Samfélagsmiðlar

Töpuðu um sex milljörðum króna á Icelandair

Bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital Management fór illa út úr fjárfestingu sinni í Icelandair Group.

MAX þotur Icelandair voru á jörðu niðri allan þann tíma sem PAR Capital var einn af stærstu hluthöfum flugfélagsins.

Þegar boðað var til hlutahafafundar í Icelandair Group þann 30. nóvember árið 2018 var ætlunin að fá samþykki hluthafa fyrir kaupunum á WOW air. Einnig átti að greiða atkvæði um hlutafjárhækkun en tæpur helmingur hennar var eyrnamerktur Skúla Mogensen sem greiðsla fyrir flugfélagið hans.

Stuttu fyrir hluthafafundinn var fallið frá kaupunum á WOW air en hluthafafundurinn var engu að síður haldinn. Þar voru greidd atkvæði með hlutafjáraukningu upp á 625 milljón hluti.

Kyrrsetning MAX þotanna og gjaldþrot WOW air

Skúli Mogensen snéri sér hins vegar að samningaviðræðum við Indigo Partners. Þær skiluðu engu og féll félagið í lok mars 2019.

Nokkrum dögum síðar var tilkynnt að bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital Management hefði keypt alla hlutafjáraukninguna sem samþykkt var fjórum mánuðum áður. Þar með átti sjóðurinn orðið 11,5 prósent í íslenska félaginu og varð einn af stærstu hluthöfunum. Kaupverðið var 5,6 milljarðar króna.

Tímasetningin á kaupunum í Icelandair lofaði góðu því nú hafði félagið losnað við sinn helsta keppinaut í flugi til og frá Íslandi. Samkeppnin við flugfélag Skúla hafði leikið Icelandair grátt eins og nærri sjö milljarða tap árið 2018 var vísbending um. Þetta sama ár skiluðu aftur á móti flest flugfélög hagnaði og þannig varð metafkoma hjá bæði SAS og Aer Lingus.

Það voru þó hindranir í veginum því tæpum hálfum mánuði fyrir fjárfestingu PAR Capital voru allar Boeing MAX þotur í heimunum kyrrsettar. Þar á meðal þau sex eintök sem Icelandair hafði tekið í notkun.

Nýttu sumarið til að bæta við hlutabréfum

Fáir gátu þó ímyndað sér að nærri nítján mánuðum síðar væru þoturnar ennþá á jörðu niðri. Og gera má ráð fyrir að sérfræðingar PAR Capital Managment, sem sérhæfa sig í fjárfestingum í flugrekstri, hafi verið í þeim hópi.

Sumarið eftir héldu þeir nefnilega áfram að bæta við hlutabréfum í Icelandair og keyptu samtals 115 milljón hluti. Á þeim tíma var gengi hlutabréfanna á milli 9 til 11 krónur á hlut. Þessi viðbótar fjárfesting hefur þá kostað sjóðinn rúmlega einn milljarð króna en þarna var bandaríski sjóðurinn orðinn stærsti hluthafinn í Icelandair samsteypunni.

Undir sumarlok 2019 fór gengi hlutabréfanna að síga enda ljóst að kyrrsetning MAX þotanna hafði gríðarlega neikvæð áhrif á afkomu Icelandair. Tapið árið 2019 var aftur um sjö milljarðar króna.

Seldu bréf í smáskömmtum

Í byrjun mars í ár setur útbreiðsla Covid-19 flugáætlun Icelandair og annarra flugfélaga úr skorðum. Þá fór gengi hlutabréfa Icelandair niður í þrjár krónur á hlut og virði bréfa PAR Capital rétt um þriðjungur af því sem var við kaupin tæpu ári áður.

Bandaríkjamennirnir byrja svo að losa sig við hlutabréf í Icelandair í smáskömmtum enda fáir áhugasamir kaupendur á markaðnum. Gengið hélt svo áfram að síga en áfram seldi PAR Capital bréfin sín í Icelandair í hverri einustu viku með miklu tapi. Samanlagt má reikna með að sjóðurinn hafi tapað á bilinu 2 til 2,3 milljörðum króna á þessum vikulegu viðskiptum.

Eins og við var að búast tók PAR Capital ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair í síðasta mánuði en hélt þess í stað að selja bréfin sín eftir útboðið.

Nú í vikulok losaði sjóðurinn sig svo restina af bréfum sínum í Icelandair á genginu 0,87 krónur á hlut. Gera má ráð fyrir að tapið af þeirri sölu hafi verið tæpir fjórir milljarðar króna.

Svara ekki skilaboðum

Í heildina tapaði PAR Capital því rúmlega sex milljörðum á fjárfestingunni í Icelandair. Það er nokkru hærri upphæð en félagið keypti 11,5 prósent hlut fyrir í apríl í fyrra.

Þetta er þó vissulega ekki eina fjárfestingin sem PAR Capital hefur farið illa út úr að undanförnu. Sjóðurinn sérhæfir sig nefnilega í flugfélögum og tæknifyrirtækjum í ferðaþjónustu. Kórónuveirukreppan hefur komið sérstaklega illa niður á þessum geira.

Þess má geta að Túristi hefur árangurslaust gert fjölda tilrauna til að ná sambandi við stjórnendur PAR Capital.

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …