Samfélagsmiðlar

Khao San Road og ég

„Það er dásamlegt að ferðast með börn um Tæland. Þeim er alls staðar vel tekið, fagnað og hampað," segir Halla Gunnarsdóttir í ferðabréfi frá Tælandi. Hún var þar síðast ein á ferð fyrir 19 árum. Nú er hún með eiginmanni og tveimur börnum í leit að ævintýrum.

Mæðgur í bleikum túktúk.

Ég dró djúpt andann áður en ég settist inn í smárútuna. Ég vildi muna lyktina; þetta undarlega sambland af steiktum mat, kryddi og ferskum ávöxtum, útblæstri frá úr sér gengnum mótorhjólum, reykingum og reykelsum og sveittum fötum bakpokaferðlanga. Ég tók líka með mér hávaðann í umferðinni, hrópandann í sölumönnum með „special price for you my friend” og taktinn í öllum helstu slögurum samtímans sem úrræðagóðir heimamenn brenndu á geisladiska og seldu. 

Þetta var heimurinn fyrir almennar streymisveitur og sítengingu. Þetta var Thanon Khao San – Khao San Road í Bangkok – að koma sér í gírinn fyrir enn eitt kvöldið. Árið var 2004. Ég var að kveðja Suðaustur-Asíu eftir fimm mánaða ferðalag, ég var að kveðja Bangkok sem mér fannst vera orðin mín heimahöfn, sannfærð um að ég kæmi fljótt afur. Fötin límdust við mig í hitanum og rakanum. Ég settist inn í rútuna, bless í bili Bangkok, takk fyrir mig.

Rúmum sólarhring síðar sat ég við eldhúsborðið hjá mömmu í Mosó. Bangkok var bæði svo stutt og hryllilega langt í burtu. Flugþreytt og með blik í augum reyndi ég að segja henni frá lyktinni, ljósunum og hávaðanum. Þessari skynvitaárás sem er óþolandi fyrst en verður síðan svo heimilisleg. Mamma hlustaði, fegin að ég var komin heim, henni leist ekkert á þetta flandur. „Þetta er svo magnað,” mamma, sagði ég, „ég fer bráðum aftur og þú ættir að koma líka.”

Síðan liðu nítján ár. 

Phra Nakhon Si Ayutthaya hofið er sérstaklega tilkomumikið við sólsetur.

Skipulagt ferðalag

Nú í janúar kom ég aftur. Ég gekk hikandi inn á Khao San, var gatan ekki þrengri þá? Eða man ég hana bara ekki í björtu? Það stendur enn, gistiheimilið sem ég gisti á ef það var laust herbergi. Allan þennan tíma sem ég dvaldi í Tælandi í nokkrum heimsóknum 2002 og 2004 bókaði ég aldrei gistingu. Ég mætti bara, skoðaði óvistleg herbergi með sameiginlegum baðherbergjum og prúttaði um verð. Núna er allt skipulagt, hver einasta nótt plönuð og ég er meira að segja með niðurskrifaða ferðaáætlun. 

Skipulagið er svo sem ekki komið til að ástæðulausu. Ég held í höndina á fimm ára dóttur minni og framan á mér dinglar sú átta mánaða. Á eftir mér gengur flugþreyttur eiginmaður sem langaði í vordvöl í París en var þess í stað dreginn til Tælands. Ég er komin aftur, næstum tuttugu árum eldri en síðast, og það er Khao San líka. Lætin hafa minnkað, sölumennirnir eru dannaðri og sjóræningjageisladiskarnir horfnir. Netkaffihúsin sem ég nýtti til að hringja heim og fá útrás fyrir heimþrána á MSN, eru ekki þarna lengur. Og ég sem áður lét nægja þvælt eintak af ferðahandbók, til að skipuleggja ferðir mínar, verð óörugg ef ég skrepp yfir götu án snjallsímans. En lyktin, er hún hér ekki enn, að einhverju leyti að minnsta kosti? Ég hnusa út í loftið. Áður en ég finn ilminn af kóríander og kókos lallar túktúk framhjá mér og ég finn bara olíulykt. Jú, svona var þetta, sirka.

Þessi hreinu klósett!

Ég ákvað að gera tíu hnébeygjur á dag í aðdraganda ferðarinnar til að styrkja mig fyrir klósettferðir í Tælandi. Ég var búin undir óhrein squat klósett, að sturta niður með vatni úr fötu og að líta á klósettpappír og sápu sem munaðarvöru. En ég fæ lítið að reyna á lærvöðvana. Á ótrúlegustu stöðum eru hin snyrtilegustu vatnssalerni og covid hefur séð til þess að víðast er bæði handspritt og sápa.

Fjölskylda í markaðsferð á matreiðslunámskeiði.

Í þessum fyrri áfanga ferðarinnar liggur leiðin um Bangkok, Ayutthaya og Chiang Mai. Ég leiði stelpuna mína úr hofi í hof, sýni henni allt gullið og kenni henni að votta búddah virðingu. Hún hneigir sig djúpt og kallar hann Odd fyrst um sinn eða þar til hún lærir þetta nýja orð búddah. Smá saman verður hún sjálfsöruggari, gerir framandi umhverfi að sínu. 

Það er dásamlegt að ferðast með börn um Tæland. Þeim er alls staðar vel tekið, fagnað og hampað. Þetta er líka smá flókið á köflum, sérstaklega þegar kemur að samgöngum. Hér er nýbúið að gera öryggisbelti að skyldu og barnabílstólar eru lagaleg nýlunda sem eru langt í frá orðnir hluti af samfélaginu. Við gerum okkar besta, en þurfum líka stundum að taka sjénsa til að geta komist milli staða.

Tene eða Tæland?

Þegar við ákváðum að fara til Tælands spurðu mig margir hvers vegna við færum ekki bara til Tenerife, beint flug, miklu einfaldara, sama sólin og paradís fyrir börn sem elska sundlaugar og strendur. Þetta er sjálfsagt rétt, en mín reynsla af þessu ferðalagi er að börn elska líka að þvælast með foreldrum sínum. Sögulegt hof við sólsetur í Ayutthaya er ævintýralegur leikvöllur þar sem ímyndunaraflið fær lausan tauminn. Að hitta fíl og baða sig undir köldum fossi til að ylja sér svo í sólinni er lífsreynsla sem fylgir barni. Matreiðslunámskeið í Chiang Mai, með heimsókn í matjurtagarð og á markað, opnar heila veröld af bragði og lykt. Barnið sem áður felldi harkalega dóma yfir mat fær allt í einu áhuga á að smakka framandi rétti og reyna að lýsa bragðinu af þeim. Og smám saman byrjum við öll að þola sterkari mat. En síðan stendur kannski helst upp úr að hafa ferðast í næturlest eða farið milli staða í bleikum túktúk. Rafknúna leikfangamótorhjólið á fjölskyldureknu gistiheimili og ósýnilega skriftin sem ferðafélagi okkar sagðist nota til að merkja vatnsflöskur, eru líka eftirminnileg. Ekki veit ég hvað barnshugurinn geymir til frambúðar, en mikið ofboðslega er gaman að fá að ferðast með honum um þetta stórbrotna land.

Mamma er komin á Khao San

Dvölin í Chiang Mai er komin á enda. Við höfum skoðað hof og vafrað um markaði, kíkt út í náttúruna og kynnst sögu þessa merkilega svæðis. Við höfum líka hitt fyrir ógrynni af frábærum kaffihúsum sem kaffiáhugamaðurinn minn segir að séu í heimsklassa. Og fyrir ykkur sem hafið verið á þessum slóðum og setið uppi með hina lítið spennandi lagerbjóra Chang og Shinga eru hér fréttir: handverksbruggið rataði líka til Tælands. Einn tælenskan IPA, khob khun kaaa!

Mamma hringdi í gær. Hún er komin til Bangkok og leggur nú leið sína á Khao San Road í fyrsta skipti. Kannski finnur hún lyktina sem ég fann þá.

Í dag hittumst við í Krabi-héraðinu í suðri.

Fallega suðrið bíður.

Chiang Mai, 25. janúar 2023

Nýtt efni

Aspasinn fyrirfinnst í þremur litbrigðum – hvítur, grænn og fjólublár. Hér er í raun um að ræða sömu plöntuna en afbrigðin hafa ólíka eiginleika og ræðst liturinn af því ásamt hlutfalli sólarljóss við ræktunina. Þetta næringarríka grænmeti er ein þeirra matjurta sem maðurinn hóf fyrst að rækta en elstu heimildir um aspasræktun eru um 2.000 …

Það voru vísbendingar um offramboð á flugi héðan til London og Frankfurt síðastliðinn vetur að mati stjórnenda Icelandair. Nú er hins vegar útlit fyrir nokkru færri brottfarir til beggja þessara borga á komandi vetri. Þannig hefur Wizz Air ekki lengur á boðstólum flug til Íslands frá London og þar með dregst framboð á flugi hingað …

Ferðaskrifstofur sem selja Íslandsferðir horfa nú í auknum mæli á eftir viðskipavinunum til Noregs þar sem verðlagið er skárra. Norskir ferðafrömuðir eru líka brattir í viðtölum þessa dagana og almennt sammála um að nýliðinn vetur hafi gengið vel og sumarið verði „dúndurgott" eins og það síðasta. Og opinberar tölur sýna að veturinn gekk vel í …

Þrotabú Wow Air hefur höfðað 11 riftunarmál vegna greiðslna til kröfuhafa flugfélagsins fyrir gjaldþrot þess í mars 2019. Fyrrum forstjóra flugfélagsins og eigenda, Skúla Mogensen, er stefnt til greiðslu skaðabóta í öllum þessum málum. Auk þess er farið fram á skaðabætur frá fyrrum stjórn fyrirtækisins í níu málum. Í stjórninni sátu Liv Bergþórsdóttir, sem var …

Þingmennirnir Jóhann Páll Jóhannsson (S) og Óli Björn Kárason (D) eru ekki bjartsýnir á að Alþingi nái að afgreiða þingsályktuntillögu Lilju Alfreðsdóttur (B), ráðherra ferðamála, um nýja ferðamálastefnu til ársins 2030. Þetta kom fram í máli þingmannanna í pallborðsumræðum á fundi Samtaka ferðaþjónustunnar í fyrradag. Ráðherrann tók líka þátt í pallborðinu og átti þar lokaorðin. …

Verðlag í evrópskum matvöruverslunum var almennt hærra í nýliðnum apríl en það var á sama tíma í fyrra. Íbúar í Tékklandi, Litháen, Ungverjalandi, Slóveníu og Finnlandi borga þó minna í dag fyrir mat og drykk en þeir gerðu á fyrra samkvæmt nýrri verðmælingu á vegum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í Tyrklandi hækkar verðlag hratt og fór …

Samkeppnisstofnun Evrópusambandsins hefur sektað bandaríska sælgætisrisann Mondelez um 337,5 milljónir evra eða 47 milljarða íslenskra króna fyrir óeðlilega viðskiptahætti. Er Mondelez fellt fyrir að hafa skipt evrópska markaðnum upp og takmarkað flutning á vörum sínum milli landa á árunum 2015 til 2019. Tilgangurinn var að halda vöruverði uppi að því segir í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn …

Spænska lágfargjaldaflugfélagið Vueling heldur áfram að fækka ferðum til Íslands en þotur þess flugu hingað þrisvar í viku frá Barcelona síðastliðið sumar og svo eina til tvær ferðir í viku yfir nýliðinn vetur. Sumaráætlun Vueling í ár gerir aðeins ráð fyrir brottförum frá Keflavíkurflugvelli á sunnudagskvöldum frá 23. júní til 8. september. Eftir þann tíma …