllur sé, þegar allt er tekið saman, stærsti vinnustaður Danmerkur.

Í farþegum talið eru SAS og Norwegian álíka stór félög og gert var ráð fyrir um 30 milljónum farþega hjá hvoru félagi fyrir sig í ár. Þriðja stærsta flugfélag Norðurlanda er svo Finnair sem flutti um 15 milljónir farþega í fyrra. Þar á bæ fer finnska forsætisráðuneytið með 55,81 prósent hlut og ríkisstjórn Finnlands gaf það út í gær að hún myndi styðja flugfélagið í gegnum þessa „óvenjulegu tíma“.

Sem fyrr segir þá er ennþá ekki ljóst hvort og þá hvernig norska ríkið mun svara neyðarkalli forstjóra Norwegian. Á þessari stundu er ekki útilokað að það verði með kaupum á hlutafé og þar með verða SAS, Finnair og Norwegian öll að miklu leyti í eigu frændþjóðanna. Icelandair yrði þá það eina sem áfram yrði í eigu einkaaðila en lífeyrissjóðir fara reyndar með stærstan hlut í félaginu.

Hvort þeir og aðrir eigendur þurfi að leggja félaginu til meira fé á næstunni ræðst kannski af því hversu myndarlega ríkið ætlar að koma að stuðningi við atvinnulífið vegna kreppunnar sem kórónaveiran hefur valdið. Það eru aftur á móti vísbendingar um að stærsti hluthafi Icelandair, bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital, sé ekki aflögufær nú um mundir.


Kæri lesandi, ef þú vilt styðja við útgáfu Túrista þá smellir þú hér

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …