Samfélagsmiðlar

„Þetta hefur verið barningur“

„Það er í raun kraftaverk hversu mörg fyrirtæki komust í gegnum faraldurinn. Staðan er skárri hjá fleirum en við reiknuðum með. En það er ekki sléttur sjór framundan," segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Bjarnheiður Hallsdóttir

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Framundan er kjarasamningalota. Launakostnaður hefur verið mjög íþyngjandi fyrir ferðaþjónustuna, sem er auðvitað í alþjóðlegri samkeppni. Við erum með einn hæsta launakostnað í heimi og gengi krónunnar er eilíft viðfangsefni okkar. Það getur skilið milli feigs og ófeigs hvernig hún sveiflast milli ára.“

Bjarnheiður Hallsdóttir bendir á að nú sé því spáð að krónan styrkist gagnvart öðrum gjaldmiðlum. „Þetta samspil hás launakostnaðar og sterkrar krónu er algjört eitur fyrir ferðaþjónustuna. Eftir hörmungartíma heimsfaraldursins hefur eigið fé margra þurrkast upp.

Engin uppbygging verður án rekstrarafgangs.

„Nú er bara spurningin sú hversu hratt okkur tekst að vinna okkur út úr þessu. Þetta sumar verður líklega flestum gott en það er meiri spurning um veturinn. Afkoman ræðst að verulegu leyti af utanaðkomandi þáttum sem við stjórnum ekki: hækkandi rekstrarkostnaði og gengi krónunnar.“

Þá bendir formaður Samtaka ferðaþjónustunnar á við þetta bætist æ fleiri vilji innheimta fyrir bílastæði og ýmislegt annað og ríkið hafi jafnframt sínar hugmyndir um gjaldheimtu. Það vanti heildarsýn.

„Það er ekki hægt að gera allt – rukka á hverju götuhorni, fara svo í almenna gjaldtöku og vera með hæstu skatta sem má hugsa sér.“

Í heimsfaraldrinum snérist lífsbarátta fyrirtækjanna um að halda sér á floti með aðkomu stjórnvalda og opinberum stuðningi. Eftir að laun höfðu verið greidd var ekkert afgangs til að sinna endurnýjun framleiðslutækjanna, t.d. ökutækja og annars búnaðar.

Baráttan fyrir því að vera tekin alvarlega

Bjarnheiður hefur verið formaður Samtaka ferðaþjónustunnar frá 2018, þegar tindi var náð í komum ferðamanna, en síðan tóku við erfiðleikar heimsfaraldursins. Hún starfrækir þrjú fyrirtæki: ferðaskrifstofuna Katla Travel í Þýskalandi, Katla DMI – Destination Management Iceland og sumarhúsamiðlunina Viator á Íslandi. Hún þekkir vel þróun greinarinnar síðustu áratugi.

Þó sveiflur verði vegna utanaðkomandi aðstæðna þá blasir við að ferðaþjónustan er og verður einn mikilvægasti atvinnuvegur landsmanna. En er hlustað á ferðaþjónustuna í stjórnkerfinu og atvinnulífinu?

„Þetta hefur verið barningur,“ segir Bjarnheiður. „Við getum í rauninni sagt að fram til 2010-11 hafi ferðaþjónustan verið léttvæg miðað við það sem hún er í dag.

Það er erfitt að breyta hugsunarhætti – að fá alla til að líta á ferðaþjónustuna sem eina af grunnstoðum atvinnulífsins, mikilvæga við öflun gjaldeyristekna, forsenda hagvaxtar í landinu. Mér finnst við færast nær þessu með hverju árinu sem líður.

Þetta hefur verið hörð hagsmunabarátta – að fá fólk til að taka greinina alvarlega. Við eigum mikið inni. Ég er sannfærð um að ferðaþjónustan á eftir að vaxa mikið.“

Lítil samþjöppun enn

Eitt af megineinkennum ferðaþjónustu er fjölbreytnin auðvitað og hversu mörg fyrirtækin eru í greininni, nokkur stór en flest önnur smá. Verður þetta þannig áfram?

„Því hefur lengi verið spáð að samþjöppun verði í greininni og einingarnar stækki. Það hefur verið dálítil tilhneiging í þá átt eftir faraldurinn, bæði sameiningar og þreifingar um slíkt. Flest þeirra 4.000 ferðaþjónustufyrirtækja sem starfa í landinu teljast lítil eða meðalstór.“

Einu sinni réru Íslendingar aðeins til fiskjar á litlum bátum en svo komu stærri skip. Er kominn tími á togaravæðingu í ferðaþjónustunni?

Bjarnheiður segir ólíku saman að jafna, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. „Við erum ekki að framleiða neitt fyrir færiband. Lögmálin eru önnur. Þetta er þjónusta sem veitt er um leið og viðskiptavinurinn neytir hennar.“

Fjölskyldufyrirtækin eru undirstaðan

„Við viljum ekki byggja ferðaþjónustu einvörðungu á fjöldaframleiðslu, heldur hlúa að þessum litlu fjölskyldufyrirtækjum. Þau eru burðarásar ferðaþjónustunnar, gefa henni mikið gildi, eru mikilvæg fyrir þjóðarbúið, byggðastefnu. Vegna þessara litlu fjölskyldufyrirtækja í ferðaþjónustu hafa margar byggðir í landinu risið upp, fólk hefur getað flutt heim aftur.

Ef við horfum á þetta úr hinni áttinni, þá er það mjög mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna að byggð sé allan hringinn í kringum landið, það sé alls staðar hægt að fá þjónustu. Við þurfum á þessum litlu ferðaþjónustufyrirtækjum að halda, sérstaklega vegna þess að eftirspurnin eftir öllu sem er upprunalegt, persónulegt, öðruvísi en allt annað, er stöðugt að aukast.

Þá er bara spurningin hvernig þetta tvennt fer saman: þörfin fyrir meiri samþjöppun og mikilvægi fjölbreytninnar.“

Fólk í ferðaþjónustu leggur margt á sig gríðarlega vinnu ár eftir ár til að reksturinn gangi upp. Það er í mörg horn að líta og vinnudagurinn langur. Frumkvöðlarnir eða stofnendurnir voru tilbúnir í þetta en spurningin er hvort næstu kynslóðir sætti sig við þennan lífsmáta. Það á eftir að koma í ljós. Hitt blasir við, segir Bjarnheiður Hallsdóttir, að við verðum að halda í þessi fjölskyldufyrirtæki í greininni – við hlið keðjanna og stóru fyrirtækjanna.

Innviði vantar til að styðja við sjálfbærni

Íslensk ferðaþjónusta er að rísa að nýju eftir heimsfaraldur, sem enn sér þó ekki fyrir endann á. Hún er að stórum hluta fjárhagslega veikburða eftir faraldurinn, hefur ekki náð að endurnýja tæki og aðstöðu sem skyldi en mætir nú til leiks í heimi sem er að breytast mikið. Sívaxandi kröfur eru t.d. um sjálfbærni og vistvænar lausnir í ferðaþjónustu. En er íslensk ferðaþjónusta tilbúin að mæta þeim?

Bjarnheiður segir að þessi mál hafi lengi verið á dagskrá ferðaþjónustunnar.

„Við getum ekki verið sjálfbær ein úti í horni, innviðir þurfa að vera til staðar og ýmislegt í umhverfinu. Ég verð að hafa dísilrútur eins og staðan er í dag. Þrátt fyrir alla þessa umræðu um að hraða orkuskiptum þá er staðan sú að tæknin er ekki fyrir hendi og innviðirnir ekki heldur.

Ferðaþjónustan hefur viljann til að gerast sjálfbær og það er mikið hugsað um umhverfismál í rekstrinum.

Flestir sem starfa í greininni eru umhverfisverndarsinnar. Umhverfismál og umgengni við landið er hluti af þeirri vöru sem við seljum.“

Áfram er þó keyrt á jarðefnaeldsneyti – þrátt fyrir fögur orð um umhverfisstefnu. Enn vantar hvata og innviði til að það verði fýsilegt, öruggt og þægilegt að notast við rafbíla í stað þeirra gömlu sem menga loftið. Bjarnheiður segir erlenda ferðamenn ekki setja það á oddinn að fá rafbíl til afnota, þó þeim fari örugglega fjölgandi sem vilji ekki skilja eftir sig kolefnisspor. En enginn vill lenda í vandræðum vegna erfiðleika við að fá hleðslu.

Miklar umræður hafa verið um það innan greinarinnar lengi hvernig minnka megi losun.

„Það væri í stíl við það sem við erum að markaðssetja og selja ef rútur og bílar nýttu einvörðungu vistvæna orkugjafa.“

Hvalveiðar ekki forsvaranlegar

Margt í umhverfismálum má ræða í tengslum við hagsmuni ferðaþjónustunnar. Nú síðast eru það hvalveiðarnar.

„Við viljum ekki sjá að hvalveiðar séu stundaðar,“ segir Bjarnheiður.

„Af hverjum ættum við að veiða hvali þegar við þurfum þess ekki? Þetta er orðsporsáhætta. Mér finnst þetta ekki forsvaranlegt miðað við að það er enginn hagur í því fólginn fyrir okkur að halda þessu áfram. Ef einhverjar tekjur eru af þessu, þá veit enginn hverjar þær eru. Þetta eyðileggur fyrir okkur og öðrum atvinnugreinum. Hvaða rugl er þetta?“ spyr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Nýtt efni

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …

Suður-kóreski rafhlöðuframleiðandinn LG Energy Solution (LGES) á í viðræðum við þrjá ónefnda kínverska birgja um að framleiða ódýrar bílarafhlöður fyrir Evrópumarkað og bregðast þannig við hærri verndartollum Evrópusambandsins á rafbíla frá Kína.  Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir háttsettum heimildarmanni innan LGES, sem er í hópi stærstu rafhlöðuframleiðenda heims ásamt CATL í Kína, Panasonic í Japan og …

Þó margir njóti guðaveiga í sumarfríinu þá er hásumarið rólegur tími í heimi vínviðskipta. Það er löngu búið að ganga frá sölu á framleiðslu liðins árs en beðið tíðinda af næstu vínuppskeru. Þegar horft er á heildina þá hefur dregið úr vínsölu vegna efnahagsþrenginga og breyttra neysluhátta. En loftslagsbreytingar valda vínbændum víða erfiðleikum og hafa …

Það kemur skýrt fram í afkomutölum rafbílaframleiðandans Tesla að hægt hefur á orkuskiptum í bílasamgöngum. Á fyrri helmingi ársins hefur Tesla selt um 831 þúsund rafbíla en Elon Musk hafði spáð því að á árinu öllu myndu seljast um 1,8 milljónir bíla. Það vantar því enn mikið upp á að sú spá rætist. Sala Tesla …

Áður en Play fór í loftið sumarið 2021 var efnt til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Umsjón með útboðinu höfðu Arctica Finance og Arion banki en þessi tvö fjármálafyrirtæki komu einnig að fjármögnun Wow Air á sínum tíma. Í útboði meðal almennings reyndist umframeftirspurnin áttföld. Í kynningarefni sem fylgdi hlutafjárútboðinu var aðeins ein …

„Okkur er ánægja að tilkynna um fjölgun A350-900-véla í utanlandsflugi og A321neo í innanlandsflugi,“ segir Yukio Nakagawa, innkaupastjóri Japan Airlines, í tilkynningu félagsins um samninga við Airbus um kaup á nýjum þotum. „Með því að flýta því að taka í notkun nýjustu og sparneytnustu flugvélarnar viljum við veita viðskiptavinum okkar besta hugsanlegu þjónustu um leið …