Samfélagsmiðlar

„Við getum ekki stýrt því sem við getum ekki mælt“

Samtök ferðaþjónustunnar kynntu í dag vefinn Ferðagögn, þar sem er að finna mælaborð sem sýnir áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélög um allt land.

Jóhannes Þór Skúlason

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, kynnir nýja mælaborðið

Það er oft talað um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar en stundum hefur skort gögnin til að styðja þá fullyrðingu, t.d. fyrir áhugasaman fulltrúa í sveitarstjórn sem vill geta séð á einum stað hverju þjónustan við ferðafólk skilar fyrir samfélagið sem hann er fulltrúi fyrir. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, nefndi þetta sem dæmi þegar hann kynnt nýtt mælaborð sem sýnir áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélög um allt land á ráðstefnunni Þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar í Hörpu í dag.

Mælaborðið er að finna á vefnum Ferðagögn. Þar eru birt margvísleg gögn um áhrif ferðaþjónustu á samfélög: atvinnutekjur, skatttekjur sveitarfélaga, um framboð og nýtingu gistirýmis og afkomu ferðaþjónustufyrirtækja eftir landshlutum og sveitarfélögum. Þetta ætti ekki aðeins að nýtast áðurnefndum sveitarstjórnarfulltrúa heldur líka kjörnum fulltrúum á Alþingi, stjórnsýslunni, greininni sjálfri – og öllum sem um hana fjalla. Gögn er meginforsenda upplýstrar umræðu og ákvarðanatöku, eins og Jóhannes Þór lagði áherslu á í kynningu sinni.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF – MYND: Sigurjón Ragnar

Síðasta eitt og hálfa árið hefur verið unnið að því að safna gögnum og vinna þau til birtingar á einum stað. En Jóhannes Þór tók skýrt fram að enn vantaði töluvert upp á að þessi gagnagrunnur væri fullnægjandi. Að stærstum hluta eru tölurnar frá árinu 2019 – áður en heimsfaraldurinn setti allt á hvolf. Vonast er til að hægt verði að uppfæra mælaborðið á grundvelli talna frá 2022 nú í vor og að framvegis verði byggt á gögnum frá árinu á undan. Jóhannes Þór sagði að ferðaþjónustuna vantaði miklu meira af rauntölum til að vinna með – ekki aðeins söguleg gögn.

„Gögn í ferðaþjónustu eru meginforsenda upplýstrar umræðu og faglegrar ákvarðanatöku. Við þurfum að vita eitthvað til að geta ákveðið eitthvað. Tölfræði um íslenska ferðaþjónustu hefur verið sárlega ábótavant“ sagði Jóhannes Þór á fundinum í Hörpu og bað ferðaþjónustufólk endilega að hnippa í sig ef það teldi eitthvað vanta á mælaborðið eða gera mætti betur. Forsenda þess að móta stefnu til framtíðar væri að hafa gögn. „Við getum ekki stýrt því sem við getum ekki mælt,“ sagði Jóhannes Þór.

Reynisfjara
Einn vinsælasti ferðamannastaður landsins, Reynisfjara í Mýrdalshreppi – MYND: ÓJ

Mörgum mun vafalítið þykja áhugavert að sjá hvað upplýsingarnar á Ferðagögnum segja um einstaka landshluta og sveitarfélög. Það kemur kannski einhverjum á óvart að þó að langflestir ferðamenn séu á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi þá er ferðaþjónustan orðin stoð í atvinnulífi um allt land. Vægi greinarinnar í tekjum sveitarfélaganna er þó mjög ólíkt eftir því um hvert þeirra er að ræða og ástæðurnar eru auðvitað mjög mismunandi. Það fer ekki síst eftir stöðu annarra atvinnugreina í viðkomandi sveitarfélagi – hvort þar snúist allt um sjávarútveg, stóriðju eða hefðbundinn landbúnað. Á Akranesi og í Fjarðabyggð vinna hlutfallslega fáir við ferðaþjónustu en þar er næga aðra atvinnu að fá. Hlutur ferðaþjónustu af skatttekjum sveitarfélaga, ef ekki eru talin með framlög úr Jöfnunarsjóði, er hæstur í Mýrdalshrepp. Þar mátti rekja 44,6% skatttekna af útsvari 2019 til ferðaþjónustu, Grindavík kom næst með 15,0% og í þriðja sæti var Garðabær með 10,9% en síðasttalda sveitarfélaga er nú ekki meðal þekktustu áfangastaða ferðamanna. Augljóslega búa þar hinsvegar margir sem starfa í greininni.

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …