Skúturnar sem sigla eftir Outer Alster vatninu Hamborg fara létt með að dáleiða mann. Þarna eru þær í tugatali með hvítu seglin sín útþanin í sólinni og einhverja stálheppna borgarbúa um borð sem fá að verja dagsparti í að láta vindinn flytja sig fram og tilbaka. Á vatninu sigla líka ferjur með þá sem eiga erindi hinum megin við þetta fallega vatn og það er varla hægt að ímynda sér friðsælli umferð í stórborg og því auðvelt að taka undir þá fullyrðingu rithöfundarins Bill Bryson að við bakka Outer Alster væri hægt að lifa hinu fullkomna borgarlífi. Golan, sem er víst nær daglegur gestur í Hamborg, kemur því að góðum notum fyrir skútufólkið á meðan aðrir íbúar borgarinnar eru kannski ekki eins hrifnir. „Ég ólst upp í Munchen en hef búið hér í Hamborg í meira en áratug. Borgin er frábær en ég sakna lognsins frá heimaslóðunum,” segir kaupmaðurinn Philipp Korselt mér en hann á hina fallegu fatabúð Bob við Kirchenalle 19, rétt við aðallestarstöðina. Fataverslun sem er skyldustopp fyrir þá sem vilja heldur fara í sérverslanir en vöruhúsin við Spitalerstraße og Mönckebergstraße þar skammt frá.
Strunsað í gegnum rauða hverfið
Þeir eru líklega ófáir sem tengja Hamborg við Bítlana og upphafsár þeirra við hina vafasömu Reeperbahn í St. Pauli hverfinu. Á þessum slóðum stigu drengirnar frá Liverpool sín fyrstu skref í upphafi sjöunda áratugarins og sú staðreynd hefur gefið öllum ömurlegheitunum sem þrífast við þessa götu einhvern ævintýraljóma. Það er auðvitað enginn sjarmi við rauð hverfi eins og Reeperbahn og þó svæðið sé sögufrægt þá er lítil ástæða til að eyða þar löngum tíma. Og kannski best að strunsa í gengum subbulegasta hluta götunnar eða sneiða alveg hjá honum því það er sem betur fer margt annað að sjá og gera í St. Pauli. Til að mynda er útsýnið frá Clouds þakbarnum við Reeperbahn 1 virði alla vega eins kokteils. Og það er lítið mál að mæla með árstíðabundna matseðlinum á Klippkroog sem tilheyrir reyndar Altona hverfinu þar sem flóra íbúa er fjölbreytt og blómstra því alls kyns kaffihús og veitingastaðir á því svæði. Aðeins norðar er svo Schanze hverfið sem minnir nokkuð á Vesterbro í Kaupmannahöfn eða jafnvel hluta Berlínar þar sem frumlegt athafnafólk hefur látið til sín taka. Veitingastaðurinn Bullerei er lýsandi dæmi en hann er til húsa í gömlu iðnaðarhúsnæði við Lagerstrasse 34b. Þar er fókusinn á þýska rétti í huggulegu en hráu umhverfi.
Hafnarsvæðið fær ísjaka
Hamborg er heppilega staðsett við árnar Elbe og Alster og nálægðin við vatnið hefur lengi skipað henni sess með helstu hafnarborga Evrópu. Þarna hefur því lengi ríkt mikil velmegun og borgin ein sú ríkasta í Evrópu. Og þó útgerðin standi ennþá styrkum fótum þá hefur nú skapast pláss fyrir annars konar rekstur í gömlum vöruhúsunum og byggingum sem standa við hafnirnar og þá sérstaklega í Hafencity hlutanum. Þetta tækifæri hafa stór og smá fyrirtæki nýtt sér og annað hvort komið sér fyrir í gömlu húsunum við sýkin eða í splunkunýjum glerköstulum. Á svæðinu hefur líka verið byggt töluvert af íbúðahúsnæði og hótelum og nýjasta kennileiti borgarinnar, ísjaki Fílharmoníunnar, gnæfir þar yfir öllu. Þessi ótrúlega bygging verður vígð á næstunni og það er eiginlega nauðsynlegt að gefa sér tíma til að ganga upp að húsinu í rólegheitum og virða það fyrir sér og jafnvel fara í bátsferð í kring. Í beinu framhaldi er svo kjörið að fá sér matarbita á veitingastaðnum Heimat Küche sem er á 25Hours Hafencity hótelinu. Gististaður sem minnir um margt á Kex í Reykjavík eða rölta í átt að gamla bænum og fá sér framúrskarandi kaffi á Nord Coast við Deichstrasse 9 og svo í átt að ráðhústorginu og virða fyrir sér hið tignarlega Rathaus.
Hvert sem stefnan er tekin er næsta víst að eitthvað forvitnilegt verður á vegi manns því Hamborg er stórborg með alls kyns söfn, matsölustaði og verslanir og gjörólík hverfi. Þrátt fyrir það virðist Hamborg rata sérkennilega sjaldan inn á ferðaáætlanir fólks en þeir sem ákvaða að taka sénsinn verða ekki fyrir vonbrigðum.
Túristi heimsótti borgina með aðstoð frá Icelandair sem býður upp á flug til Hamborgar frá vori og fram til loka októbermánaðar.