Samfélagsmiðlar

Græna Danmörk

Ný ferðamálastefna danskra stjórnvalda beinist að því að Danmörk verði umhverfisvænsti áfangastaður ferðafólks í Norður-Evrópu. Stefnan er unnin í samráði við hagaðila í greininni og ber yfirskriftina „Þjóðarstefna um sjálfbæran vöxt í danskri ferðaþjónustu." Eitt meginmarkmið stefnunnar er að um 70 prósent allra gististaða í landinu hafi öðlast sjálfbærnivottun fyrir árið 2030.

„Danmörk á að vera græni áfangastaðurinn sem ferðafólk setur stefnuna á. Ferðaþjónusta til sjávar og sveita, hótel, veitingahús og krár ættu í meira mæli að taka mið af umhverfismálum í starfi sínu,“ segir atvinnumálaráðherrann Simon Kollerup. Þessar grænu áherslur Dana eiga að skila tekjum, stuðla að efnahagslegum vexti í landinu með fleira ferðafólki og meiri eyðslu hvers og eins. Stefnan er sett á að heildarvelta danskrar ferðaþjónustu verði um 190 milljarðar danskra króna árið 2030, segir í Standby.dk.

Byggja þarf upp mjög sterkt vörumerki fyrir ferðalandið Danmörku ef takast á að ná því metnaðarfulla markmiði að gistinætur verði 28 prósentum fleiri árið 2030. Jan Olsen, framkvæmdastjóri VisitDanmark, segir að gildi ferðaþjónustunnar hafi til þessa verið metið út frá mælistikum efnahagsvaxtar og atvinnuþátttöku en nú eigi að vega heildaráhrif á samfélagið allt, líka á umhverfi og félagslega þætti. „Við viljum að draga betur fram í dagsljósið þau verðmæti sem ferðaþjónustan skapar fyrir danskt samfélag.“ Olsen segir að Danmörk eigi mikil sóknarfæri í ferðaheiminum, laða til sín fleira erlent ferðafólk og vinna betur upp það sem tapaðist í heimsfaraldrinum.

„Verkefnið er ekki aðeins að komast á toppinn heldur þoka okkur í gegnum öldudalinn sem við erum í. Á sama tíma er ljóst að samkeppnin er hörð. Stefnan gerir miklar kröfur til allra í danskri ferðaþjónsutu,“ segir Jan Olsen. Standby.dk vitnar líka til orða Jannick Nytoft, framkvæmdastjóri HORESTA, samtaka danskra hótel- og veitingahúseigenda, sem segir mikinn drifkraft í ferðaþjónustu og afþreyingariðnaði og hann sé ekki í vafa um að þessar greinar nái settum markmiðum því mikill áhugi sé á að tengjast vaxandi umhverfisvitund fólks – grænu bylgjunni. Hann segir að margt þurfi að gerast til að markmiðum verði náð. Það séu ástæður fyrir því af hverju atvinnugreinin hafi ekki náð vopnum sínum. Bendir hann sérstaklega á verðlagið í Danmörku sem sé 41 prósenti yfir meðaltalinu innan Evrópusambandsins, það hæsta á norðanverðu meginlandinu. Meðal þess sem framkvæmdastóri HORESTA bendir á er að Danir séu með hæsta virðisaukaskattinn innan ESB. „Eigi markmiðin að nást verða stjórnmálamennirnir að tryggja betri umgjörð.“ Á svipaða strengi slær framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í Danmörku, Brian Mikkelsen. Það sé metnaðarfullt að ætla að auka hlut ferðaþjónustunnar í kjölfar heimsfaraldursins. Ef atvinnulífinu eigi að takast að skila meiri tekjum verði stjórnvöld að tryggja rekstrarumhverfið.

„Það ætti ekki að líta á það sem upphefð að Danmörk tróni á toppnum sem dýrasti áfangastaðurinn í þeim hópi sem landa sem keppt er við um ferðafólkið,“ segir Brian Mikkelsen og bætir því við að ferðamálayfirvöld fylgist með og greini kostnaðarþróun í ferðaþjónustunni og að ríkisstjórnin bregðist við með úrbótum, t.d. með lægri gjaldtöku.

Einnig er rætt við Piu Loft, framkvæmdastjóra samtaka þeirra sem leigja út sumarhús fyrir ferðafólk. „Framtíð ferðaþjónustunnar á að vera sjálfbær. Þetta snýst um að fjárfesta í umhverfisvænum og sjálfbærum lausnum í uppbyggingu þjónustunnar við strendur landsins og annars staðar í náttúrunni. Ef markmiðin eigi að nást þurfi að huga vel að starfsumhverfi og möguleikum til fjármögnunar.“ Bendir hún sérstaklega á skort á starfsfólki, meðgjöf til þeirra sem ráðast í orkusparandi aðgerðir og rafvæðingu sumarhúsabyggða.

Danir ætla sér stærri hluta ferðakökunnar og eiga góð sóknarfæri. Hinvegar setja verðlag, skattar og gjöld þeim töluverðar skorður. Eftir er að sjá hvort heitstrengingum stjórnmálamanna fylgi aðgerðir. Ef ferðaþjónustan á að vera sjálfbær þarf að kosta töluverðu til við uppbyggingu og fylgja því eftir svo veruleikinn endurspegli grænu ímyndina.

Nýtt efni
Arnar Guðmundsson, Íslandsstofu

Íslandsstofa vinnur að því að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland, kemur íslenskum fyrirtækjum á framfæri á erlendri grundu og liðkar til eftir bestu getu fyrir erlendri fjárfestingu á fimm sviðum atvinnulífs: orku og grænum lausnum, sjávarútvegi og matvælaframleiðslu, hugviti og tækni, listum og skapandi greinum - og loks ferðaþjónustu. Allt byggist þetta á útflutningsstefnu landsins, sem …

Það voru 27.293 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu hér á landi í mars 2024 sem er aukning um 2 prósent frá sama tíma í fyrra en 2 prósent færri í samanburði við mars 2018. Það ár voru ferðamenn hér flestir en gert er ráð fyrir álíka ferðamannastraumi í ár. Vægi starfsfólks með íslenskan bakgrunn er …

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur slitið viðræðum við franska Renault um að þróa og smíða saman nýja gerð af rafknúnum smábíl á viðráðanlegu verði, sem keppt gæti við ódýrustu kínversku bílana. Hugmyndin var sú að bíllinn yrðu byggður á grunni Twingo-smábílsins frá Renault. Renault hyggst nú upp á eigin spýtur þróa Twingo áfram sem rafbíl og …

„Pittsburgh flugið fer vel af stað og er ánægjulegt að sjá að farþegar frá 25 Evrópulöndum hafa bókað flug með okkur til Pittsburgh um Ísland og þaðan hafa farþegar bókað flug til 30 áfangastaða Evrópumegin," sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilefni af fyrstu áætlunarferð flugfélagsins til bandarísku borgarinnar á fimmtudaginn. Forstjórinn lagði um …

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …