Samfélagsmiðlar

Óveður kemur kerfinu á óvart

Íslensk ferðaþjónusta hlýtur að gera kröfu til þess að stjórnkerfið taki atvinnugreinina alvarlega og að henni séu sköpuð eðlileg starfsskilyrði - og komið sé fram við viðskiptavini hennar af virðingu og væntumþykju.

Klippur af fréttavefum

Auðvitað hljóta erlendir ferðamenn að undrast getuleysi og vanbúnað íslenskra yfirvalda í samgöngumálum og rekstri alþjóðaflugvallarins í Keflavík að vetrarlagi. Ættu Íslendingar ekki einmitt að vera sú þjóð sem best ætti að ráða við snjókomu og hvassviðri – vita nokkurn veginn hvernig bregðast eigi við? Heitir landið ekki ÍSLAND?

Á ekki að vera til staðar nauðsynlegur búnaður og skipulag til að halda Reykjanesbraut opinni – nánast alltaf? Er ekki eðlilegt að gera þá kröfu til ábyrgðaraðila Keflavíkurflugvallar að þar sé fyrir hendi áætlun og búnaður til að veita ferðafólki sem þar neyðist til að hafast við gott atlæti, sæmilegar aðstæður: rúmbedda, teppi og mat? Íslendingar hafa þá mynd af sjálfum sér að vera gestrisnir.

Það hefur verið vandræðalegt að fylgjast með því hvernig allt fór á hliðina í mikilvægasta hluta samgöngukerfis landsins í þessum vetrarhvelli í aðdraganda jóla. Reykjanesbraut var ekki rudd eins og hægt var að gera, fastir bílar sátu eftir og juku vandann, flugvélar fóru ekki á loft eftir að fært varð vegna þess að áhafnir komust ekki landleiðina, fljúga þurfti með áhafnir milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Mikill fjöldi farþega beið klukkutímum saman matarlítill í flugstöðinni, fólk lagðist á gólfin, beið og beið. Upplýsingar voru af skornum skammti. Ábyrgðaraðilar hjá Vegagerðinni og Isavia benda á verktaka og rekstraraðila á flugvellinum. Hver bendir á annan. En er ekki alveg ljóst að það eru opinberir aðilar sem bera ábyrgðina – framkvæmdavaldið og þær stofnanir sem undir það heyra?

Íslendingar létu óveðrið koma sér að óvörum.

Innviðaráðherra segir: „Ég mun tryggja að svona gerist ekki aftur.“ Hvernig getur einn ráðherra tryggt það, þó vaskur sé? Í ljós kemur að ráðherra innviða þarf að láta starfshóp fara yfir skipulag á snjómokstri á Reykjanesbraut. Er ekki hægt að tékka á því með einu símtali til Vegamálastjóra? Starfshópurinn á líka að fara yfir það hvernig staðið er að því að loka eða opna fyrir umferð og hver beri ábyrgð á því að fjarlægja fasta bíla. Það á líka að ræða upplýsingagjöfina, yfirfara hlutverk og verkaskiptingu. Loks á að meta hvort breyta þurfi lögum eða skýra reglur svo stofnanir ríkisins viti hvað þær eigi að gera ef óveður skellur á í þessu landi – Íslandi.

Ráðherrar hafa áhyggjur af því að þessi uppákoma á aðventunni geti skaðað orðspor Íslands sem áfangastaðar. Auðvitað veit ferðafólk að það getur lent í töfum á flugi vegna óveðurs víða um heim. Það er lítið við því að segja. En það er upplifunin af viðbrögðum heimamanna sem skiptir mestu. Þar verður orðsporið til. Ferðamaður sem sat lengi fastur á Reykjanesbraut eða neyddist til að leggjast örþreyttur á kalt gólf Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar með saltflögur og kók til matar undrast vafalaust að innviðaráðherra lands sem kennir sig við ís þurfi að skipa starfshóp sem fær mánuð til að setja fram áætlun um hvað gera eigi þegar óveður lokar veginum að eina alþjóðaflugvelli landsins.

„Ég mun tryggja að svona gerist ekki aftur,“ sagði ráðherrann.

„Ég mun örugglega ekki koma aftur til Íslands,“ tautar ferðamaður í barminn þegar hann loks tekur flugið frá Keflavík.

Svo skilar starfshópurinn sínum tillögum, ráðherra fer yfir þær. En er líklegt að viðbúnaður á Reykjanesbraut verði aukinn með meiri mannskap og fleiri tækjum – að við verðum tilbúin í hretinu sem skellur á okkur í febrúar eða mars? Verður þá hægt að tryggja að farþegarnir sem fréttu aldrei af aðventuvandræðunum, eða stóð á sama og komu til Íslands þrátt fyrir þau, fái ávallt nauðsynlegar upplýsingar um ástand, veður og færð, verði komið nokkuð óhindrað til Keflavíkurflugvallar – og geti fengið aðstöðu til að hvílast og mat að borða ef flugáætlanir fara úr skorðum af óviðráðanlegum ástæðum?

Allir sem starfa í íslenskri ferðaþjónustu hljóta að gera kröfu til þess að stjórnkerfið fari að taka það alvarlega að atvinnugreinin er sú mikilvægasta í landinu og það sé henni lífsnauðsyn að sköpuð séu eðlileg starfsskilyrði – og komið sé fram við viðskiptavini hennar af virðingu og væntumþykju.

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …