Yfir sumarmánuðina fjölgar Icelandair ferðum sínum til Kaupmannahafnar og býður þá upp á allt að fimm brottfarir á dag. Play og SAS héldu hins vegar sama takti í sumar og létu eina ferð á dag duga.
Í heildina fóru þotur félaganna þriggja 397 ferðir milli Keflavíkurflugvallar og Kastrup í júlí samkvæmt talningu Túrista.
Framboðið er því mikið og samtals nýttu rúmlega 73.224 farþegar sér þessar tíðu samgöngur í síðasta mánuði en á sama tíma í fyrra voru farþegarnir tæplega 29 þúsund.
Ef við berum hinsvegar saman við júlí árin 2018 og 2019 þá kemur í ljós að þessa tvo mánuði voru farþegarnir ríflega fjögur þúsund færri en í síðasta mánuði eða um 69 þúsund samkvæmt tölum frá Kaupmannahafnarflugvelli. Svona upplýsingagjöf tíðkast hins vegar ekki hér á landi og hefur Túristi árangurslaust kært þessa leynd sem ríkir um gögnin.
Til marks um hvað Íslandsflugið nýtur mikilla vinsælda á Kaupmannahafnarflugvelli þá var Keflavíkurflugvöllur fimmta vinsælasta flugleiðin frá danska flugvellinum í júlí. En fjöldi danskra ferðamanna hér á landi jókst verulega í júlí frá því sem var fyrir heimsfaraldur líkt og greint var frá í gær.
Það eru þó ekki bara danskir ferðamenn á leið til Íslands og Íslendingar á leið til Danmerkur sem nýta sér þessar ferðir milli Íslands og dönsku höfuðborgarinnar. Stór hluti farþeganna eru nefnilega tengifarþegar. Bæði þeir sem eru á leið milli Danmerkur og Norður-Ameríku og líka farþegar á leið til Evrópu. Nýverið nýtti útsendari Túrista sér ferð SAS frá Keflavíkurflugvelli til Danmerkur og var hvert sæti skipað. Og stór hluti farþeganna var á leið í tengiflug með SAS frá Kastrup til fjölda áfangastaða í Skandinavíu, Þýskalandi og suðurhluta Evrópu.
Þess má geta í lokin að 15 daga verkfall flugmanna SAS í júlí hafði ekki mikil áhrif á flug félagsins milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar því það er á vegum dótturfélags SAS og flugmenn þess fóru ekki í verkfall.
Til viðbótar við ferðir Icelandair, Play og SAS til Kaupmannahafnar þá býður Niceair upp á ferðir til dönsku borgarinnar frá Akureyri. Farþegatölur á þeirri leið liggja ekki fyrir.