Samfélagsmiðlar

Græna Danmörk

Ný ferðamálastefna danskra stjórnvalda beinist að því að Danmörk verði umhverfisvænsti áfangastaður ferðafólks í Norður-Evrópu. Stefnan er unnin í samráði við hagaðila í greininni og ber yfirskriftina „Þjóðarstefna um sjálfbæran vöxt í danskri ferðaþjónustu." Eitt meginmarkmið stefnunnar er að um 70 prósent allra gististaða í landinu hafi öðlast sjálfbærnivottun fyrir árið 2030.

„Danmörk á að vera græni áfangastaðurinn sem ferðafólk setur stefnuna á. Ferðaþjónusta til sjávar og sveita, hótel, veitingahús og krár ættu í meira mæli að taka mið af umhverfismálum í starfi sínu,“ segir atvinnumálaráðherrann Simon Kollerup. Þessar grænu áherslur Dana eiga að skila tekjum, stuðla að efnahagslegum vexti í landinu með fleira ferðafólki og meiri eyðslu hvers og eins. Stefnan er sett á að heildarvelta danskrar ferðaþjónustu verði um 190 milljarðar danskra króna árið 2030, segir í Standby.dk.

Byggja þarf upp mjög sterkt vörumerki fyrir ferðalandið Danmörku ef takast á að ná því metnaðarfulla markmiði að gistinætur verði 28 prósentum fleiri árið 2030. Jan Olsen, framkvæmdastjóri VisitDanmark, segir að gildi ferðaþjónustunnar hafi til þessa verið metið út frá mælistikum efnahagsvaxtar og atvinnuþátttöku en nú eigi að vega heildaráhrif á samfélagið allt, líka á umhverfi og félagslega þætti. „Við viljum að draga betur fram í dagsljósið þau verðmæti sem ferðaþjónustan skapar fyrir danskt samfélag.“ Olsen segir að Danmörk eigi mikil sóknarfæri í ferðaheiminum, laða til sín fleira erlent ferðafólk og vinna betur upp það sem tapaðist í heimsfaraldrinum.

„Verkefnið er ekki aðeins að komast á toppinn heldur þoka okkur í gegnum öldudalinn sem við erum í. Á sama tíma er ljóst að samkeppnin er hörð. Stefnan gerir miklar kröfur til allra í danskri ferðaþjónsutu,“ segir Jan Olsen. Standby.dk vitnar líka til orða Jannick Nytoft, framkvæmdastjóri HORESTA, samtaka danskra hótel- og veitingahúseigenda, sem segir mikinn drifkraft í ferðaþjónustu og afþreyingariðnaði og hann sé ekki í vafa um að þessar greinar nái settum markmiðum því mikill áhugi sé á að tengjast vaxandi umhverfisvitund fólks – grænu bylgjunni. Hann segir að margt þurfi að gerast til að markmiðum verði náð. Það séu ástæður fyrir því af hverju atvinnugreinin hafi ekki náð vopnum sínum. Bendir hann sérstaklega á verðlagið í Danmörku sem sé 41 prósenti yfir meðaltalinu innan Evrópusambandsins, það hæsta á norðanverðu meginlandinu. Meðal þess sem framkvæmdastóri HORESTA bendir á er að Danir séu með hæsta virðisaukaskattinn innan ESB. „Eigi markmiðin að nást verða stjórnmálamennirnir að tryggja betri umgjörð.“ Á svipaða strengi slær framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í Danmörku, Brian Mikkelsen. Það sé metnaðarfullt að ætla að auka hlut ferðaþjónustunnar í kjölfar heimsfaraldursins. Ef atvinnulífinu eigi að takast að skila meiri tekjum verði stjórnvöld að tryggja rekstrarumhverfið.

„Það ætti ekki að líta á það sem upphefð að Danmörk tróni á toppnum sem dýrasti áfangastaðurinn í þeim hópi sem landa sem keppt er við um ferðafólkið,“ segir Brian Mikkelsen og bætir því við að ferðamálayfirvöld fylgist með og greini kostnaðarþróun í ferðaþjónustunni og að ríkisstjórnin bregðist við með úrbótum, t.d. með lægri gjaldtöku.

Einnig er rætt við Piu Loft, framkvæmdastjóra samtaka þeirra sem leigja út sumarhús fyrir ferðafólk. „Framtíð ferðaþjónustunnar á að vera sjálfbær. Þetta snýst um að fjárfesta í umhverfisvænum og sjálfbærum lausnum í uppbyggingu þjónustunnar við strendur landsins og annars staðar í náttúrunni. Ef markmiðin eigi að nást þurfi að huga vel að starfsumhverfi og möguleikum til fjármögnunar.“ Bendir hún sérstaklega á skort á starfsfólki, meðgjöf til þeirra sem ráðast í orkusparandi aðgerðir og rafvæðingu sumarhúsabyggða.

Danir ætla sér stærri hluta ferðakökunnar og eiga góð sóknarfæri. Hinvegar setja verðlag, skattar og gjöld þeim töluverðar skorður. Eftir er að sjá hvort heitstrengingum stjórnmálamanna fylgi aðgerðir. Ef ferðaþjónustan á að vera sjálfbær þarf að kosta töluverðu til við uppbyggingu og fylgja því eftir svo veruleikinn endurspegli grænu ímyndina.

Nýtt efni

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …

Verðlag í evrópskum matvöruverslunum var almennt hærra í nýliðnum apríl en það var á sama tíma í fyrra. Íbúar í Tékklandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóveníu og Finnlandi borga þó minna í dag fyrir mat og drykk en þeir gerðu á fyrra samkvæmt nýrri verðmælingu á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í Tyrklandi hækkar verðlag hratt og fór …

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …