Félagar í Flugfreyjufélagi Ísland (FFÍ) kolfelldu kjarasamning félagsins við Icelandair. Sá samningur var ein af forsendunum fyrir því að félagið geti farið í boðað hlutafjárútboð líkt og ítrekað hefur komið fram í máli forsvarsfólks Icelandair.
„Ég hef fullan skilning á að erfitt sé að samþykkja eins miklar breytingar á kjarasamningi og gerðar voru. Enda búið að berjast fyrir þessum kjörum í tugi ára. Það er engu að síður staðreynd að síðustu tuttugu ár hafa sprottið upp ný flugfélög með allt annan strúktur í kjaramálum. Gamalgrónir keppinautar eins og t.d. SAS og Finnair hafa af þeim sökum gert breytingar á áhafnasamningum sem leiða af sér lægri kostnað. Við höfum aftur á móti bætt við girðingum í okkar samninga og aukið flækjustig,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Hann segir að núna standi félagið á ný frammi fyrir gjörbreyttum flugheimi og breytingar á kjörum séu óumflýjanlegar. „Annars sitjum við eftir. Flugmenn áttuðu sig á þessari stöðu og unnu með félaginu að því að gera viðamiklar breytingar á kjarasamningi,“ bætir Bogi við.
Hann telur ljóst að enginn muni fjárfesta í félaginu ef ekki tekst að gera þessar breytingar.
Félagar í Flugfreyjufélagi Íslands hafa forgang í störf hjá Icelandair en það ákvæði byggir ekki á sama grunni og réttur flugmanna líkt og fram í máli Jóns Þórs Þorvaldssonar, formanns FÍA, hér á Túrista í gær.
Aðspurður vill Bogi ekki tjá sig um líkurnar á því að deilan við Flugfreyjufélag Íslands endi fyrir Félagsdómi. Og þá hvort látið verði reyna á hið fyrrnefnda forgangsréttarákvæði. Hann segir það þó liggja fyrir að ef meðlimir FFÍ vilji ekki starfa hjá flugfélaginu í þessu breytta umhverfi þá verður að leita annarra leiða. „Við erum að skoða stöðuna.“
Samkvæmt því sem Túristi kemst næst þá myndi kjaradeila Icelandair og FFÍ aðeins enda á borði Félagsdóms ef Icelandair semur við annað stéttarfélag flugfreyja og flugþjóna. Í framhaldinu væri viðbúið að Flugfreyjufélagið myndi láta reyna á fyrrnefnt forgangsréttarákvæði.