Stuttu fyrir efnahagshrunið árið 2008 hætti Icelandair að fljúga til Baltimore-Washington flugvallar en hóf svo áætlunarflug til Washington Dulles árið 2011. Frá höfuðborg Bandaríkjanna er álíka langt til þessara tveggja flugvalla.
Nafn Baltimore birtist svo aftur á upplýsingaskjáum Leifsstöðvar sumarið 2015 þegar Bandaríkjaflug Wow Air hófst og þremur árum síðar mættu þotur Icelandair aftur á svæðið.
Sú endurkoma gekk ekki upp eins og margt annað hjá flugfélaginu þetta sumar enda sagði þáverandi forstjóri félagsins upp störfum undir lok vertíðar.
Baltimore var því ekki hluti af leiðakerfi Icelandair sumarið 2019 jafnvel þó Wow Air væri farið í þrot. Það var samt ljóst að Play myndi setja stefnuna á borgina nú í sumar og kann það að skýra afhverju Icelandair tók upp þráðinn á Baltimore-International flugvelli í vor.
Íslensku flugfélögin hafa því att kappi þar síðustu mánuði en brátt fær Play smá pásu. Icelandair hefur nefnilega fellt niður ferðir sínar til borgarinnar fyrstu þrjá mánuði næsta árs. Áður hafði félagið sett stefnuna á að halda úti ferðum þangað allt árið um kring.
Spurður um þessa breytingu þá bendir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, á að framboð sé aðlagað að eftirspurn en þó með eins góðum fyrirvara og mögulegt er. „Þeim farþegum sem þegar voru bókaðir á Baltimore á þessu tímabili var boðið flug á sama tíma frá Washington Dulles,“ bætir Guðni við.
Næsta sumar stefnir í að samkeppni íslensku félaganna á bandaríska höfuðborgarsvæðinu verði óvenju hörð og meiri en þekktist á tíma Wow Air. Skýringin á því liggur helst í því að Play ætlar, líkt og Icelandair, að fljúga til bæði Washington Dulles flugvallar og einnig Baltimore-International frá og með vorinu. Þotur Icelandair og Play verða því fastagestir á báðum þessum flugvöllum.