Samfélagsmiðlar

Hvar er Graham Potter? Hvað varð um Graham Potter?

Graham Potter að störfum fyrir Chelsea á sínum tíma. MYND: Nicolo Campo/Alamy Live News

Hvað varð um Graham Potter? spyrja margir fótboltaunnendur nú þegar liðið er næstum eitt ár síðan þessi listhneigði fótboltaþjálfari stjórnaði fótboltaliði frá hliðarlínunni. Chelsea var síðasti áfangastaður Potters en þaðan var hann rekinn þann 2. apríl árið 2023 eftir aðeins sjö mánuði í starfi.

Potter mætti til Chelsea fullur af bjartsýni eftir glæsislegan þjálfaraferil í Svíþjóð, Wales og Englandi. Potter kom til Chelsea frá sólarstrandarliðinu Brighton frá samnefndum suðurstrandarbæ í Englandi og hafði unnið þar frábært starf. 

Á sínum fyrstu Chelsea-dögum, en til Lundúnaliðsins var hann ráðinn 8. september árið 2022, sagði Potter við fjölmiðla að hann ætlaði að skapa lið sem væri ekki rígbundið við eina taktík, hann vildi að liðið væri sókndjarft og héldi boltanum vel innan sinna raða. 

„Ég legg áherslu á að leikmennirnir séu óhræddir að gera mistök. Þeir eiga að kalla á boltann, sýna hugrekki og dirfsku en fyrst og fremst njóta þess að spila fótbolta. Ef leikmennirnir eru glaðir verða fylgismenn þeirra líka glaðir. Á þennan hátt trúi ég að við vöxum, döfnum og þroskumst og verðum betra fótboltafélag. Leikstíll liðs hefur aldrei leitt til endalausra sigra. Mitt verkefni er að skapa lið þar sem leikmennirnir trúa á gleðina við að spila fótbolta.“ 

En þrátt fyrir fögur fyrirheit virtist ekkert ganga hjá Graham Potter. Ekkert gekk honum í haginn á meðan hann stýrði Chelsea liðinu. Enginn Chelsea þjálfari hefur unnið jafn fá stig að meðaltali og Graham Potter. En þrátt fyrir þessa slælegu frammistöðu Chelsea liðsins undir stjórn hins geðfellda og listhneigða þjálfara er hann enn dáður og eftirsóttur um allan heim. Hann hefur bara enn ekki haft áhuga á að koma aftur til starfa og hefur hann hafnað ótal atvinnutilboðum án þess að gefa í skyn hvað hann vilji.

Menn spyrja því: Hvar er Graham Potter? Hvað ætlar Graham Potter að fara að gera?

Ferill Potters (hann er ekki hluti af Harry Potter fjölskyldunni) er harla óvenjulegur. Á sínum yngri árum spilaði Graham Potter (sem er fæddur árið 1975) stöðu vinstri bakvarðar. Fyrst fyrir fótboltalið Birmingham en lengst af með liði York City í einni af neðri deildum enska fótboltans. Hann þótti ekki sérlega góður leikmaður.

Þegar Graham Potter hafði lagt knattspyrnuskóna á hilluna ákvað hann að gerast þjálfari og tók að sér þjálfun á utandeildarliði Leeds Carnegie en stundaði jafnframt háskólanám í Leeds University. Potter hafði mótað með sér ákveðnar hugmyndir um hvaða leiðir hann vildi fara til að ná sem bestum árangri og sem mestu út úr hópi misgóðra knattspyrnumanna.

Miðaði hann námið við að þróa þessa hugmyndafræði sína. Hann lauk bæði æðstu þjálfaragráðu og háskólaprófi í viðskiptum með áherslu á stjórnun. Meðfram náminu þjálfaði hann utandeildarliðið Leeds Carnegie í þrjú ár þar sem hann prófaði allskonar nýjar þjálfunaraðferðir án þess þó að lið Leeds Carnegie klifraði upp deildartöflurnar. 

Jämtkraft Arena, heimavöllur Östersunds FK. MYND: ARONMAN/WIKICOMMONS

En árið 2011 fékk Graham Potter símhringingu.

Það var áliðið kvölds. Potter var þegar háttaður og ætlaði að leggja sig til svefns. Á hinum enda línunnar var sænskur maður, Daniel Kindberg, gífurlega ákafur  – enda mikill eldhugi og baráttumaður fyrir eflingu lífs í Östersund sem er 50.000 manna bær.

Erindið var skýrt. Daniel vildi fá Potter til að koma og þjálfa knattspyrnulið Östersunds FK, nefnt eftir samnefndum bæ, í Jämtland héraði, hátt í 600 km norður af Stokkhólmi. Östersunds FK lék þá í fjórðu deild sænsku knattspyrnunnar. 

Potter tók boði Daniels en setti þau skilyrði að hann fengi algerlega frjálsar hendur og enginn hindraði hann í að nota sínar tilraunakenndu þjálfunaraðferðir til að stýra liðinu. En hann lofaði líka að liðið skyldi spila í annarri af stóru evrópsku keppnunum árið 2017. Þetta voru stór orð. Potter flaug til Svíþjóðar og þeir Daniel tókust í hendur. 

Hófst svo hið metnaðarfulla verkefni að koma Östersund í fremstu röð í Evrópu. Nýir leikmenn voru fengnir til Norður-Svíþjóðar, allt leikmenn sem voru komnir út á hliðarspor í knattspyrnuferli sínum og var þeim lofað að Östersunds væri staðurinn þar sem fótboltaferillinn kæmist aftur á beinu brautina. Það var auðvitað ekki auðvelt að lokka atvinnuknattspyrnumenn upp í hið freðna landslag í Jämtland.

En Potter og Daniel tókst að skrúfa saman hóp í lok sumars 2011 og var þjáfunarprógrammið sett í gang. Markmið var að efla samkennd leikmannanna og skapa hóp sem væri fær um að koma Östersund á landakort knattspyrnunnar. Það fyrsta sem Potter gerði var að ráða söngstjóra til að stýra kór knattspyrnumannanna.

Söngur var æfður tvisvar í viku og á hverju vori á meðan Potter var þjálfari voru haldnir söngtónleikar. Potter lét líka útbúa bókalista yfir þær bókmenntir sem leikmennirnir áttu að lesa (fyrsta bókin á leslistanum var Ég er Zlatan, eftir David Lagercrantz sem kom út árið 2011) og einu sinni í mánuði settist lesklúbbur leikmannanna saman og ræddi þá bók sem í það sinnið var á leslistanum.

Eins var ráðinn ballettkennari og settu fótboltamennirnir m.a. á svið stytta útgáfu á Svanavatninu auk fleiri klassískra ballettverka. Bæði tónleikar og balletsýningar íþróttamannanna voru stórviðburðir í menningarlífi Östersunds. Uppselt var á hverja sýningu. Síðast þegar Svanavatnið var sýnt hefði verið hægt að selja að minnsta kosti 5000 aukamiða. Þannig tókst Daniel Kindberg að efla menningarlíf í Östersund og sameina íbúana um fótboltalið bæjarins.

Graham Potter og Dennis Widgren fagna sigri Östersunds FK haustið 2017. MYND: Soeren Stache/dpa/Alamy Live News

Árangurinn í knattspyrnuvellinum lét heldur ekki á sér standa. Fimm árum eftir komu Potters, árið 2016, spilaði liðið í fyrsta sinn í efstu deild sænsku knattspyrnunnar, Allsvenskan, og vorið 2017 vann Öresund sænsku bikarkeppnina sem gaf aðgang að evrópsku UEFA deildinni alveg eins og Potter hafði lofað

Haustið 2017 hófst svo riðlakeppnin í UEFA keppninni. Lið Östersunds FK endaði efst í sínum riðli þar sem stórliðin Hertha Berlin og Athletico Bilbao voru meðal mótherja. En sigurgöngu liðsins í Evrópu lauk þegar það tapaði samanlagt fyrir  Arsenal í sextán liða úrslitum. Liðið vann þó það afrek að sigra Arsenal á Emirates leikvanginum í London 2-1 en tapaði á heimavelli í Östersund 3-0.

„Ég er ekki viss um að áhersla okkar á menningu geri það að verkum að við spörkum fastar eða gefum betri sendingar. En ég er sannfærður um að við fáum betri manneskjur út á fótboltavöllinn. Við leitum ekki að göllum hvers annars. Við byggjum upp. Við þróum samúð okkar með öðrum, við getum sett okkur í spor annarra, við tökum ábyrgð, við stöndum saman og við þorum að horfast í augu við sjálfa okkur í speglinum. Allt þetta gerir liðið betra í að spila fótbolta,“ sagði Graham Potter í viðtali við sænsku pressuna eftir sigur liðsins á þýska liðinu Herthu Berlin árið 2017 þegar liðið lék í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Árangur Graham Potters vakti heimsathygli og gylliboðin streymdu til hans. Hann ákvað eftir nokkra umhugsun að  flytja aftur til Bretlands og taka við liði Swansea. Hann stýrði liðinu með svo góðum árangri að Brighton bauð honum, ári síðar, gull og græna skóga og keypti hann lausan undan samningi sínum við Swansea.

Allt gekk Potter í haginn á knattspyrnuvellinum og veran hjá Brighton var eins og ljúfur draumur. Það var þó ekki fyrr en keppnistímabilið 2022/2023 þegar Potter gekk til liðs við Chelsea að þjálfarinn mátti í fyrsta sinn þola mikinn mótvind.

Og hvað fór úrskeiðis í Chelsea?

Íþróttablaðið Atlantic tók viðtöl við leikmenn Chelsea eftir að Potter var rekinn til að heyra álit þeirra á hvað gerði útslagið. Hér er niðurstaða samtalanna. 

1. Samband leikmanna og Graham Potter var alltaf vinsamlegt. Engar deilur skyggðu á samskipti þeirra en smám saman fór að bera á efa hjá mörgum af lykilleikmönnunum um að Graham Potter réði við að þjálfa jafn stórt lið og Chelsea. 

2. Sumir leikmenn fóru að kalla Potter „Harry“ eða „Hogwarts“ (tilvísun í Harry Potter bækur J.K. Rowling) þegar hann heyrði ekki til.

3. Menn voru oft undrandi á liðsvali Potters og olli óvænt liðsskipan hans oft furðu og ringulreið meðal leikmanna.

4. Nýr eigandi Chelsea, Todd Boehly, sem hafði tekið yfir Chelsea eftir Roman Abramovich í lok maí 2022, var svo ákafur að kaupa nýja leikmenn til að spila fyrir Chelsea að ekki var pláss í búningsklefum og fundarherbergjum fyrir þennan stóra hóp. Leikmennirnir þurftu oft að sitja á gólfinu á liðsfundum og hafa búningaskipti fram á gögnum.

5. Á æfingum voru oft svo margir leikmenn að skipta þurfti hópnum upp í fjögur lið. Á æfingum var keppt 11 á móti 11 og 9 á móti 9 á sama tíma. Svo stór var leikmannahópurinn. 

6. Nýi Chelsea eigandinn, Todd Boehly, var mjög sýnilegur á Stamford Bridge og mætti daglega til að vera viðstaddur æfingar og til að fylgjast með af hliðarlínunni. Sumum fannst þetta mikla eftirlit grafa undan Potter þótt hann sjálfur léti þau orð falla að hann hefði ekkert á móti því að hafa eigandann á hliðarlínunni. 

7. Öll gagnaöflun, tölfræði yfir allar hliðar fótboltans, bæði frammistöðu einstakra leikmanna og liðsins sem heild, sýndi að liðið tók engum framförum þá mánuði sem Potter hélt í stjórnartaumana. Gróf þetta mjög undan þjálfaranum. 

Niðurstaðan var að Graham Potter var rekinn eftir 7 mánaða starf hjá Chelsea. Hann þakkaði fyrir sig og lét sig hverfa af sjónarsviðinu en nú ári eftir brotthvarf Potters eru nýjar sögusagnir farnar að spretta upp og blómstra. Hans er saknað og vilja margir fá þennan geðþekka þjálfara aftur inn á sviðið.

Nýr eigandi  Manchester United, Sir Jim Ratcliff, er sagður mikill aðdáandi Graham Potters. Mun hann hafa boðið honum starf hjá franska fótboltaliðinu Nice fyrir nokkrum mánuðum en Sir Ratcliff er einmitt einnig eigandi þess. Potter mun hafa hafnað því starfi.

Dan Ashworth, sem þykir líklegur til að fara frá Newcastle til Manchester United og taka þar við starfi yfirmanns íþróttamála á næstunni, var áður samstarfsmaður Potter hjá Brighton. Mun samstarf þeirra í Brighton hafa verið mjög farsælt og ánægjulegt. Þetta þarf þó ekki nauðsynlega að þýða að Graham Potter verði næsti þjálfari Manchester United því Erik ten Hag er enn þjálfari Manchester og ekki er víst að hann sé á förum þaðan. 

Aðrar sögur herma að West Ham, þar sem þjálfarinn David Moyes er valtur í sessi, sé líklegri sem næsti áfangastaður fyrir Graham Potter og mun sennilegri en Manchester United. Sagt er að hann hafi nýlega fengið boð um að verða næsti landsliðsþjálfari Svíþjóðar en því starfi mun hann hafa hafnað. 

Graham Potter virðist ætla að gefa sér góðan tíma til að finna næsta vinnuveitenda og velja það lið sem hann tekur til þjálfunar af mikilli gaumgæfni. Enda er hann illa brunninn eftir misheppnaða dvöl  hjá Chelsea.

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …