Í nýliðnum júlí innrituðu 234 þúsund manns sig í flug frá Keflavíkurflugvelli samkvæmt talningu Ferðamálastofu en þessi talning hefur lengi verið notuð til að leggja mat á fjölda erlendra ferðamanna hér á landi. Í samanburði við metárið 2018 þá nam fjöldinn í síðasta mánuði 84 prósentum af því sem var í júlí fyrir fjórum árum síðan.
Af útlendingunum þá voru Bandaríkjamenn fjölmennastir eða 79 þúsund talsins. Þar á eftir komu Þjóðverjar og svo Danir eins og sjá má hér fyrir neðan. Til samanburðar eru þar líka fjöldatölur fyrir júlí árið 2018 en þær sýna meðal annars hversu miklu fleiri Danir og Ítalir leggja nú leið sína til landsins en áður var.