Samfélagsmiðlar

Að finna nýjan takt

Margir verða þreyttir á reglubundnu streði launavinnunnar og láta sig dreyma um meira sjálfstæði, verða eigin herrar, t.d. með því að reka gistihús eða veitingastað. Ferðaþjónusta hvarvetna byggist að stórum hluta á framtaki fólks af þessu tagi. Túristi kom við á tveimur gistihúsum í Normandí á dögunum og spjallaði við eigendur sem áttu einmitt þetta sameiginlegt - að vilja finna nýjan takt í tilverunni með því að þjóna öðrum.

La Domaine de l´Hostellerie í Le Fresne-Camilly

Meðal þess fyrsta sem fólk hugar að við skipulagningu ferðalags er auðvitað gistingin. Hvar eigum við að gista? Fólk skoðar kostina sem eru í boði á bókunarsíðum og byrjar á að ákveða hvort það vilji dvelja á hefðbundnum hótelum eða fara ótroðnari slóðir, bóka gistingu á gistihúsum með persónulegra sniði, jafnvel í heimagistingu. Svo eru auðvitað víðast í boði íbúðir í gegnum Airbnb eða aðra. Valið á endanum ræðst vafalítið af mörgum þáttum: Er viðkomandi ein á ferð, tvö saman, fjölskylda með börn eða stærri hópur? Svo er það ferðareynsla, áhugasvið og smekkur.

Einhver gæti hugsað sem svo: Ég er að fara um þessar slóðir í fyrsta sinn og ætla ekki að taka mikla sjensa, bóka þess vegna herbergi á hóteli sem er hluti af keðju sem ég þekki. Vinkona þessarar varfærnu og hefðbundnu manneskju gæti hinvegar spurt: Af hverju að dvelja í herbergi á hóteli sem er alveg eins og öll hin hótelin í keðjunni? Væri ekki nær að finna eitthvað allt annað – herbergi í húsi sem er á einhvern hátt fulltrúi menningar og sögu viðkomandi svæðis? 

Ég hugsaði til þessarar leitandi manngerðar í ferðahug eftir að hafa skoðað tvo gistimöguleika í Calvados-héraði í Normandí – án þess að prófa þá sjálfur. Annars vegar var um að ræða lítið gistihús í gömlu húsi í höfuðborg héraðsins, Caen, þar sem búa um 120 þúsund manns, hinsvegar á gömlu sveitarsetri í þorpinu Le Fresne-Camilly, sem er mitt á milli Caen og Bayeux, sem geymir refilinn góða með frásögn af orrustunni við Hastings 1066. Frá Le Fresne-Camilly er skammt niður að ströndinni og lendingarstöðum herja bandamanna 6. júní 1944, sem eru fjölsóttustu ferðamannaslóðir Normandí. 

Minnismerki í Ouistreham um orrustuna um Normandí Mynd: ÓJ

Gestgjafarnir á báðum þessum viðkomustöðum mínum eiga það sameiginlegt að hafa gefið upp á bátinn hefðbundinn starfsframa í viðskiptalífinu en snúið sér í staðinn að ferðaþjónustu – fólk sem tók sjálfstæði fram yfir starfsöryggi og trausta afkomu. Ég hef hitt margt fólk sömu gerðar eða með svipaða lífssýn á ferðum um Ísland í sumar – við stjórnvöl á ferðaþjónustufyrirtæki, á móttöku á gistihúsi eða við eldavél á veitingastað.

Gistihúsið Clos Saint-Martin í Caen – Mynd: ÓJ

Við byrjum í Caen. Túristi er snemma á ferð. Clos Saint Martin er virðulegt hús í fallegu hverfi borgarinnar. Fyrir framan er hellulagður garður og við hann stendur lítið kot sem gæti áður fyrr hafa hýst vinnuhjú en var síðast íbúð húsvarðar á gistiheimilinu. Nú er þarna svefnpláss fyrir fjóra, baðherbergi og eldunaraðstaða. Í meginbyggingunni eru sex herbergi og matsalur á jarðhæðinni. Gestir hafa nýlokið við morgunverðinn. Gestgjafinn, David Alliot, tekur fagnandi á móti blaðamanni úr norðrinu. Hann fer þó ekki lóðrétt í að ræða tengsl Normanna við víkinga, eins og margir gera á þessum slóðum, enda er hann ekki úr héraðinu. David er frá París og starfaði þar að mannauðsmálum í viðskiptalífinu. Fyrir áratug átti hann leið til Caen í fyrsta skipti og féll fyrir borginni og þessum hæga takti í Normandí. Honum leist vel á þetta gistihús við torg heilags Marteins og úr varð að hann keypti það fyrir þremur árum og réðst í töluverðar breytingar. 

David Alliot, gestgjafi, í dyrunum – Mynd: ÓJ

„Ég byrjaði reksturinn hálfu ári fyrir heimsfaraldurinn og við þurftum að hafa lokað í fimm mánuði,” segir David og glottir yfir því óláni öllu saman. „Síðan opnuðum við aftur og viðskiptavinir streyma til okkar.” 

Einu herbergi var bætt við og í sumar lauk breytingum á húsvarðarkotinu, sem fjölskyldur sækjast nú eftir að leigja. Heildarfjöldi gesta er oftast í kringum 15 manns. Þau eru þrjú sem annast reksturinn. Flestir gestanna eru auðvitað Bandaríkjamenn, segir David, og vísar til þess sem allir vita – að túrisminn í kringum sögu D-dagsins svokallaða, þegar innrásin í Normandí hófst, er ekki síst borinn uppi af Ameríkönum.

Kotið í garðinum – Mynd: ÓJ

Þú sérð ekki eftir að hafa snúið baki við Parísarlífinu, flytjast hingað og skella þér í þennan rekstur?

„Nei,” segir David ákveðinn. Hann segist hafa fallið fyrir Normandí. Þá sé Caen lífleg háskólaborg með mörgum veitingahúsum, góðum mat, börum og skemmtistöðum sem stúdentar sæki mikið um helgar. Í borginni og nágrenni hennar séu líka sögulega merkilegir staðir sem áhugavert sé að heimsækja.

Betra líf í Caen – Mynd: ÓJ

„Lífið er rólegra hér en svo er líka stutt ferð með lest til Parísar.”

Meginbyggingin sem við erum staddir í er tvílyft með risi, upphaflega byggt öðru hvoru megin við 1700 en töluvert breytt síðar. Kotið sýnist jafnvel enn eldra. Það er gaman að koma í svo gömul hús í borg sem stórskemmd var í stríðinu. Það eru raunar fleiri gömul hús víða í miðborginni en maður væntir fyrirfram, mörg auðvitað endurreist í upphaflegri mynd, önnur sluppu ótrúlega vel undan sprengjuregni bandamanna við frelsun Frakklands. 

Ég kveð þennan unga mann sem gafst upp á því að vera mannauðsstjóri hjá fyrirtæki í París en flutti til Caen og gerðist gestgjafi á eigin gistiheimili – og mannauðsstjóri yfir sjálfum sér!

Horft út í garð – Mynd: ÓJ

Næst liggur leiðin út úr Caen um grösugar sveitir að litlu sveitaþorpi sem heitir Le Fresne-Camilly, miðja vegu í átt að Bayeux. Fremur stutt er þaðan niður til ferjubæjarins Ouistreham. Það er notalegt að vera kominn út fyrir þéttbýlið, horfa yfir akrana og heim að húsum sem standa við sveitaveginn. Það búa um 900 manns í þessum Calvados-hreppi, Le Fresne-Camilly. Þarna er gömul kirkja og nokkur hús í þyrpingu. Stærsta byggingin þarna er Château du Fresne-Camilly, sem upphaflega var reist á fyrri helmingi 17. aldar á grunni miðaldabyggingar. Höll þessi var þó eyðilögð 1792 í frönsku byltingunni eins og margar aðrar slíkar í eigu aðalsmanna en endurreist síðar.

Le Domaine de l´Hostellerie – Mynd: ÓJ

Le Domaine de l´Hostellerie er að því leyti merkilegra hús að það lifði af byltinguna og hörð átökin í Normandí undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Þorpið byggðu húgenottar á 16. öld, fólk sem tilheyrði siðbótarkirkjunni og aðhylltist kenningar Kalvíns. Húgenottar sættu ofsóknum af hálfu Loðvíks fjórtánda og hröktust til landa þar sem þeim sem mótmælendatrú var leyfð, þar á meðal til Danmerkur. Ég veit ekki hvað varð um mótmælendurna í Le Fresne-Camilly en virðuleg stytta af Loðvík fjórtánda stendur nú á Place Saint-Sauveur, fallegu torgi í Caen, þar sem bændur og matvælaframleiðendur selja varning sinn á markaðsdögum. Þangað var hún flutt af torgi sem kennt var við lýðveldið eftir byltinguna, Place de la République. 

