Samfélagsmiðlar

Bílarnir hverfi úr augsýn

Hugmyndir að nýju deiliskipulagi þjóðgarðsins á Þingvöllum fela í sér miklar breytingar á umferð um staðinn. Einar Á.E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður, ræðir stöðu og framtíð þjóðgarðsins.

Einar Á.E.Sæmundsen

Einar Á.E.Sæmundsen, landslagsarkitekt og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.

„Ákvörðun um að stofna þjóðgarð felur í sér stefnu um tiltekna landnotkun. Með því er verið að segja að svæðið sem um ræðir hafi að geyma einstakar menningarminjar, náttúruminjar, landslag eða annað sem við viljum verja,” segir Einar, sem hefur fylgst með og tekið þátt í miklum breytingum á þjóðgarðinum enda starfað þar frá námsárunum, síðustu fjögur árin sem þjóðgarðsvörður.

Fjölsóttasti ferðamannastaðurinn

„Undanfarin ár hafa markast af gríðarlegum vexti. Við höfum stækkað með fjölgun ferðafólks,” segir Einar.

Þingvellir eru sá staður utan höfuðborgarinnar sem flestir heimsækja, ferðamannafjöldi á svo afmörkuðu svæði er hvergi meiri, og skýrist það að stórum hluta af umferðinni um Gullna hringinn. Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu söguríkur staðurinn er og mikilvægur í huga landsmanna og frægðin nær langt út fyrir landsteina.

„Langflestir sem koma til okkar að degi til eru á austurleið að Geysi og Gullfossi. Við erum í þessari þjóðleið. Um 70 til 75 prósent erlendra ferðamanna á Íslandi koma við á Þingvöllum. Fjöldinn fyrir heimsfaraldur var kominn vel yfir milljón á ári. Í sumar getum við vænst þess að fá um eina milljón gesta.” Sérstaða þjóðgarðsins á Þingvöllum miðað við aðra slíka í öðrum löndum felst í því hversu hátt hlutfall gesta kemur frá útlöndum. Í fjölmennari löndum ber heimafólkið uppi stærri hluta umferðarinnar. 

Eftir að ákvörðun hafði verið tekin um að hliðið að þjóðgarðinum yrði uppi við Hakið hefur aðstaðan þar verið markvisst byggð upp frá aldamótum. Fyrsti áfanginn kom 2002 og fljótlega kom í ljós að bæta þyrfti við. Þegar ferðamannasprengjan varð eftir bankahrun var farið að undirbúa stækkun og eins og stundum áður var markið sett á að ljúka verki í tilefni afmælis, þ.e. á 100 ára afmæli fullveldisins 2018, þegar haldinn var hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum. Þetta gekk naumlega eftir.

Glæsileg aðstaða og áhugaverð sýning bíður ferðamanna í þjónustumiðstöðinni á Hakinu. 

Þörf fyrir enn meiri uppbyggingu

Starfsemin í Þingvallaþjóðgarði varð auðvitað fyrir höggi eins og önnur ferðaþjónusta í heimsfaraldrinum en allt bendir nú til áframhaldandi velgengni og vinsælda staðarins. 

„Við erum farin að huga að framtíðinni og þörf fyrir frekari uppbyggingu. Tekjugrunnur þjóðgarðsins byggist nú að stærstum hluta á sértekjum: bílastæðagjöldum, veiðileyfum, gjaldtöku fyrir tjaldstæði, og auðvitað tekjum af verslunininni. Segja má að af hverri krónu sem við fáum í beinu framlagi frá ríkinu búum við til þrjár. Fyrir heimsfaraldur voru sértekjur um 80 prósent á móti 20 prósenta föstu framlagi ríkisins. Þessar tekjur sem við öflum eru síðan nýttar að fullu til viðhalds og uppbyggingar.”

Nánar tiltekið þá voru rekstrartekjur þjóðgarðsins á Þingvöllum árið 2019 rúmar 730 milljónir króna og framlagið úr ríkissjóði tæpar 122 milljónir. Afgangur af rekstrinum varð um 15 milljónir.

Ákveðið var að þjóðgarðurinn hætti verslunarrekstrinum og var honum útvistað. Einar segir að það hafi heppnast mjög vel og nú sé hægt að einbeita sér betur að kjarnastarfseminni, verndun svæðisins og uppbyggingu, fræðslu – og ekki síst stöðugu mati á því hvert beri að stefna í þróun þjóðgarðsins.

Einar viðurkennir að það reyni töluvert á spádómsgáfuna við fjárhagsáætlunargerðina að hausti nú eftir Covid-19 að sjá fyrir hvert stefni í ferðaþjónustunni. Það viti í raun enginn.

Heimsfaraldrinum fylgdu sem sagt ekki bara vandræði í rekstrinum heldur gafst líka tími til að hugsa, skoða stöðuna, meta hvert skuli halda. 

Ótrúlega hraður vöxtur

„Í augur harðkjarnans í ferðaþjónustunni er allur vöxtur góður,” segir Einar, hinsvegar ef mið sé tekið af öðrum löndum þá hafi árleg fjölgun hér farið langt fram úr því sem gerst hafi annars staðar. 

„Fólk eiginlega gapir þegar maður segir frá því að ferðafóki hafi fjölgað hér um 10 til 20 prósent frá einu ári til annars. Gott þyki í öðrum löndum ef árleg fjölgun er um fimm prósent eða þar um bil.”

Þó margir Íslendingar hafi fagnað því í heimsfaraldrinum að hafa nú endurheimt landið sitt og velt fyrir sér hvort við þurfum virkilega svona marga ferðamenn, þá er raunveruleikinn auðvitað sá að ferðaþjónustan er ein meginstoða efnahagslífsins – og að auki er erfitt að sjá fyrir sér hvernig takmarka eigi komur ferðafólks til landsins – á meðan flugfélög sem hingað vilja fljúga eru starfrækt.

Einar rekur þessar vangaveltur en segir að áætlanir gangi út á að gestakomum fjölgi á Þingvöllum og nú sé hugað að framtíðinni.

Engir bílar fyrir neðan Almannagjá

„Við erum með skýrar hugmyndir í deiliskipulagi sem er í mótun um að breyta flæði ferðamanna um svæðið, búa til aðra opnun niður á þingstaðinn til að hafa fulla stjórn á umferðinni. Markmiðið er að bílastæðin hér fyrir neðan Almannagjá hverfi. 

Það átta allir sig á hvað maður er að segja ef staðið er hér uppi við Hakið, horft yfir svæðið og fyrir augum verða hundrað bílar þar fyrir neðan og við gamla Valhallarstíginn. Stóra hugmyndin er sú að innan fárra ára verði þessum bílastæðum lokað og önnur komi í staðinn hér fyrir ofan, norðan Öxarárfoss. Þá minnkum við bílaumferðarþvælinginn niður í þinghelgina en samhliða myndu litlar rafrútur geta flutt fólk innan svæðisins. Það auðveldar okkur framkvæmdina að langstærstur hluti starfseminnar fer fram á dagvinnutíma, á milli níu og fimm.”

Þessi uppbyggingaráform upp á fleiri hundruð milljónir í þjóðgarðinum á Þingvöllum hafa lifað þann umþóttunartíma sem gafst í heimsfaraldrinum.

„Stóra spurning sem starfsfólk þjóðagarða undir álagi veltir fyrir sér er hversu marga ferðamenn það vilji fá. Svarið við þessu er ekki einfalt en við verðum að ná að stýra umferðinni. Í það felst mikil áskorun í því að meta hvernig það verði best gert. Á að gera það með takmörkuðum fjölda bílastæða, beita gjaldtöku, eða með einhverjum öðrum hætti?”

„Þessi uppbyggingaráform sem við förum í á næstu tveimur til fjórum árum munu falla að umræðum og ákvörðunum um hvort hægt sé að stjórna fjöldanum. Verður t.d. fólki á bílaleigubílum gert að panta bílastæði fyrirfram í þjóðgarðinum?”

„Þjóðgarðurinn á Þingvöllum stendur frammi fyrir sömu áskorunum og aðrir þjóðgarðar í heiminum: Það er verið að vernda eitthvað sérstakt, eitthvað sem hefur sterka markaðslega ímynd og þess vegna flykkist fólk þangað. Fyrir vikið verða þjóðgarðarnir fyrir barðinu á fjöldatúrisma.”

Þau sem starfrækja og eru í fyrirsvari fyrir þá staði sem draga að sér þennan gríðarlega gestafjölda á Gullna hringnum fyrirhuga nú aukið samstarf, ræða sameiginleg hagsmunamál, t.d. hvort hægt sé að stýra umferðinni betur, dreifa álagi, o.s.frv. Eitt af því sem hefur verið jákvætt í þróuninni er hversu vel álagið dreifist um árið, stærsti hluti fjölgunarinnar er á vetrum. Það hefur að vísu kallað á annars konar viðbrögð, t.d varðandi öryggismál, hálkuvarnir og viðbrögð við vondum veðrum. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er með sjúkraflutningamann á útkallsbíl frá HSU á Selfossi á dagvakt – reiðubúinn að flytja þá sem verða fyrir óhappi eða veikjast á sjúkrastofnun.

Stórverkefni í umhverfismálum

Svo eru það umhverfismálin, sem hafa orðið sífellt brýnna viðfangsefni, hvernig taka megi á móti öllum þessum fjölda á Þingvöllum en mæta á sama tíma miklum kröfum sem gilda í vatnsverndarmálum þar og um staðinn almennt. 

„Fólk áttar sig ekki alltaf á umfanginu. Fyrir klukkan 10 í morgun höfðu um 50 rútur komið hingað með ferðafólk. Hér eru um 60 salerni hér við þingstaðinn og frá áramótum er búið að aka með um hálfa milljón lítra af seyru til Reykjavíkur vegna þess hversu strangar kröfur eru gerðar um losun hér á staðnum. Bara í maímánuði voru klósettferðir gesta um 93 þúsund. Auðvitað þurfum við að leysa þessi fráveitumál hér nær þjóðgarðinum til að minnka akstur í bæinn.”

Meira um þau mál síðar.

„Við hér reynum að gera okkar besta í umhverfismálum og starfa í anda sjálfbærni, en ráðum litlu um eðli ferðamennskunnar á Íslandi – að hingað komi fólk akandi bílum. Við ætlum að fjölga rafhleðslustöðvum hér við bílastæðin og óskandi væri að rafvæðingin gangi hratt fyrir sig.” 

Já, það er í mörgu að snúast í rekstri þjóðgarðs, sem dregur stöðugt til sín gesti – eins og segull, svo notuð sé samlíking Einars.

Fólki á að þykja vænt um þjóðgarðinn

„Þjóðgarðar eru ákveðinn segull, með gæðastimpil. Í markaðslegu tilliti hefur þjóðgarður sterka stöðu. Ég held t.d að þjóðgarður á Vestfjörðum myndi styrkja markaðslega stöðu ferðaþjónustu þar gríðarlega. Menn munu ekki átta sig á því fyrr en hann verður kominn. En auðvitað fylgja reglur þjóðgarði. Þjóðgarður er skilgreind umgjörð í kringum ákveðna starfsemi. Þjóðgarður er eitthvert svæði sem þér á að þykja vænt um – eins og betri stofu ömmu þinnar.”

Já, og við öll sem komum til Þingvalla verðum ævinlega orðlaus yfir fegurð staðarins og höfum um margt að hugsa ef við rifjum upp söguna sem býr eiginlega í hverri þúfu og kletti þarna, hverri brekku og gjá.

Einari Á.E. Sæmundsen og hans fólki er falið stórt hlutverk – að verja þennan stað fyrir okkur sjálfum. Hann er bjartsýnn á að það takist, að áformin um framkvæmdir við nýja umgjörð gangi eftir á næstu árum. 

„Mér finnst eins og við ráðum núna ferðinni. Á síðustu átta árum vorum við að reyna að ná því marki. Ég er bjartsýnn á að ef okkur tekst að koma áformum okkar skýrt á blað, sem fara svo í lögformlegt ferli, þá hefjist hér innan skamms mikil uppbygging til framtíðar. Við höfum bara verið að bregðast við, láta hlutina ganga frá degi til dags.

Stefnumörkun þjóðgarðsins á Þingvöllum gildir til 2038 og við þurfum að hugsa mjög strategískt næsta áratuginn eða svo, taka t.d. mið af 1100 ára afmæli Alþingis árið 2030.

Koma þá þrjár milljónir ferðamanna á Þingvelli?

„Spurningin er sú hvernig við tökum á móti slíkum fjölda og hvernig við tryggjum þá ásýnd sem fólk sækist eftir héðan af Hakinu – að þegar ferðamaðurinn stendur á útsýnispallinum og upplifir dýrð Þingvalla séu allir bílar fyrir aftan hann.”

Nýtt efni

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …

MYND: ÓJ

Kínverskir ferðamenn hafa verið töluvert áberandi í Reykjavík og víðar um land í vor. Auðvitað er fólk af kínverskum uppruna búsett um allan heim og eitthvað af því fer í Íslandsferðir en þeim hefur snarfjölgað sem koma hingað alla leið frá Alþýðulýðveldinu Kína. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli komu hingað í marsmánuði 8.642 Kínverjar og …

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …