Samfélagsmiðlar

Hefur ekki áhyggjur af markaðshlutdeild Icelandair

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

Framboð á Evrópuflugi hjá bandaríska flugfélaginu United verður meira á næsta ári en það var árið 2019 og þotur Delta munu fljúga til fleiri evrópskra áfangastaða næsta sumar en áður. Stjórnendur evrópskra flugfélaga eru líka að búa sig undir að spenna bogann. Hjá IAG, móðurfélagi British Airways, er gert ráð fyrir að framboðið næsta sumar verði á pari við það sem var 2019.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, ætlar hins vegar ekki að fara eins hratt af stað. Í Morgunblaðinu í gær boðaði hann að sætaframboðið á næsta ári yrði áttatíu prósent af því sem var 2019.

Óttist þið ekki að missa markaðshlutdeild í flugi yfir Norður-Atlantshafið með minna framboði?

„Nei, við höfum ekki áhyggjur af því hvort markaðshlutdeild breytist eitthvað örlítið upp eða niður á einstökum stórum borgarpörum yfir hafið. Við gerum okkur jafnframt grein fyrir því að þessi framboðsmynd á eftir að þróast byggt á eftirspurn og markaðsaðstæðum. Við höfum mikinn sveigjanleika til að bregðast við slíkri þróun ef þörf er á,“ svarar Bogi.

Hann segir að nú sé félagið með í sölu um áttatíu prósent af því sem var og geti bætt við og dregið úr í takt við eftirspurn.

„Núna erum við að byggja starfsemina skynsamlega upp og á þann hátt að viðskiptalíkanið virki í heild sinni, hvort sem um er að ræða flug til og frá Íslandi eða á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Við vorum í 50 prósentum á þriðja fjórðungi, förum í 65 prósent á þeim fjórða og svo 80 prósent á næsta ári. Þetta er að minnsta kosti það sem við erum að vinna með núna. Við fylgjumst hins vegar að sjálfsögðu vel með markaðnum og sem fyrr hyggjumst við nýta sveigjanleika félagsins til þess að grípa þau tækifæri sem geta skapast hverju sinni. Það eru ýmsir kraftar sem hafa áhrif á markaðinn og eftirspurnina eins og t.d. þróun Covid, eldsneytisverð o.s.frv. Því er m.a. spáð að Asíu- og Kyrrahafsmarkaðir taki hægar við sér en Atlantshafið og því eru sum flugfélög að færa lausa framleiðslugetu á milli markaða,“ útskýrir Bogi.

Í því samhengi má nefna að stjórnendur Lufthansa sjá fram á að framboðið á næsta ári verði um tuttugu prósent minna en það var árið 2019. Skýringin á því liggur að miklu leyti á þeirri staðreynd að flug til Asíu er ennþá mjög takmarkað. Á sama tíma er flug á milli Norður-Ameríku og Evrópu að komast á siglingu eftir að bólusettum Evrópubúum var á ný hleypt yfir bandarísk landamæri. Hluti af þeim flugvélum sem hefðu undir eðlilegum kringumstæðum verið á flugi milli Evrópu og Asíu verða því í staðinn á ferðinni yfir Atlantshafinu.

Play komið til sögunnar

Að horfa til ársins 2019 segir hins vegar ekki alla söguna þegar spáð í er umsvifum Icelandair á næsta ári. Sumarið 2018 var framboðið nefnilega meira því þá stóð eltingaleikur Icelandair og Wow Air sem hæst. Á þessum tíma setti útrás Norwegian líka mikla pressu á fargjöldin í flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Núna er Wow Air hætt og Norwegian hefur dregið sig út af bandaríska markaðnum. Play er aftur á móti komið til sögunnar og í sumaráætlun félagsins er pláss fyrir allt að 24 ferðir í viku til Bandaríkjanna. Til samanburðar flugu þotur Wow Air 33 ferðir í viku til Norður-Ameríku sumarið 2017 en það ár skilaði félagið myndarlegum hagnaði.

Írska útgáfan að Icelandair með meira framboð

Svo má ekki gleyma samkeppni Icelandair við Aer Lingus. Þetta írska félag rær nefnilega á svipuð mið og Icelandair, bæði gera nefnilega út á farþega sem eru til í að millilenda á leiðinni yfir hafið í skiptum fyrir ódýrari fargjöld og einfaldari þjónustu. Og hjá írska félaginu er stefnt á að framboðið í sumar verði 90 prósent af því sem var sumarið 2019.

Ef þessar spá forsvarsmanna flugfélaganna ganga eftir þá gæti farið svo að Icelandair búi til rými fyrir stóru keppinautanna í flugi milli Evrópu og Ameríku en líka nýliða eins og Play.

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …