Samfélagsmiðlar

„Nú fer þetta að vaxa mjög hratt“

„Við þurfum virkilega að spýta í lófana og fjölga gistimöguleikum," segir Ásbjörn Björgvinsson, frumkvöðull í íslenskri ferðaþjónustu sem nú starfar fyrir ferðaskrifstofuna Discover the World. Hann var á Mannamótum í dag að kanna gistipláss fyrir breska ferðamenn.

Ásbjörn Björgvinsson

Ásbjörn Björgvinsson á Mannamótum 2023

Það var margt um manninn á ferðakaupstefnunni Mannamótum, sem markaðsstofur landshlutanna héldu í Kórnum í Kópavogi í dag. Meðal þeirra sem sóttu þennan viðburð, sem eiginlega má líkja við árshátíð ferðaþjónustufólks, var Ásbjörn Björgvinsson. Óhætt er að kalla hann frumkvöðul í afþreyingartengdri ferðaþjónustu. Nú var hann mættur sem fulltrúi Discover the World, ferðaskrifstofu Clive Stacey. Þeir félagarnir Clive og Ásbjörn hafa þekkst frá því að sá breski kom til Flateyrar 1972 að vinna í fiski. 

Mannamót eru árshátíð – MYND: ÓJ

„Ég er nokkuð viss um að margir hér á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki áttað sig á þeim fjölbreytileika í afþreyingu, mat og gistingu sem landsbyggðin hefur að bjóða. Það er með ólíkindum að hitta allt þetta fólk sem er uppfullt af hugmyndum – og margar eru þær að rætast.”

Ásbjörn kannar gistimöguleika fyrir Bretana – MYND: ÓJ

Einu sinni varstu hinum megin við borðið en nú mætir þú sem fulltrúi breskrar ferðaskrifstofu. Sérðu nýjungar sem gætu nýst ykkur?

„Já, en ég er raunar fyrst og fremst að skima eftir gistimöguleikum. Það er að þrengjast um á markaðnum fyrir viðskiptavini frá Bretlandi. Discover the World er langstærsta ferðaskrifstofan sem sérhæfir sig í að þjóna skólahópum í jarðfræðiferðum. Þau bíða auðvitað eftir því að hægt verði að fljúga beint til Akureyrar frá Bretlandi með skólahópa – beint norður, ekki bara suður. Ég er að skoða hvort einhverja nýja gististaði er að finna á Suður-, Vestur- og Norðurlandi. Svo kanna ég í leiðinni hvað er í boði á Vestfjörðum og Austfhörðum fyrir sjálfan mig! Ég miðla þessum upplýsingum sem ég fæ hér á Mannamótum beint til skrifstofunnar í Bretlandi. Við komum á tengslum við nýja birgja og síðan koma þau frá ferðaskrifstofunni í heimsóknir til Íslands, skoða aðstöðu víðsvegar um landið og gististaði.”

Þú nefndir að víða væri að þrengjast um hvað varðar gistingu. Víða er uppbókað um háönnina. Þetta er auðvitað ekki góð staða, t.d. í höfuðstað Norðurlands, Akureyri.

„Hún er dálítið að springa í andlitið á okkur þessi mikla spurn eftir ferðum til Íslands. Þrátt fyrir að talað sé um efnahagskreppu í Bretlandi þá er það svo takmarkaður hluti þessarar 70 milljóna þjóðar sem lendir illa í þrengingunum. Stór hluti fólks er tilbúinn að borga vel fyrir þá upplifun sem lofað er. Oftast koma þessir viðskiptavinir til baka yfir sig hrifnir af Íslandi. Það spyrst auðvitað út og veltir upp á sig. Nú fer þetta að vaxa mjög hratt. Við þurfum virkilega að spýta í lófana og fjölga gistimöguleikum.”

Fyrsta breska bylgjan sem kom eftir gosið í Eyjafjallajökli beindist að Reykjavík, Gullna hringnum og öðrum svæðum á Suðvestur- og Suðurlandi. Þetta byggðist á miklu framboði á ódýru flugi frá Bretlandi. Er núna kominn tími til að fara með þetta allt upp á annað stig?

Ævintýraveröldin í Stuðlagili kynnt – MYND: ÓJ

„Já, við sjáum að með aukinni afþreyingu, þeirri nýsköpun sem er að eiga sér stað, á Vestfjörðum og Austfjörðum, fjölgar gestum sífellt. Þetta er eiginlega bylting – hvernig gestum hefur fjölgað. Útsýnispallurinn á Bolafjalli á eftir að draga til sín tugi þúsunda á þessu ári. Svipað sér maður annars staðar á landinu þar sem aðgengi fyrir ferðamenn hefur verið bætt. Sem betur fer höfum við lagt fjármuni í að bæta aðgengi og bæta öryggi. Við þurfum að halda áfram á þeirri vegferð. Fjölga verður gistirýmum – og svo eru það rúturnar: Þær eru allar meira og minna uppbókaðar líka! Við erum að lenda í lúxusvanda. Eina rétta leiðin er að bæta þjónustu og auka gæðin. Við erum dýr og við verðum dýr – til að standa undir þeim kostnaði sem fólk hefur tekið á sig við uppbygginguna.“

Hvað segir þú við því sem sumir halda fram að það séu nú þegar alltof margir ferðamenn á Íslandi?

„Ég er ekki sammála því að ferðamenn séu þegar orðnir of margir. Ákveðnir staðir eru mjög ásetnir, sérstaklega á Suðurlandi, en með uppbyggingunni víða um land mun fólk dreifast víðar. En ég hef alltaf sagt: Þú sendir engan eitt né neitt! Fólk fer þangað sem það langar að fara. Kirkjufell í Grundarfirði dregur einfaldlega fólk til sín. Það sama mun gerast á Bolafjalli. Þeir ferðamenn sem eru að koma í annað eða þriðja sinn vita að það er miklu meira að skoða en Suðurland og fara þá víðar. Discover the World hefur verið að beina því fólki sem vill ferðast um Ísland á bílaleigubílum á rafmagnsbílana. Sjálfur fór ég í tilraunaskyni í 2.500 kílómetra ferð á Teslu í vetur og heimsótti um 20 gististaði. Það gekk mjög vel. Engin vandamál.”

Lava Show á Mannamótum – MYND: ÓJ

Þú hefur komið að merkilegum frumkvöðlaverkefnum, nægir að nefna Hvalasafnið á Húsavík og Lava, eldfjallamiðstöðina á Hvolsvelli. Er frumkvöðlaandann enn að finna í ferðaþjónustunni?

„Já! Nú er ég bara búinn að skoða hálfa sýninguna hér á Mannamótum og þegar hitt nokkra sem eru á sömu vegferð og ég. Nefna má Lava Show sem byrjaði í Vík en er líka komið út á Granda. Þau bræða basaltið og láta það renna yfir ísklumpa. Alveg stórfengleg sýning. Svo er að koma rennibraut úr Kömbunum og niður í Hveragerði! Það er fullt af fólki þarna úti sem er tilbúið að stökkva á eitthvað sem öðrum þykir gjörsamlega fáránlegt.”

Það er varla önnur starfsgrein eins og ferðaþjónustan sem leyfir jafn mikið hugarflug.

„Nei, og það eina sem takmarkar er hugurinn sjálfur. Það er greinilega vilji til að fjárfesta í greininni. Það verður að koma fram með hugmyndir sem menn sjá að geti borgað sig. Þetta er að raungerast í svo mörgu í dag og mun gera áfram.”

„Eina sem takmarkar er hugurinn sjálfur“ – MYND: ÓJ
Nýtt efni

Fyrstu fimm mánuði ársins hefur verð á flugmiðum frá Íslandi til útlanda verið ódýrara en á sama tímabili í fyrra. Í maí lækkaði verðið um 5,7 prósent samkvæmt nýjum mælingum Hagstofunnar en til samanburðar hækkaði verðlag almennt um 6,2 prósent á milli ára. Verðmælingar Hagstofunnar ná til fleiri flugfélaga en þeirra íslensku en þau standa …

Þess hefur verið beðið að Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti um refsitolla á innflutning kínverskra rafbíla. Kínversk stjórnvöld hafa verið sökuð um óeðlilega mikinn ríkisstuðning við innlenda framleiðendur og var þetta meðal umræðuefna í Evrópuferð forseta Kína nýverið. Ný tollheimta myndi þýða milljarða evra aukalegar álögur á kínverska rafbílaframleiðendur.  Xi-Jingping, forseti Kína - MYND: Britta Pedersen/dpa-Zentralbild/dpa/Alamy Nú …

Það er stundum margt um ferðamanninn á Skólavörðustíg og á Laugavegi. Einhverjir tuða vegna þessa, segjast vilja endurheimta miðborgina, en fleiri gera sér grein fyrir því að ferðamenn hafa glætt miðborgina nýju lífi. Það er svo annað mál að ferðamannafjöldi leiðir gjarnan til einhæfni í þjónustu: Ferðamannamenn í miðborginni - MYND: ÓJ Minjagripaverslunum fjölgar óhæfilega, …

Kynnisferðir hf. hagnaðist um rúmlega 1,3 milljarða króna á síðasta ári og tvöfaldaðist hann á milli ára. Tekjur félagsins námu 14,5 milljörðum króna og jukust um 30 prósent frá í fyrra. „Við erum afar stolt af þeim árangri sem náðist í rekstri félagsins á síðasta ári þrátt fyrir hátt vaxtastig og aðrar krefjandi ytri aðstæður. …

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, og ríkisstjórn hans með Janet Yellen, fjármálaráðherra, fremsta í flokki, hafa nú kynnt fyrstu opinberu leiðbeiningarnar fyrir markað með kolefniseiningar þar í landi. Leiðbeininginum er ætlað auka líkurnar á því að kolefniseiningar sem ganga kaupum og sölum séu af nægilegum gæðum og að verkefnin sem liggi þeim til grundvallar skili raunverulegum árangri, …

„Fyrir þessa aðgerð voru rúmlega 800 manns í störfum sem ekki eru flugtengd og uppsagnirnar náðu eingöngu til þeirra," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, en fyrirtækið samdi í dag um starfslok 82 starfsmanna. Uppsagnirnar náðu ekki til áhafna líkt og FF7 hafði áður greint frá. „Eins og við höfum sagt þá var árið …

Ráðuneyti viðskipta og sjávarútvegsmála í Noregi kynnti fyrir tveimur árum drög að frumvarpi um að þarlendir kjarasamningar og reglur um aðbúnað næðu líka til áhafna erlendra skipa sem færu um norska lögsögu. Litið yrði svo á að um leið og erlent skip færi inn fyrir norska lögsögu giltu um það sömu reglur og alla innlenda …

Fjárfestar lögðu Play til 4,6 milljarða króna í hlutafjárútboði félagsins sem lauk þann 11. apríl síðastliðinn. Í kjölfarið urðu töluverðar breytingar á hópi stærstu hluthafa félagsins. Nú er lífeyrissjóðurinn Birta stærsti einstaki hluthafinn en samanlagt fara sjóðir á vegum Íslandssjóða fyrir enn stærri hlut. Meðal nýrra stórra hluthafa er félag í eigu Einars Sveinssonar og …