Það fóru 852 þúsund farþegar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í síðasta mánuði sem er viðbót um níu þúsund farþega frá júlí árið 2019. Það ár einkenndist hins vegar af töluverðum samdrætti á Keflavíkurflugvelli sem skrifast á gjaldþrot Wow Air í lok mars þetta sama ár.
Farþegahópurinn í júlí 2019 var til að mynda 29 prósent fámennari en árið á undan og niðursveiflan var líka töluverð í samanburði við júlí árin 2016 og 2017 eins og sjá má hér fyrir neðan.
Þess má geta að hver einstaklingur er í raun tvítalinn í fluggeiranum. Sá sem flýgur héðan til Kaupmannahafnar og aftur heim telst því vera tveir farþegar. Og þeir sem millilenda hér á landi á leið sinni milli Evrópu og Norður-Ameríku eru taldir tvisvar á hvorri leið eða samtals fjórum sinnum.