Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Teits Þorkelssonar

Teitur Þorkelsson, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, kann að meta löng ferðalög og hefur farið í þau nokkur. Hann tekur ávallt köfunarskírteini með sér í fríið.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Fyrsta ferðalag mitt til útlanda var þegar ég var fimm ára og fór með mömmu til að búa með pabba sem var að læra íþróttafræði í Svíþjóð. Fátt man ég frá þeirri ferð annað en að ég fékk grænan plastvagn með gulum dekkjum sem gaman var að draga á eftir sér í sandkassa.

Man líka að konan á efri hæðinni sem við leigðum hjá bannaði að við sturtuðum niður á nóttinni af því að hundurinn hennar gæti vaknað og byrjað að gelta. Loks lenti eldri bróðir minn í lögreglunni eftir að eldri konur héldu fyrir misskilning að hann væri að leita að mat í ruslatunnu og það hlyti að vera af því að íslenska fjölskyldan væri svo blönk og það varð lögreglumál. Þessi lögregluafskipti og reglur um klósettsturt hafa litað upplifun mína af Svíum og landi þeirra æ síðan.

Samkvæmt minni skilgreiningu á ferðalögum var þó fyrsta ferðalagið fjögurra mánaða ferð um Frakkland, Spán og Karíbahafið þegar ég var tvítugur og nýútskrifaður úr Versló. París, Alparnir og Barcelóna, lestarferðalög, kaffihús, hvítlaukspasta, rauðvín og náttúra á sögufrægum slóðum voru ekkert slor.

Það besta tók svo við þegar ég kom yfir í Karíbahafið þar sem ég ferðaðist low budget í fyrsta sinn, húkkaði far á skútum með höfrunga allt í kring og leigði herbergi hjá gömlum kellingum fyrir tvöþúsund kall á mánuði. Margar snilldareyjar frá Guadeloupe suður til St Vincent and the Grenadines og margar bjartar minningar þaðan.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Átta mánaða reisa í kringum hnöttinn 1992-1993. Eftir hálft ár í Asíu, Ástralíu og á Kyrrahafseyjum var maður orðinn svo ægilega afslappaður að ég hef aldrei upplifað annað eins. Einskonar Nirvana ástand náðist með sólbrúnum líkama og sérstaklega góðu fólki á ströndinni á Oahu Hawaii.

Þar á eftir kemur sigling á 43 feta skútu undan Grikklandsströndum þar sem ég og Gummi vinur minn vorum skipstjórar með sjö manns um borð. Vindurinn bar mann áfram á daginn, kúrað var í káetu um nætur og ný höfn á hverju kvöldi. Gott að borða, sjór, sól og og sæla. Öldurnar vagga manni í svefn. Snilldarferðamáti. Vantaði bara harmónikku um borð til að fullkomna augnablikið.

Verst heppnaða utanlandsferðin:

Ég man nú bara ekki eftir henni. Mínar utanlandsferðir hafa bara alltaf verið svo ljómandi vel heppnaðar. Kannski þó nýleg jólaferð til Vínarborgar þar sem konan mín, Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir, svaf yfir sig í flugið og ég þurfti að borga brúsann af því að Icelandair heimtaði fulla greiðslu fyrir ófarna ferð. Í þokkabót voru tengdó of sein á flugvöllinn í Vínarborg og þurftu þau að borga heilt fargjald til viðbótar til að komast heim með Express. Þetta var dýrt jólafrí.

Tek alltaf með í fríið:

Konan, passi, seðlar, kort, sundskýla og köfunarskírteini.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:

Þegar ég var rændur í heimagistingu á glæpaeyjunni miklu St Lucia. 200 USD down the drain, beint úr varasjóðnum í farangrinum. Heimilisfaðirinn og ræninginn hafði þó manndóm í sér til að byrja á nauðsynlegum framkvæmdum við húsið fyrir peninginn svo ég var sáttur.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Besti maturinn er án efa No name á Ko Tao í Thailandi sem samanstóð af afgöngum veitingastaðarins í ómelettu, svo ekki sé talað um Big No name sem var það sama með hressilegu áleggi.

Besti versti var náttúrulega hrár kjúklingaborgari á Katmandu Guesthouse í Nepal. Át bleikt og óeldað kjúklingakjöt í brauði í þróunarlandi og hugsaði um allar pestir sem gætu komið úr því. Fékk sem betur fer 50% afslátt af því að ég borðaði bara hálfan borgarann. Svo eru djúpsteiktar kjúklingalappir í Kuala Lumpur í Malasíu klukkan 05:00 að morgni líka í flokknum Bestu verstu.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Indónesía eins og hún leggur sig með öllum sínum 400.000 eyjum. Nánar tiltekið eyjan Kadidiri í Togean eyjaklasanum á Sulawesi í Indónesíu. Ódýrir pálmakofar á ströndinni, fuglasöngur, frábært sjávarlíf og frumskógur fyrir aftan. + Bjór á 200 kall og súkkulaði á 100 kr.

Draumafríið:

Sigla í kringum hnöttinn á minni eigin skútu, gæti tekið 1-3 ár eða svo. Kann að meta löng ferðalög. Hlakka til.

TENGDAR GREINAR: Ferðaminningar Einars SchevingFerðaminningar Steinars BragaFerðaminningar Arnar Úlfars Sævarssonar

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …