Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum hafa gefið samþykki sitt fyrir þeim betrumbótum sem gerðar hafa verið á Boeing MAX þotunum síðan þær voru kyrrsettar í mars í fyrra. Flugbannið var sett á um heim allan í kjölfar tveggja flugslysa þar sem 346 manns misstu lífið.
Með þessari ákvörðun vestanhafs getur Boeing farið að afhenda bandarískum flugfélögum þær þotur sem eru tilbúnar til afhendingar. Þær þarf þó að yfirfara á ný.
Ekki liggur fyrir hvenær ákvörðunar um afléttingu kyrrsetningarinnar í Evrópu er að vænta en Icelandair gerir ráð fyrir að hefja farþegaflug á MAX þotunum þann 1. mars.