Samfélagsmiðlar

Óveður kemur kerfinu á óvart

Íslensk ferðaþjónusta hlýtur að gera kröfu til þess að stjórnkerfið taki atvinnugreinina alvarlega og að henni séu sköpuð eðlileg starfsskilyrði - og komið sé fram við viðskiptavini hennar af virðingu og væntumþykju.

Klippur af fréttavefum

Auðvitað hljóta erlendir ferðamenn að undrast getuleysi og vanbúnað íslenskra yfirvalda í samgöngumálum og rekstri alþjóðaflugvallarins í Keflavík að vetrarlagi. Ættu Íslendingar ekki einmitt að vera sú þjóð sem best ætti að ráða við snjókomu og hvassviðri – vita nokkurn veginn hvernig bregðast eigi við? Heitir landið ekki ÍSLAND?

Á ekki að vera til staðar nauðsynlegur búnaður og skipulag til að halda Reykjanesbraut opinni – nánast alltaf? Er ekki eðlilegt að gera þá kröfu til ábyrgðaraðila Keflavíkurflugvallar að þar sé fyrir hendi áætlun og búnaður til að veita ferðafólki sem þar neyðist til að hafast við gott atlæti, sæmilegar aðstæður: rúmbedda, teppi og mat? Íslendingar hafa þá mynd af sjálfum sér að vera gestrisnir.

Það hefur verið vandræðalegt að fylgjast með því hvernig allt fór á hliðina í mikilvægasta hluta samgöngukerfis landsins í þessum vetrarhvelli í aðdraganda jóla. Reykjanesbraut var ekki rudd eins og hægt var að gera, fastir bílar sátu eftir og juku vandann, flugvélar fóru ekki á loft eftir að fært varð vegna þess að áhafnir komust ekki landleiðina, fljúga þurfti með áhafnir milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Mikill fjöldi farþega beið klukkutímum saman matarlítill í flugstöðinni, fólk lagðist á gólfin, beið og beið. Upplýsingar voru af skornum skammti. Ábyrgðaraðilar hjá Vegagerðinni og Isavia benda á verktaka og rekstraraðila á flugvellinum. Hver bendir á annan. En er ekki alveg ljóst að það eru opinberir aðilar sem bera ábyrgðina – framkvæmdavaldið og þær stofnanir sem undir það heyra?

Íslendingar létu óveðrið koma sér að óvörum.

Innviðaráðherra segir: „Ég mun tryggja að svona gerist ekki aftur.“ Hvernig getur einn ráðherra tryggt það, þó vaskur sé? Í ljós kemur að ráðherra innviða þarf að láta starfshóp fara yfir skipulag á snjómokstri á Reykjanesbraut. Er ekki hægt að tékka á því með einu símtali til Vegamálastjóra? Starfshópurinn á líka að fara yfir það hvernig staðið er að því að loka eða opna fyrir umferð og hver beri ábyrgð á því að fjarlægja fasta bíla. Það á líka að ræða upplýsingagjöfina, yfirfara hlutverk og verkaskiptingu. Loks á að meta hvort breyta þurfi lögum eða skýra reglur svo stofnanir ríkisins viti hvað þær eigi að gera ef óveður skellur á í þessu landi – Íslandi.

Ráðherrar hafa áhyggjur af því að þessi uppákoma á aðventunni geti skaðað orðspor Íslands sem áfangastaðar. Auðvitað veit ferðafólk að það getur lent í töfum á flugi vegna óveðurs víða um heim. Það er lítið við því að segja. En það er upplifunin af viðbrögðum heimamanna sem skiptir mestu. Þar verður orðsporið til. Ferðamaður sem sat lengi fastur á Reykjanesbraut eða neyddist til að leggjast örþreyttur á kalt gólf Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar með saltflögur og kók til matar undrast vafalaust að innviðaráðherra lands sem kennir sig við ís þurfi að skipa starfshóp sem fær mánuð til að setja fram áætlun um hvað gera eigi þegar óveður lokar veginum að eina alþjóðaflugvelli landsins.

„Ég mun tryggja að svona gerist ekki aftur,“ sagði ráðherrann.

„Ég mun örugglega ekki koma aftur til Íslands,“ tautar ferðamaður í barminn þegar hann loks tekur flugið frá Keflavík.

Svo skilar starfshópurinn sínum tillögum, ráðherra fer yfir þær. En er líklegt að viðbúnaður á Reykjanesbraut verði aukinn með meiri mannskap og fleiri tækjum – að við verðum tilbúin í hretinu sem skellur á okkur í febrúar eða mars? Verður þá hægt að tryggja að farþegarnir sem fréttu aldrei af aðventuvandræðunum, eða stóð á sama og komu til Íslands þrátt fyrir þau, fái ávallt nauðsynlegar upplýsingar um ástand, veður og færð, verði komið nokkuð óhindrað til Keflavíkurflugvallar – og geti fengið aðstöðu til að hvílast og mat að borða ef flugáætlanir fara úr skorðum af óviðráðanlegum ástæðum?

Allir sem starfa í íslenskri ferðaþjónustu hljóta að gera kröfu til þess að stjórnkerfið fari að taka það alvarlega að atvinnugreinin er sú mikilvægasta í landinu og það sé henni lífsnauðsyn að sköpuð séu eðlileg starfsskilyrði – og komið sé fram við viðskiptavini hennar af virðingu og væntumþykju.

Nýtt efni

Það er bannað að auglýsa vín á Íslandi - nema auðvitað í amerískum samfélagsmiðlum og þeim erlendu vefsíðum sem íslenskir lesendur heimsækja. Áfengisauglýsingar eru hinsvegar mikilvæg tekjulind fjölmiðla í löndum allt í kringum okkur enda býr áfengisiðnaðurinn yfir miklu fjármagni og vill viðhalda áhuga neytenda á öllum aldri á þessum viðurkennda en varasama vímugjafa. FF7 …

Með hjálp málgreiningarforrits og athugun á orðanotkun hefur Lapo Lappin komist að því að tvær af vinsælustu bókum Camillu geta varla verið skrifaðar af höfundinum sjálfum og bendir Lappin á að textinn líkist mjög textum eftir annan rithöfund, Pascal Engman. Sjálf neitar Camilla (og það gerir Pascal einnig) öllum ásökunum og telur þær vera ávöxt öfundar …

Stundum fer rás atburða í hring. Flugvélasmiðja Spirit í Wichita var sett á stofn af Stearman Aircraft árið 1927 en tveimur árum síðar eignaðist United Aircraft and Transport Corporation fyrirtækið og rak til ársins 1934. Þá tók Boeing við rekstrinum og í heimsstyrjöldinni síðari, árið 1941, varð Spirit deild innan Boeing. Þannig hélst fyrirkomulagið til …

„Ég er búinn að vera í björgunarsveit í að verða 15 ár og í öllum útköllum tók ég Beef Jerky, þurrkað nautakjöt frá Bandaríkjunum, með mér sem nesti í neyð. Ég gekk til dæmis einu sinni þvert yfir landið, frá Reykjanestá yfir á Langanes og fyrir þá ferð gerði ég mikla leit að góðu, íslensku …

Næring forfeðra okkar á oftar en ekki fyllilega erindi við nútímamanninn. Sum þeirra matvæla sem nú er hent var hreinlega slegist um áður fyrr. Með vaxandi hraða þjóðfélagsins og breyttri menningu hefur heilsusamlegt hráefni eins og innmatur, dýrafitur, bein og mergur orðið að hliðarafurð sem fer til spillis. Þessi sóun hefur í för með sér …

Gistinætur Breta á norðlenskum hótelum í janúar voru 422 talsins sem er rétt um tíund af því sem var í janúar árin 2018 og 2019 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break bauð upp á pakkaferðir til Akureyrar frá nokkrum breskum flugvöllum. Tilkoma áætlunarflugs Easyjet frá London til Akureyrar hefur því ennþá miklu minni áhrif á gistigeirann …

Stærstu hluthafar Play skuldbindu sig til að leggja flugfélaginu til 2,6 milljarða króna í nýtt hlutafé í byrjun síðustu viku en með þeim skilyrðum að hlutafjárútboðið myndi nema samtals fjórum milljörðum króna. Nú hefur félagið tryggt sér þá 1,4 milljarða sem upp á vantaði. Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að þessi hlutafjáraukning sé …

Í febrúar léku þýsku fótboltaliðin Hansa Rostock og Hamburger Sport Verein (HSV) á heimavelli Hansa í Rostock. Bæði liðin eru gömul stórveldi á fótboltavellinum en eru nú í nokkrum öldudal og leika í annarri deild þýska fótboltans. Leikurinn endaði 2-2 sem voru auðvitað töluverð vonbrigði fyrir lið Hamborgar því þeir keppast við að komast aftur …