Sólkóngurinn á stalli sínum í Caen – Mynd: ÓJ

Þau búa þrjú, Lise, Gilles og dóttirin Noé, í þessu virðulega húsi, sem var reist á byltingarárunum, nánar tiltekið árið 1791, líklega til að hýsa ferðafólk og gesti sem leið áttu um svæðið. Ekið er inn í garð umlukinn hlöðnum veggjum. Andspænis meginbyggingunni er skemma eða útihús sem núverandi íbúar hafa gert upp og innréttað þar fimm herbergi. Að auki er leigt út lítið kot sem stendur þarna innan garðs. Gestir eru á bilinu 15 til 20 og opið er árið um kring að því undanskildu að lokað er frá jólum og út janúarmánuð. Gestagangur er mestur frá apríl til loka september, eins og ætla mátti. Hjónin og dóttir þeirra búa í stóra húsinu og bera fram morgunverð fyrir gesti á jarðhæðinni. Þau hafa vanist sambýlinu við gestina þó að það reyni auðvitað á. Úr matsalnum sér inn í fallegan garð fjölskyldunnar. 

Heimreiðin – Mynd: ÓJ

Þetta er allt eins og í ævintýri: Að búa á sveitasetri í Normandí og reka gistiþjónustu. Lise kemur með kaffi og heimabakað brauð. Hún segir að Gilles sé duglegur að baka. Hann segir hæ og bæ, er rokinn með dótturina á sundnámskeið. Litla laugin í húsagarðinum þeirra dugar ekki til að barnið læri sundtökin almennilega. Við ræðum sögu hússins. Lise er að raða saman brotum héðan og þaðan. Herbergjafjöldinn í meginbyggingunni og ýmis tilhögun bendir til þess að þarna hafi ekki verið venjulegt fjölskylduhús í upphafi heldur gistihús, en á heimsstyrjaldarárunum síðari var þarna búrekstur, eins og sést á ljósmyndum sem Lise fékk nýlega frá Kanada. Þorpið Le Fresne-Camilly var einmitt það síðasta sem Kanadamenn frelsuðu á svæðinu eftir innrásina 6.júní 1944.  

Horft yfir akra Calvados – Mynd: ÓJ

Lise fer yfir aðdraganda þess að þau reka nú gistiheimili þarna úti í sveit. Þau hjónin voru bæði í góðri vinnu, hún í tryggingum, hann í banka, nýgift og höfðu eignast barn, en langaði að breyta um lífstakt. Þau fundu þessi dásemdarhús með lokuðum húsagarði og gróðri allt um kring og hófu endurbætur. Gilles hélt um sinn áfram í bankavinnunni en Lise hætti launavinnu og einbeitti sér að þessu nýja verkefni – að skapa sér atvinnu meðfram því að njóta sveitarsælunnar. Fyrstu gestirnir komu 2017 og sváfu í tveimur herbergjum. Lise vildi meira, stækka gistiaðstöðuna. 

Gamla kotið – Mynd: ÓJ

„Einn daginn sagðist maðurinn minn vilja taka þátt í þessu með mér. Hann hætti í bankanum og við réðumst í að endurnýja húsakynnin. Hann er handlaginn. Við kláruðum rétt fyrir Covid,” segir Lise. Það var eins og það var. Engar tekjur í langan tíma. Það hefur reynt á þolinmæði fjölskyldunnar – og bankans sem lánaði. 

„Þetta er mikil vinna en við erum ánægðari en nokkru sinni.“ – Mynd: ÓJ

„Við breyttum alveg um lífsstíl. Þetta er mikil vinna en við erum sáttari við vinnuna núna en áður fyrr. Vinnustundirnar eru margar og stundum er erfitt að finna tíma til að sinna einkalífinu af því að heimilið er um leið vinnustaðurinn. Þetta er mikil vinna en við erum ánægðari en nokkru sinni.”

This image has an empty alt attribute; its file name is Solurid-1200x750.jpeg

Covid-19 var mörgum erfitt í ferðaþjónustunni en Lise kvartar ekki þó að vissulega hafi verið erfitt að missa úr sex mánuði á meðan þau þurftu að hafa lokað. Eftir að tilslakanir voru gerðar hafi Frakkar verið duglegir að ferðast um eigið land á meðan útilokað var að fara til útlanda. Verðhækkanir á eldsneyti hafi líka leitt til þess að Parísarbúar og fleiri fari frekar en áður í stuttar ökuferðir. Þá liggur Normandí vel við. 

„Það er mjög vinsælt orðið að heimsækja Normandí. Hér er mjög margt að skoða – ekki aðeins það sem tengist D-deginum. Sjálf er ég héðan af svæðinu og fátt kemur mér á óvart en ég heyri sífellt að fólk er hissa á því hversu margt er að sjá og njóta hérna.”

Kortið lesið – Mynd: ÓJ

Þó að landar þeirra Lise og Gilles á Le Domaine de l´Hostellerie hafi haldið þeim á floti eins og mörgum öðrum í ferðaþjónustunni í Calvados-héraði þá er sumarið 2022 fyrsta alvöru prófraunin á fullan rekstur. Nóg hefur verið að gera í sumar, oftast fullbókað, en nú þegar hægir um þurfa þau hjónin að velta fyrir sér hvort lengja eigi vetrarlokunina til að þau nái að hvílast og undirbúa næsta saison – aðal ferðatímann frá vori fram á haust 2023. Eins hafa þau hugleitt að bjóða upp á lengri dvöl þarna og þurfa ákveða hvort ráðinn verði starfsmaður til að létta undir með þeim – þannig að þau geti tekið einstaka sinnum frí. Lise segir að á meðan heimsfaraldurinn geisaði hafi þau viljað fara varlega, óviss um hvað framtíðin bæri í skauti sér, og þess vegna ekki ráðið starfsmann. 

Gamli sveitasíminn – Mynd: ÓJ

„Nú erum við komin í góða stöðu og erum bjartsýn á framhaldið. Við höfum margar hugmyndir. Hugsanlega kaupum við eitthvað af akurlendinu hér í kring til að hafa rýmra um okkur. Við sjáum til.”

Lise fyrir framan slotið – MYND: ÓJ

Túristi var í Normandí í boði Atout France

Nýtt efni

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …

„Lítil umferð kemur sér vel. En ef bílum fjölgar mikið þá verður þetta verra því vegirnir eru ekki hannaðir fyrir bæði bíla og hjól,“ segir Tyler Wacker hjá fyrirtækinu „Cycling Westfjords“ á Ísafirði, sem bæði býður upp á þjónustu fyrir hjólreiðafólk og heldur úti „Arna Westfjords Way Challenge“, 960 kílómetra hjólreiðakeppni eftir Vestfjarðaleiðinni svokallaðri. „En …

Ítalía var mesta vínframleiðsluland heims 2023 en þurfti að sætta sig við að sala dróst saman. Það var reyndar staðan hjá flestum vínframleiðsluþjóðunum. Nú liggja fyrir tölur frá helstu markaðslöndum ítalskra vínframleiðenda: Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Kanada og Japan, en samanlagður útflutningur til þessara landa nemur 56 prósentum af heildinni. Til samanburðar vega þessi markaðslönd 50 prósent …

Hann var nýorðinn 14 ára gamall þegar eitt af stóru félögunum í Belgíu, Genk, hafði samband við hann og bauð honum pláss í fótboltaakademíunni sem hafði þá mjög góðan orðstír. Það tók Kevin de Bruyne nokkurn tíma að sannfæra foreldra sína um að það væri góð hugmynd fyrir hann að flytja frá Drongen til að …

Play leitar nú fjárfesta sem vilja leggja félaginu til 1,4 milljarða króna í það minnsta. Stærstu hluthafarnir hafa gefið vilyrði sitt fyrir innspýtingu upp á 2,6 milljarða kr. en sú viðbót er háð því skilyrði að það safnist alla vega 4 milljarðar í nýtt hlutafé. Áður höfðu stjórnendur Play gefið út að þeir þyrftu þrjá …

Mikil umferð farþega var um evrópska flugvelli í janúar, víða fór farþegafjöldinn fram úr því sem var í sama mánuði 2019. Um 46 flugvöllum á Spáni, sem AENA starfrækir, var farþegafjöldinn 18,6 milljónir, sem er 10 prósentum fleiri en í janúar í fyrra. Flestir fóru um flugvöllinn í Madríd nú í janúar síðastliðnum, nærri 4,8 …

Það sem af er ári hefur hægt á eftirspurn á rafbílamarkaði heimsins og framleiðendur bregðast við með því að segja upp starfsfólki, minnka framleiðslukostnað og breyta áætlunum sínum. Þetta bakslag gæti seinkað orkuskiptum í vegasamgöngum.  Þýski gæðabílaframleiðandinn Mercedes-Benz tilkynnti í gær að markmiðum um rafbílavæðingu yrði frestað um fimm ár og sjá til þess að …