Samfélagsmiðlar

Gasið á útleið

Bandarísk stjórnvöld hugleiða að banna gaseldavélar en þær má finna á um þriðjungi heimila í landinu. Ástæðan er sú að að sýnt hefur verið fram á tengsl aukinnar tíðni asma og annarra öndunarfærasjúkdóma við loftmengun frá gaseldavélum innanhúss.

Gaseldun

Neytendaöryggisstofnun Bandaríkjanna (The U.S. Consumer Product Safety Commission – CPSC), sem ákveður öryggisstaðla og getur bannað vörur sem uppfylla ekki kröfur um öryggi neytenda, er að skoða hvernig bregðast eigi við áhrifum gaseldavéla á loftgæði heimila, samkvæmt því sem segir í nýjasta hefti tímaritsins Time. Vísað er þar til Twitter-færslu yfirmanns CPSC frá í janúar þar sem fullyrt er að frá gaseldavélum geti stafað hætta vegna eitraðra loftteguna – jafnvel þegar þær eru ekki í notkun – og að stofnunin skoði möguleg viðbrögð með breytingum á reglum.

MYND: Unsplash / Jason Briscoe

Þessar fréttir vöktu töluverða athygli og var ítrekað af hálfu CPSC að ekki væri verið að boða skyndilega stefnubreytingu, málið þyrfti nákvæma skoðun sem tæki tíma. Ekki stæði til að fara inn á heimili fólks og sækja þangað gaseldavélar heldur yrði nýjum reglum frekar beint að framleiðendum. Í framtíðinni væru þá hugsanlega gerðar kröfur um að ný híbýli væru búin rafmagnseldavélum eða mjög afskastamikilli loftræstingu. 

Umræður um áhrif gaseldunar á heilsufar eru ekki nýjar af nálinni. Fyrir nærri hálfri öld gerðu vísindamenn í Bretlandi könnun sem náði til um 5.000 barna og leiddi hún í ljós að tengsl voru á milli asma og gaseldunar. Niðurstöður nýrrar könnunar voru síðan birtar í desember síðastliðinn í International Journal of Environmental Research and Public Health þar sem ljós kemur að 12% tilvika um asma í bandarískum börnum má rekja til notkunar gaseldavéla á heimilum þeirra. Þau sem eru fyrir með sjúkdóminn eru að sjálfsögðu næmust fyrir áhrifum frá gasbrunanum. 

MYND: Unsplash / Janko Ferlic

Þessar upplýsingar um áhrif gaseldavéla snerta líka kröfuna um jafna stöðu fólks óháð húðlit og uppruna því vitað er að börn af afrískum uppruna eru þrefalt líklegri en hvítir jafnaldrar til að þjást af asma. Veigamikill þáttur í því að minnka neikvæð áhrif gaseldunar er auðvitað að bæta hreinsibúnað og loftræstingu í eldhúsum. En þannig aðgerðir eru ekki á færi þeirra efnaminnstu. 

Meðal þess sem fylgir efnahagsáætlun Bandaríkjaforseta í baráttunni gegn verðbólgu er að allir eiga nú kost á að skipta út gaseldavél fyrir rafmagnseldavél og fá kostnað metinn til skattafrádráttar. Það eru nefnilega ekki aðeins heilsufarsleg rök sem mæla gegn gaseldun heldur er þar um að ræða mikilvægt skref í umhverfismálum – að minnka losun frá brennslu á gasi. Það er einmitt meðal helstu stefnumiða stjórnar Biden, forseta: Að knýja fram breytingar og tækniþróun sem gagnist bæði atvinnulífinu og minnki kolefnisspor. 

Þetta er hinsvegar viðkvæmt mál í veitingageiranum – sérstaklega fyrir ímynd listakokksins. Agjört bann við notkun á gaseldavélum myndi nánast gera út af við eldamennsku sem byggist á snöggum, mjög heitum bruna. Aðrir benda á að gaseldun eigi sér í raun ekki mjög langa sögu í eldhúsum veitingahúsa, eða annars staðar. Sagan nái aðeins um eina öld aftur í tímann. Áður var eldað á vélum sem brenndu kolum, viði – eða mó. En gasið er enn stöðutákn, hluti ímyndar snjalla kokksins. Nú er hugsanlega komið að því að breyta þurfi þeirri ímynd – í þágu umhverfisins og heilsu fólks.  

Nýtt efni

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …

Á fimmta hundrað flugvallarstarfsmenn í Ósló og Bergen munu leggja niður störf á miðnætti ef ekki nást samningar um nýjan kjarasamning. Viðræðurnar stranda aðallega á kröfum um bætt lífeyrisréttindi og aukin veikindarétt að því segir í frétt Norska ríkisútvarpsins. Ef til verkfalls kemur er viðbúið að það hafi mikil áhrif á umferðina um flugvellina í …