Samfélagsmiðlar

Hefur ekki áhyggjur af markaðshlutdeild Icelandair

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

Framboð á Evrópuflugi hjá bandaríska flugfélaginu United verður meira á næsta ári en það var árið 2019 og þotur Delta munu fljúga til fleiri evrópskra áfangastaða næsta sumar en áður. Stjórnendur evrópskra flugfélaga eru líka að búa sig undir að spenna bogann. Hjá IAG, móðurfélagi British Airways, er gert ráð fyrir að framboðið næsta sumar verði á pari við það sem var 2019.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, ætlar hins vegar ekki að fara eins hratt af stað. Í Morgunblaðinu í gær boðaði hann að sætaframboðið á næsta ári yrði áttatíu prósent af því sem var 2019.

Óttist þið ekki að missa markaðshlutdeild í flugi yfir Norður-Atlantshafið með minna framboði?

„Nei, við höfum ekki áhyggjur af því hvort markaðshlutdeild breytist eitthvað örlítið upp eða niður á einstökum stórum borgarpörum yfir hafið. Við gerum okkur jafnframt grein fyrir því að þessi framboðsmynd á eftir að þróast byggt á eftirspurn og markaðsaðstæðum. Við höfum mikinn sveigjanleika til að bregðast við slíkri þróun ef þörf er á,“ svarar Bogi.

Hann segir að nú sé félagið með í sölu um áttatíu prósent af því sem var og geti bætt við og dregið úr í takt við eftirspurn.

„Núna erum við að byggja starfsemina skynsamlega upp og á þann hátt að viðskiptalíkanið virki í heild sinni, hvort sem um er að ræða flug til og frá Íslandi eða á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Við vorum í 50 prósentum á þriðja fjórðungi, förum í 65 prósent á þeim fjórða og svo 80 prósent á næsta ári. Þetta er að minnsta kosti það sem við erum að vinna með núna. Við fylgjumst hins vegar að sjálfsögðu vel með markaðnum og sem fyrr hyggjumst við nýta sveigjanleika félagsins til þess að grípa þau tækifæri sem geta skapast hverju sinni. Það eru ýmsir kraftar sem hafa áhrif á markaðinn og eftirspurnina eins og t.d. þróun Covid, eldsneytisverð o.s.frv. Því er m.a. spáð að Asíu- og Kyrrahafsmarkaðir taki hægar við sér en Atlantshafið og því eru sum flugfélög að færa lausa framleiðslugetu á milli markaða,“ útskýrir Bogi.

Í því samhengi má nefna að stjórnendur Lufthansa sjá fram á að framboðið á næsta ári verði um tuttugu prósent minna en það var árið 2019. Skýringin á því liggur að miklu leyti á þeirri staðreynd að flug til Asíu er ennþá mjög takmarkað. Á sama tíma er flug á milli Norður-Ameríku og Evrópu að komast á siglingu eftir að bólusettum Evrópubúum var á ný hleypt yfir bandarísk landamæri. Hluti af þeim flugvélum sem hefðu undir eðlilegum kringumstæðum verið á flugi milli Evrópu og Asíu verða því í staðinn á ferðinni yfir Atlantshafinu.

Play komið til sögunnar

Að horfa til ársins 2019 segir hins vegar ekki alla söguna þegar spáð í er umsvifum Icelandair á næsta ári. Sumarið 2018 var framboðið nefnilega meira því þá stóð eltingaleikur Icelandair og Wow Air sem hæst. Á þessum tíma setti útrás Norwegian líka mikla pressu á fargjöldin í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Núna er Wow Air hætt og Norwegian hefur dregið sig út af bandaríska markaðnum. Play er aftur á móti komið til sögunnar og í sumaráætlun félagsins er pláss fyrir allt að 24 ferðir í viku til Bandaríkjanna. Til samanburðar flugu þotur Wow Air 33 ferðir í viku til Norður-Ameríku sumarið 2017 en það ár skilaði félagið myndarlegum hagnaði.

Írska útgáfan að Icelandair með meira framboð

Svo má ekki gleyma samkeppni Icelandair við Aer Lingus. Þetta írska félag rær nefnilega á svipuð mið og Icelandair, bæði gera nefnilega út á farþega sem eru til í að millilenda á leiðinni yfir hafið í skiptum fyrir ódýrari fargjöld og einfaldari þjónustu. Og hjá írska félaginu er stefnt á að framboðið í sumar verði 90 prósent af því sem var sumarið 2019.

Ef þessar spá forsvarsmanna flugfélaganna ganga eftir þá gæti farið svo að Icelandair búi til rými fyrir stóru keppinautanna í flugi milli Evrópu og Ameríku en líka nýliða eins og Play.

Nýtt efni

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …

MYND: ÓJ

Kínverskir ferðamenn hafa verið töluvert áberandi í Reykjavík og víðar um land í vor. Auðvitað er fólk af kínverskum uppruna búsett um allan heim og eitthvað af því fer í Íslandsferðir en þeim hefur snarfjölgað sem koma hingað alla leið frá Alþýðulýðveldinu Kína. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli komu hingað í marsmánuði 8.642 Kínverjar og …

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …