Samfélagsmiðlar

Seldu lendingarleyfi, flugvélar og dótturfélög til að komast á flug á ný

Í lok þessarar vinnuviku liggur fyrir hvort hluthafar í Icelandair gefa grænt ljós á að auka hlutafé félagsins og þannig koma félaginu til bjargar.

Rickard Gustafson, forstjóri SAS, kom félaginu í gegnum mikla krísu í byrjun síðasta áratugar og seldi þá mikið af eignum félagsins.

Icelandair þarf nauðsynlega á auknu lausafé að halda og í lok vikunnar greiða hluthafar fyrirtækisins atkvæði um nærri þrjátíu milljarða króna hlutafjárútboð. Allt kapp er nú lagt á að langtímasamningar við flugfreyjur félagsins liggi fyrir áður en að fundurinn hefst.

Það þarf þó meira til líkt og haft var eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, í fréttatilkynningu í síðustu viku. „Það eru fjölmargir þættir sem verða að ganga upp til að endurfjármögnun Icelandair Group gangi eftir. Einn af þeim eru langtímasamningar við flugstéttir,“ sagði forstjórinn.

Hann nefndi engin dæmi um aðgerðir en nú liggur fyrir að í komandi hlutafjárútboði stendur lánveitendum til boða hlutafé gegn lækkun skulda.

Í miðjum heimsfaraldri eins og nú geysar er sala á eignum aftur á móti ekki ákjósanleg til að ráða bóta á vandanum. Stjórnendur SAS gátu hins vegar nýtt sér þann kost þegar þeir unnu að endurreisn sinni í árslok 2012 en ákveðin líkindi eru með þeirri baráttu og lífróðri Icelandair í dag.

Kjaramálin voru þannig líka sett á oddinn hjá SAS og sérstaklega skert lífeyrisréttindi starfsfólks. Á elleftu stundu tókust samningar við starfsfólk.

Skandinavíska félagið bókfærði þó líka söluhagnað upp á ríflega milljarð sænskra króna í tengslum við sölu á dótturfélögum árin 2012 og 2013. Þar á meðal norska innanlandsflugfélagið Widerøe og einnig stóran hlut í flugþjónustufyrirtæki félagsins.

Til viðbótar fengust háar upphæðir fyrir lendingarleyfi á Heathrow árið 2012 og aftur 2015. Í fyrri viðskiptunum var eitt leyfi til að mynda selt fyrir 60 milljónir dollara en í seinna skiptið fékkst aðeins um þriðjungur af þeirri upphæð. Verðið á slottunum ræðst af því hvenær dagsins það er.

Icelandair á tvö lendingarleyfi á Heathrow en í ljósi aðstæðna í dag er sala á þeim varla fýsileg.

SAS hefur einnig komið gömlum flugvélum í verð síðustu ár og átti félagið til að mynda þrjár af þeim Bombardier flugvélum sem Icelandair Group keypti fyrir Air Iceland Connect. Reyndar voru vélarnar í eigu flugfélags í Papúa-Nýju Gíneu í millitíðinni.

SAS hefur einnig innleyst mikinn hagnað í tengslum við samninga um sölu og endurleigu á nýjum Airbus þotum. Sambærilega samninga hefur Icelandair einnig gert í tenglsum við sjö af þeim níu MAX þotum sem framleiddar hafa verið fyrir félagið. Hagnaðurinn af þessum samningum hefur þó líklega reynst Icelandair skammgóður vermir í ljósi þess að þoturnar hafa verið kyrrsettar í fjórtán mánuði og ennþá er óljóst hvenær þær fljúga á ný.

Þess ber þó að geta að þrátt fyrir að viðspyrna SAS hafi heppnast og fyrirtækið rekið réttum megin við núllið allt frá árinu 2015 þá er SAS, líkt og flest önnur flugfélög, í alvarlegri krísu í dag.

Nýtt efni

Sauðfjársetrið var stofnað árið 2002 af heimamönnum og hefur vaxið og dafnað í þeirra umsjá allar götur síðan. Nýverið hlaut það tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna fyrir samfélagslegra nálgun í safnastarfi. Í umsögn með tilnefningunni segir meðal annars að hér sé um að ræða mikilvæga og öfluga menningarstofnun sem hafi gríðarmikið gildi fyrir samfélagið á Ströndum. …

Unnið er að því á flugvellinum í Nice á Côte d´Azur að rafvæða alla starfsemi hans með 4 milljóna evra fjárstuðningi frá Evrópusambandinu. Er verkefnið liður í loftslagsstefnu sambandsins. Allar flugvélar í stæði eiga að fá aðgang að raforku sem unnin er með endurnýjanlegum hætti. Settar verða upp um 70 tengistöðvar í þessu skyni. Á …

Nýja-Sjáland var á meðal þeirra ríkja sem fylgdu hörðustu lokunarstefnunni á meðan Covid-19 geisaði. Nú vilja stjórnvöld þar blása meira lífi í ferðaþjónustu á landinu og helst utan vinsælasta tímans sem er nýsjálenska sumarið - frá desemberbyrjun til febrúarloka, þegar dagarnir eru langir og sólríkir og nætur mildar.  Ferðaþjónusta er einn helsti atvinnuvegur Nýja Sjálands …

Talsmenn þýsku sambandsstjórnarinnar staðfestu í dag að hún væri að leita lausnar á viðskiptadeilu Evrópusambandsins og Kína. Það fæli væntanlega í sér að boðuð hækkun verndartolla um allt að 38,1 prósent nái fram að ganga. Það er ekki umhyggja fyrir kínverskum hagsmunum sem ræður afstöðu þýskra stjórnvalda heldur vilja þau vernda hagsmuni stórfyrirtækja í eigin …

Schiphol-flugvöllur við Amsterdam er meðal fjölförnustu flugvalla Evrópu og hefur umferðin um hann lengi verið umdeild meðal íbúa. Umfangi flugvallarins, hávaða frá honum og mengun, hefur ítrekað verið mótmælt og brugðist hefur verið við með því að setja takmarkanir á þjónustutíma og fjölda véla sem um hann fara. Schiphol er þó og verður áfram ein …

Verulega hefur dregið úr magni ósoneyðandi gastegunda í andrúmsloftinu og þykir núna nokkuð ljóst, samkvæmt nýrri rannsókn, að hið alþjóðlega átak um að bjarga ósonlaginu hafi tekist framar vonum.  Margir sem komnir eru á miðjan aldur muna eftir brúnaþungum sjónvarpsfréttamönnum segja frá válegum tíðindum af ósonlaginu á níunda og tíunda áratugnum, inni á milli lagstúfa …

Á meðan franskir og spænskir bílaframleiðendur þrýstu á um að Evrópusambandið brygðist hart við meintum óðeðlilega miklum ríkisstuðningi Kínverja við rafbílaframleiðslu sína og hækkuðu verndartolla vöruðu þýskir keppinautar þeirra við því að slegið gæti í bakseglin: Gríðarlega mikilvægur markaður í Kína gæti lokast að verulegu leyti. Um þriðjungur af sölutekjum Mercedes Benz, BMW og Volkswagen …

Óhætt er að segja að það kosti Hlyn Guðjónsson, sendiherra Íslands í Ottawa, mikil ferðalög að sinna íslenskum hagsmunum í Kanada, sem er næst víðfeðmasta land heimsins. Sendiráð Íslands er hinsvegar lítið, starfsmenn aðeins þrír - Hlynur og tveir staðarráðnir. Nýlega var Hlynur staddur í Halifax, höfuðborg Nova Scotia. Það tekur um tvo tíma að …