Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Arnars Eggerts Thoroddsen

M&M kúlur, Mallorca og pínulítill bíll er á meðal þess sem kemur fram í ferðaminningum Arnars Eggerts Thoroddsen, tónlistarspekúlants. Hann opnaði nýverið sína eigin heimasíðu, arnareggert.is, þar sem hann veltir fyrir sér eðli og eigindum dægurtónlistarinnar frá hinum ýmsu hliðum.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Mér skilst að ég hafi farið kornungur til Svíþjóðar. Það ungur að ég á ekki möguleika á því að muna eftir því. Og enn á ég eftir að fara þangað, kominn til sæmilegs vits og ára! En ef við höldum okkur við eitthvað sem ég man þá mun það hafa verið ein af fjölmörgum ferðum fjölskyldunnar til Mallorca.  Mamma vann á ferðaskrifstofunni Úrval og fékk góð tilboð þangað. Við fórum á hverju einasta sumri fram að því að ég varð tólf ára, það minnir mig a.m.k. Þarf eiginlega að fara að bregða mér þangað á nýjan leik og athuga hvort ég man ekki eftir lykt, stemningu og öðru slíku.

Best heppnaða utanlandsferðin:
Ég og konan mín fórum í marsmánuði 2006 í tveggja vikna ferðalag um Írland ásamt ungri dóttur okkur, sem var þá rétt rúmlega eins árs. Leigðum eins lítinn bíl og hægt var að komast upp með og keyrðum hringinn í kringum eyjuna fögru. Þetta ferðalag er fullkomið í minningunni og það er gjarnan rifjað upp. Það er beinlínis hægt að orna sér við það.

Verst heppnaða utanlandsferðin:
Vitiði, án þess að ætla að hljóma eins og einhver skælbrosandi, næfur hippi, þá get ég ekki kallað fram svona minningar. Og ekki að ég sé í
einhverri afneitun. Þetta er líkt og Paul McCartney sagði einhverju sinni, þegar maður rifjar upp ferðalag frá gömlum tíma á maður það til að muna bara eftir því jákvæða. Og svo ég reyni nú á mig, þá hef ég ekki átt neitt ferðalag sem var eitthvað stórslys. En það hjálpar líka að ég elska að fara til annarra landa og að ferðast með flugvél er það skemmtilegasta sem ég veit. Ég er ALLTAF jafn spenntur þegar flugvélin tekur á loft, verð eins og fimm ára gamall krakki.

Vandræðalegasta uppákoman:
Hmmm….ég hef tvisvar sinnum lent í því að missa næstum því af flugi og það er vel vandræðalegt. Í eitt skipti kom maður löðursveittur inni í vél, alveg eins og jólasveinn. Og enginn klappaði…

Tek alltaf með í fríið:
Uncut og Mojoblöð sem ég kaupi í Fríhöfninni. Og M&M kúlur sem ég ætla að „geyma“. Þær klárast hins vegar alltaf í flugvélinni yfir lestri á nýjustu greininni um snilligáfu Bob Dylan.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:
Ég dvaldi einu sinni í suður Frakklandi ásamt eiginkonu minni og innblæstri, tengdamóður og tveimur börnum. Mágur minn kær var þarna einnig. Það var dásamlegt. Við vorum rétt hjá Aix-en-Provence, háskólabæ og gistum í húsi sem Íslendingar hafa mikið gist í. Þar rétt hjá var lítill sveitaveitingastaður sem var prýddur nokkrum Michelin-stjörnum. Ferðin á hann var ekkert minna en ótrúleg, maður skilur vart að hægt sé að framreiða jafn góðan mat og við smökkuðum þar. Maginn þakkaði fyrir sig með sællegri vítamínsprautu í hausinn, dópamínið losnaði úr læðingi sem aldrei fyrr í kjölfarið. Þess fyrir
utan var maturinn almennt mjög góður á þessu svæði; ferskur, nærandi og bragðmikill. Að koma aftur til Íslands var eins og að koma til Svalbarða í samanburðinum (sem er samt enginn samanburður þar sem að ég hef aldrei komið til Svalbarða!).

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:
Fáránlegt að segja þetta, þar sem ég er hættur að drekka, en Hviids Vinstue í Kaupmannahöfn er það fyrsta sem kemur upp í hugann. Það er ákveðin helgiathöfn sem ég framkvæmi þegar ég kem til þeirrar borgar, að fara á þá vínstofu og setjast á borð þar sem mynd af Jónasi Hallgrímssyni og fleirum hangir uppi. Svo skála ég við Jónas. Ég ætla að fara þangað aftur – en skála í vatni í staðinn.

Draumafríið:
Hmm….Nýja Sjáland er efst á óskalistanum. Hef mikla löngun í garð þess … veit ekki af hverju. Á sínum tíma var það Pólland og það var afgreitt 1998 … með alveg hreint ævintýralegu ferðalagi. En mér sýnist tími minn vera búinn :o)

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …