Samfélagsmiðlar

„Slípum demantinn“

„Við verðum að taka umræðuna um aðgangsstýringu að vinsælustu ferðamannastöðum okkar - og ganga svo til verka," sagði Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, á ráðstefnu í Hörpu um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar. Áhrifafólk í ferðaþjónustunni virðist almennt vilja forðast ástandið sem skapaðist fyrir heimsfaraldur.

Grímur Sæmundsen

Grímur Sæmundsen, stofnandi og forstjóri Bláa lónsins, í ræðustól í Hörpu

„Ég er ekki í nokkrum vafa um það að búsetuskilyrði á Íslandi eru skemmtilegri. Það er miklu meiri þjónusta á Íslandi eftir að ferðaþjónusta fór að vaxa. Aðgengi að náttúrunni hefur batnað. Verið er að þróa ferðamannastaði. Við þurfum að tryggja að aðgengi sé gott en að það sé ákveðin temprun. Við viljum ekki of mikinn ferðamannafjölda – dreifa álaginu um allt land. Við erum með fjölbreyttara og alþjóðlegra samfélag vegna ferðaþjónustunnar,” sagði Lilja D. Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra í ávarpi sínu við upphaf ráðstefnunnar Þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar sem haldin var í Hörpu í gær, 22. mars. Að ráðstefnunni stóðu menningar- og viðskiptaráðuneytið, Ferðamálastofa og Samtök ferðaþjónustunnar.

Lilja D. Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra – MYND: Sigurjón Ragnar

Ferðamálaráðherra sagði mikilvægt að halda slíka ráðstefnu áður en vinnuhópar tækju til við að móta ferðamálastefnu til ársins 2030. Hún rakti efnahagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar – ekki síst hlut hennar í því að rétta við þjóðarhaginn eftir bankahrunið. 

Lilja D. Alfreðsdóttir setur ráðstefnuna í Kaldalóni í Hörpu – MYND: Sigurjón Ragnar

Óhætt er að segja að Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, hafi verið maður dagsins. Hann kom til ráðstefnunnar eftir að hafa tilkynnt um enn eina hækkun stýrivaxta og spaugaði um það á saklausum nótum að kannski hefði hann átt að sleppa því að mæta. Jafnframt sagðist hann vera orðinn mjög leiður á brandaranum um „tærnar á Tene.“ Brandarinn væri mjög þreyttur.

Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri – MYND: Sigurjón Ragnar

Seðlabankastjóri sagði það eitt best varðveitta leyndarmál Íslands hversu vel okkur hafi gengið á síðustu 10-15 árum, kaupmáttur hefði vaxið mjög mikið: „Það er mjög mikilvægt að hafa þetta í huga þegar við hlustum á umræður í fjölmiðlum um að allir séu á leið í þrot hér eða svelta á götunum – eða eitthvað álíka. Það hefur náðst gríðarlegur árangur í uppbyggingu lífskjara á Íslandi.” Nokkurra mánaða bakslag í efnahagsmálum breytti ekki heildarmyndinni. „Núna snýst málið um það að við kunnum okkur hóf,” sagði Seðlabankastjóri – en hann vonast samt til að útlendu túristarnir skili sínu og hjálpi Íslendingum við að brúa viðskiptahallann.

Túristar í Reykjavík
Túristar í Reykjavík – MYND: ÓJ

„Það er mikilvægt að hafa það í huga hvernig Ísland var áður en ferðaþjónustan kom,” sagði Seðlabankastjóri og lýsti því hvernig miðborg Reykjavíkur hefði lifnað við. „Það er stundum litið framhjá því að ferðaþjónustan virkar dálítið eins og fólksfjölgun,” sagði hann og benti á að mannfæðin á Íslandi hefði þau áhrif að það ekki næðist fram stærðarhagkvæmni. Með ferðaþjónustunni hefði fjölgað fólkinu sem þarf að þjóna.

Hallgrímskirkja
Túristar í skafrenningi á Skólavörðuholti – MYND: ÓJ

„Stærri markaður hefur skapað meira hagræði. Það er engin tilviljun hversu mörg sterk framleiðslufyrirtæki hafa vaxið upp samhliða vexti ferðaþjónustunnar.” Sama væri að segja um uppbyggingu innviða úti á landsbyggðinni. Ferðaþjónustan fæli í sér góða byggðastefnu. Þjónustugeirinn úti á landi hefði verið endurreistur eftir að hafa hrunið upp úr 1980 vegna hagræðingar í sjávarútvegi og landbúnaði. 

