O´Leary varpar sökinni á Boris Johnson, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, sem hefði ásamt „öðrum metnaðarfullum fáráðlingum“ valdið hruni á breska vinnumarkaðnum með ákvörðunum sínum. Hann sagði að stjórnarherrarnir gerðu réttast í að viðurkenna að útgangan úr Evrópusambandinu hefði komið sér mjög illa gagnvart frjálsu flæði vinnuafls sem væri meðal alvarlegustu vandamála sem við væri að etja í breska efnahagslífi.
Forstjóri Ryanair ræddi í Today á BBC þróun á verði fargjalda og sagði að það heyrði brátt sögunni til að hægt yrði að kaupa flugmiða á fáein pund. „Tíu punda miðar verða ekki í boði vegna þeirrar verðhækkunar sem orðið hefur á olíu með stríðinu í Úkraínu.“ Hann gerir ráð fyrir að meðalverð á flugmiðum Ryanair hækki úr um 40 pundum í um 50 á allra næstu árum.
Á fyrstu sex mánuðum ársins aflýsti Ryanair um 0,3 prósentum af flugferðum sínum á meðan British Airways slógu af 3,5 prósentum sinna ferða. Hann gagnrýndi flugvelli fyrir lélegt skipulag, ekki síst Heathrow-flugvöll, sem hann sagði illa stjórnað. Sá hefði mátt fyrir margt af því sem flugfélög hafa átt við að stríða í sumar.