Bjórböðin
Handverksbjór og bjórböð lokka túrista til Kalda á Árskógsströnd – MYND: ÓJ

Seðlabankastjóri ræddi líka neikvæð áhrif ferðaþjónustunnar, ekki síst ruðningsáhrif á aðrar atvinnugreinar, sem hafa verið töluvert til umræðu. Ferðaþjónustan stuðlaði að hækkun á gengi krónunnar vegna innstreymis gjaldeyris með ferðamönnum. Vöxturinn í ferðaþjónustunni geti valdið spennu á vinnumarkaði, leitt að einhverju leyti til skorts á húsnæði, aukið álag á veika innviði – og líka á náttúruna. Ásgeir telur það slæma hugmynd að gera hálendisvegi færa smábílum. Þeim myndi fylgja of mikið álag. Betra sé að hafa þetta eins og núna, því þá fari þeir einir upp á hálendið sem hafi á því raunverulegan áhuga.

Fjallabíll Midgard Adventure á Hvolsvelli – MYND: Midgard Adventure

Ásgeir sagði mikilvægt að við værum ekki um of háð ferðaþjónustunni, eins og ljós kom á Covid-tímanum. „Við verðum að fá fleiri stoðir. Þetta segi ég ekki af því að ég sé á móti ferðaþjónustu – heldur þvert á móti: Við getum ekki látið lífskjörin koma til okkar sjálfkrafa með gestum.” Mikilvægt væri að ferðaþjónustan dafnaði aftur – en að hún gerði sér grein fyrir að það væru takmörk fyrir vextinum og að fá ekki þjóðin upp á móti greininni.

Ásgeir Jónsson á ráðstefnunni í Hörpu – MYND: ÓJ

Óttinn við ofvöxt í ferðaþjónustunni er mörgum ofarlega í huga og það kom vel fram á ráðstefnunni í Hörpu. Meðal þeirra sem hafa mesta reynslu við uppbyggingu og rekstur ferðaþjónustu er Grímur Sæmundsen, stofnandi og forstjóri Bláa lónsins. Hann segir að helsta áskorunin sem ferðaþjónustan standi frammi fyrir sé hættan á hömlulausum vexti, eins og við höfum að hluta upplifað fyrir Covid-19, og segist skilja áhyggjur forystumanna stjórnvalda og sveitarfélaga um að við værum að fara í sama farið. En Grímur fullyrti að þeir sem störfuðu í greininni vildu ekki sjá þá þróun að nýju:

„Við viljum geta vaxið en gera það með skipulegum hætti. Við erum búin að læra á eigin skinni hvað hömlulaus vöxtur þýðir – þau vandræðum sem skapast gagnvart samfélagi og efnahag landsins. En við skulum líka muna að íslensk ferðaþjónusta er á allt öðrum stað en fyrir 10 árum þegar fyrri vaxtarbylgja hófst. Við erum miklu betur í stakk búin, höfum lært mikið, erum á allt öðrum stað til að takast á við þau tækifæri og áskoranir sem eru framundan í greininni.”

Grímur Sæmundsen
Grímur Sæmundsen – MYND: Sigurjón Ragnar

Slípum demantinn og hönnum okkar framtíð nefndi Grímur erindi sitt. Hann lýsti því hvernig tækifærið var gripið með stofnun Bláa lónsins, hvernig affallsvatni frá orkuveri var breytt í „slípaðan demant.” Skapað var eitt verðmætasta og þekktasta vörumerki Íslands.

„Við hugsuðum stórt – til langs tíma, höfðum hugrekki til að fjárfesta og hönnuðum þannig okkar framtíð.”

Demantur Gríms – MYND: Bláa lónið

Grímur telur að saga Bláa lónsins geti orðið fyrirmynd í ferðaþjónustunni – um það hvernig hægt sé að skapa mikil verðmæti án þess að ganga á náttúruna. Markmiðið sé að skapa sem mest verðmæti úr komu hvers einasta gests með því að bjóða hágæða þjónustu sem borgað er vel fyrir. Hann nefndi sem dæmi að á þessu ári væri búist við 20-30 prósent færri gestum í Bláa lónið en 2018 en vonir stæðu til að framlegðin af starfseminni yrði 20-30 prósentum meiri en þá.

Þetta væri það sem ætti að gera. 

Skógarböðin
Skógarböðin eru meðal nýjustu baðstaða Íslands þar sem byggt er á reynslu Bláa lónsins – MYND: ÓJ

„Við verðum að taka umræðuna um aðgangsstýringu að vinsælustu ferðamannastöðum okkar – og ganga svo til verka. Tryggja um leið sjálfbæra uppbyggingu staðanna með hönnun í fyrirrúmi. – Við höfum séð fréttir frá Feneyjum. Við höfum séð fréttir frá Róm. Við höfum séð fréttir frá vinsælum ferðamannastöðum um allan heim þar sem troðningstúrismi og hömlulaus vöxtur er raunverulega að skemma fyrir upplifun gesta. Það er gengið á samfélagið – og þegar til kastanna kemur er verið að gera framlegð og ábata af greininni sem slíkri minni en ella væri. Við eigum að vera með opin augu gagnvart þessu og ég tel okkur í ferðaþjónustunni á Íslandi geta tekist á við þessi áhugaverðu verkefni.” 

Nýtt efni

Vaxandi óánægju gætir meðal leigusala og húsnæðismiðlara í Bandaríkjunum með það ægivald sem Airbnb hefur á skammtímaleigumarkaðnum. Margir eru sagðir leita leiða til að afla leigutekna utan eða meðfram kerfi bandaríska risans, sem gerir stöðugt meiri kröfur til þeirra sem leigja út vegna þrýstings frá samfélögum sem stynja undan umfangi og markaðsáhrifum skammtímaleigu til ferðafólks.  …

Flugsamstæðan Air France KLM hefur greint frá því að rekstrarhagnaður á síðasta ársfjórðungi hafi minnkað um 30% og er það verri afkoma en flugmálasérfræðingar bjuggust við. Helstu skýringar eru sagðar aukinn starfskostnaður og hærra olíuverð en búist var við. Þetta er veruleiki sem önnur flugfélög hafa almennt verið að kljást við. Á öðrum ársfjórðungi nam …

Þegar stjórnendur Play kynntu í apríl sl. uppgjör fyrirtækisins fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins þá brugðu þeir út af vananum og birtu engan árshlutareikning. Þar með fengu fjárfestar og greinendur ekki aðgang að uppfærðum efnahagsreikningi fyrir flugfélagið þar sem meðal annars eigna- og skuldastaða kemur fram. Um leið fengust ekki upplýsingar um hvert eiginfjárhlutfall félagsins …

Suður-kóreski rafhlöðuframleiðandinn LG Energy Solution (LGES) á í viðræðum við þrjá ónefnda kínverska birgja um að framleiða ódýrar bílarafhlöður fyrir Evrópumarkað og bregðast þannig við hærri verndartollum Evrópusambandsins á rafbíla frá Kína.  Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir háttsettum heimildarmanni innan LGES, sem er í hópi stærstu rafhlöðuframleiðenda heims ásamt CATL í Kína, Panasonic í Japan og …

Þó margir njóti guðaveiga í sumarfríinu þá er hásumarið rólegur tími í heimi vínviðskipta. Það er löngu búið að ganga frá sölu á framleiðslu liðins árs en beðið tíðinda af næstu vínuppskeru. Þegar horft er á heildina þá hefur dregið úr vínsölu vegna efnahagsþrenginga og breyttra neysluhátta. En loftslagsbreytingar valda vínbændum víða erfiðleikum og hafa …

Það kemur skýrt fram í afkomutölum rafbílaframleiðandans Tesla að hægt hefur á orkuskiptum í bílasamgöngum. Á fyrri helmingi ársins hefur Tesla selt um 831 þúsund rafbíla en Elon Musk hafði spáð því að á árinu öllu myndu seljast um 1,8 milljónir bíla. Það vantar því enn mikið upp á að sú spá rætist. Sala Tesla …

Áður en Play fór í loftið sumarið 2021 var efnt til hlutafjárútboðs þar sem söfnuðust 10 milljarðar króna. Umsjón með útboðinu höfðu Arctica Finance og Arion banki en þessi tvö fjármálafyrirtæki komu einnig að fjármögnun Wow Air á sínum tíma. Í útboði meðal almennings reyndist umframeftirspurnin áttföld. Í kynningarefni sem fylgdi hlutafjárútboðinu var aðeins ein …

„Okkur er ánægja að tilkynna um fjölgun A350-900-véla í utanlandsflugi og A321neo í innanlandsflugi,“ segir Yukio Nakagawa, innkaupastjóri Japan Airlines, í tilkynningu félagsins um samninga við Airbus um kaup á nýjum þotum. „Með því að flýta því að taka í notkun nýjustu og sparneytnustu flugvélarnar viljum við veita viðskiptavinum okkar besta hugsanlegu þjónustu um leið …