Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Margrétar Tryggvadóttur

margret tryggvadottir

Henni þótti stórkostlegt að vakna um borð í seglskútu á Níl og borðar alltaf þar og það sem Sólveig vinkona hennar mæli með. Henni þótti stórkostlegt að vakna um borð í seglskútu á Níl, lumar á góðum ráðum fyrir þá sem ætla í skíðaferð til Vancouver og borðar alltaf þar og það sem Sólveig vinkona hennar mæli með. Margrét Tryggvadóttir segir hér frá ferðalögum sínum en nýverið kom út bók hennar og Lindu Ólafsdóttur sem ber heitið Íslandsbók barnanna.

Fyrsta ferðalagið til útlanda
Ég fór í fyrsta sinn til útlanda með foreldrum mínum og ömmum þegar ég var nýorðin þriggja ára, sumarið 1975. Önnur amma mín og alnafna, Margrét Tryggvadóttir fædd 1917, hafði orðið ekkja nokkrum mánuðum áður og foreldrum mínum fannst tilvalið að bjóða henni og hinni ömmu minni Elínu Jónsdóttur til Kaupmannahafnar. Þetta var líka fyrsta utanlandsferð Margrétar ömmu minnar. Ég er ekki viss um að ég muni í raun neitt eftir þessari ferð en pabbi var duglegur að taka myndir sem ég skoðaði reglulega og því finnst mér ég muna ýmislegt.

Best heppnaða utanlandsferðin
Í febrúar 2008 fórum við fjölskyldan saman til Kína og dvöldum þar í tæpa fjóra mánuði. Okkur langaði að breyta til og fannst þetta síðasti séns fyrir okkur að taka strákana okkar úr skóla í einhvern tíma en þeir voru þá í 5. og 9. bekk. Reyndar gengu þeir í alþjóðlegan skóla á meðan á dvölinni stóð og fengu mikið út úr því. Við dvöldum í Shanghai sem er mjög vestræn borg en ákváðum að búa ekki þar sem flestir útlendingarnir búa eða sækja í samfélög þeirra heldur reynda að kynnast lífinu eins og það er fyrir venjulegt fólk. Svo náðum við að ferðast töluvert um landið þótt það sé raunar óþrjótandi verkefni. Maðurinn minn var í námi í borginni en ég tók mína vinnu bara með mér og þýddi meðal annars tvær bækur en fór líka í matreiðsluskóla og lærði að elda kínverskan og tælenskan mat. Dvölin breytti okkur, bæði viðhorfi okkar til lífsins og heimsins en ekki síður sambandi okkar fjögurra. Fjölskyldan varð miklu nánari eftir að hafa átt þennan tíma saman án allrar utanaðkomandi truflunar.

Tek alltaf með mér í ferðalagið
Bækur! Oft reyni ég að lesa bækur sem gerast á þeim stöðum sem ég er að heimsækja, sérstaklega ef ég er að fara í frí, og les slíkar bækur líka fyrir og eftir ferðina ef ég get.

Eftirminnilegasta máltíðin í útlöndum
Árið 2000 fórum við til Bordeaux en árið áður hafði maðurinn minn orðið þrítugur og vinir okkar gáfu honum hlutabréf í vínekru þar í afmælisgjöf. Hlutabréfaeigninni fylgdu orlofsréttindi sem hinn nýbakaði vínbóndi og vinir hans gátu nýtt sér en við leigðum allt „chateau-ið“ og fórum saman fimm pör. Sólveig vinkona okkar sem stóð fyrir þessari frumlegu gjöf er menntaður matreiðslumaður og var búin að gera úttekt á öllum bestu veitingahúsum svæðisins. Hún pantaði borð á stað sem heitir La Tupina sem er þekktur fyrir hefðbundna franska matargerð. Sú máltíð hófst með því að okkur var boðið upp á smakk af hvítlaukslegnum svínaþörmum sem voru bæði frekar ógeðslegir en líka ótrúlega bragðgóðir og settu tóninn fyrir kvöldið þar sem við smökkuðum ýmislegt sem Íslendingar hafa fúlsað við í gegnum tíðina. Þessi máltíð er ógleymanleg og það var allt en ekki eitt – umhverfið og maturinn sem var stórkostlegur en ekki síst góður félagsskapurinn. Máltíðinni lauk svo með 130 ára gömlu koníaki. Við áttum reyndar ekki fyrir 10 glösum þannig að við pöntuðum eitt og létum það ganga hringinn. Reyndar var þessi vika í Bordeaux ein samfelld matarupplifun og á heimleiðinni komum stoppuðum við í London þar sem Sólveig hafði pantað borð á River Café í hádegisverð. Þaðan ultum við út um þrjúleytið, södd og sæl eftir aðra ótrúlega veislu. Síðan þá hef ég alltaf borðað þar og það sem Sólveig segir mér að borða.

Það kjánalegasta sem ég hef gert sem ferðamaður
Mér tekst ótrúlega oft að klúðra skófatnaði á ferðalögum og taka með mér og reyna að nota skó sem ég get ekki notað í hita og raka og enda öll plástruð á löppunum.

Minnistæðasta hótelið sem ég hef búið á
Minnistæðasti gististaðurinn var reyndar ekki hótel heldur seglskúta sem við sigldum á í sólarhring á Níl í Egyptalandi. Eftir að hafa siglt niður fljótið allan daginn áðum við við árbakkann, fjórar fjölskyldur saman, við frá Íslandi, tvær frá Bretlandi og ein frá Kanada. Svo voru þarna innlendur fararstjóri og tveir menn sem stýrðu skútunni. Krakkarnir fóru í fótbolta með börnum sem bjuggu við ána og léku sér með þeim þar til dimmdi. Ekkert hús var á bátnum þannig að þegar myrkrið skall á skriðum við ofan í svefnpokana okkar og fórum að sofa undir stjörnubjörtum himninum. Ég rumskaði svo fyrir dagrenningu en þá voru skipstjórinn og stýrimaðurinn farnir að róa skútunni í morgunkyrrðinni til að koma okkur á næsta áfangastað. Þegar dagaði fengum við vind í seglin og þeir gátu hætt að róa. Það var stórkostlegt að vakna þarna á ánni, hægt og rólega, undir berum himni, á stórfljóti og með fjölskyldu og nýja vini í kringum sig.

Uppáhalds áfangastaðurinn minn er
Whistler í Bresku Kólumbíu í Kanada. Þangað höfum við farið fjórum sinnum, fyrst þegar bróðir minn og hans fjölskylda bjuggu í Vancouver þar sem hann var við nám í tvö ár. Þau eru löngu flutt heim en við höldum áfram að fara. Í Whistler er eitthvert besta og stærsta skíðasvæði heims, frábærar skíðaleiðir en líka dásamleg náttúrufegurð, skemmtilegur bær og gott að vera. Það eru allir svo glaðir og vingjarnlegir í Kanada. Leiðin frá Vancouver upp í fjöllinn er eftir þjóðvegi sem kallast Sea-to-Sky Highway og hann verður maður að keyra í björtu enda ótrúlega fögur leið og skemmtilegt að keyra. Við höfum farið þessar ferðir í páskafríinu okkar og skíðað í dimbilvikunni en varið páskunum sjálfum, þegar skíðasvæðið fyllist af fólki, í Vancouver eða Seattle.

Áttu gott ráð fyrir þá sem langar í skíðarferð til Whistler?
Þetta segir sig nú eiginlega allt sjálft en ég held að besta ráðið sé að leggja ekki strax af stað akandi frá Seattle upp í fjöllin þegar maður kemur ef flogið er þangað heldur tékka sig inn á flugvallarhótel og leggja af stað úthvíldur. Kosturinn við flugvallarhótel eru nokkrir. Yfirleitt eru þau á góðu verði og bjóða ókeypis skutlur til og frá flugvellinum. Maður getur því líka sleppt því að leigja bíl fyrsta daginn. Og svo það besta, morgunverðurinn byrjar kl. 4 þannig að þegar maður vaknar eldsnemma vegna átta tíma munar þá þarf maður ekki að bíða hungurmorða inn á hótelherbergi þar til kaffihús opna. Við höfum alltaf leigt íbúð í einkaeigu og það hefur gefist vel. Í þeirri blokk er bæði heitur pottur en líka upphituð útisundlaug og það jafnast ekkert á við að taka sundsprett eftir góðan dag á skíðum þannig að ég mæli með því.

Þangað er ferðinni heitið næst
Við ætlum í aðventuferð til Strasbourg og Frankfurt með sonum og tengdabörnum nú í desember. Foreldrar tengdadóttur minnar búa í Sviss en þau bjuggu áður í Strasbourg og þar á hún marga vini. Þau sonur minn fara áfram til Sviss en við hin heim eftir fjögurra daga dvöl.

Minnistæðasta ferðalagið um Ísland
Ég er alin upp í Hjálparsveit skáta þannig að sem krakki vorum við í sífelldum útilegum og ferðum um allt land og ég á ótal minningar um skemmtilegar ferðir um landið okkar. Þegar ég var þingmaður var suðurkjördæmi mitt og reglulega fór þingmannahópurinn um allt kjördæmið og fundaði með sveitarstjórnum. Þessar ferðir voru eitt það skemmtilegasta við þingmannsstarfið. Við sameinuðumst yfirleitt í bíla, þvert á flokka og allt öðruvísi samtöl og tengsl mynduðust manna á milli. Þetta voru afar dýrmætar stundir, auk þess sem við ræddum við fólkið á Suðurlandi og Suðurnesjum og fengum innsýn í líf þeirra og störf.

Nýtt efni

Kínverjar eru leiðandi í smíði rafbíla, sem taldir eru mikilvægir vegna nauðsynlegra orkuskipta í samgöngum. Hinsvegar er Kína enn mjög háð brennslu kola, nærri 60% rafmagns í landinu er framleitt með kolum og það er enn verið að auka kolanám í landinu. Auk þess sem flutt er inn mikið af olíu og gasi. Jafnhliða er …

Það vour 1.299 bílar skráðir nýir á götuna hér á landi fyrstu þrjár vikurnar í júní og þar af 986 á vegum bílaleiga. Það jafngildir því að 24 prósent nýrra ökutækja fór til einstaklinga en á sama tíma í fyrra var hlutfallið 38 prósent samkvæmt tölum Bílgreinasambandsins sem ná til 23. júní. Þessar fyrstu þrjár …

Það voru þrjú norræn alþjóðaflugfélög sem hófu flugrekstur í Covid-faraldrinum. Hér á landi var það Play en Flyr og Norse í Noregi. Öll þrjú leigðu árið 2021 þotur á lægra verði en áður hafði þekkst og efndu til hlutafjárútboða meðal fagfjárfesta og almennings. Í byrjun síðasta árs varð Flyr gjaldþrota en rekstur þess byggði á …

Ein árangursríkasta loftslagsaðgerð síðari ára á Íslandi er líklega sú að banna urðun lífræns úrgangs. Þetta bann tók gildi í upphafi árs 2023 og árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Smám saman hafa jákvæðar tölur verið að berast, sem gefa tilefni til bjartsýni. Það er semsagt hægt að ná árangri í loftslagsmálum, þótt margir …

Barselóna er ein vinsælasta ferðamannaborg Evrópu en óþol íbúa vegna ágangsins hefur farið vaxandi á síðustu árum - ekki síst vegna húsnæðisvanda ungs fólks sem ekki getur keppt við ferðaþjónustuna í leiguverði. Fyrri borgaryfirvöld hættu útgáfu nýrra leyfa til útleigu og lokað mörgum ferðamannaíbúðum en nú eru í farvatninu enn meiri breytingar. Airbnb og öðrum …

Í Svíþjóð kalla sumarsólstöður, eða Midsommar, á mikil hátíðarhöld þar sem síld og snaps hafa lengstum verið í aðalhlutverki. Sölutölur sænskra kaupmanna sýna þó að vinsældir síldarinnar dala ár frá ári og nú er svo komið að salan hefur helmingast frá árinu 2008. Frá þessu greinir Sænska ríkisútvarpið. Skýringin á þessari þróun liggur í bragðlaukum …

Ferðahópur á Þingvöllum

Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Öðlast þingsályktunin þegar gildi en mótun stefnunar var sett á ís þegar Covid-faraldurinn hófst en þráðurinn var tekinn upp að nýju í fyrra. Þá skipaði ráðherra ferðamála, Lilja Alfreðsdóttir, sjö starfshópa til að fara í verkið og komu meira …

Ásgeir Baldurs, framkvæmdastjóri Arctic Adventures

Arctic Adventures er eitt stærsta fyrirtæki landsins í ferðaþjónustu og hefur verið að stækka starfssvið sitt, síðast með kaupum á Special Tours, sem sinnir skoðunarferðum á slóðum hvala og lunda, auk þess að reka Hvalasafnið (Whales of Iceland) í Reykjavík.  Ásgeir Baldurs tók við starfi forstjóra Arctic Adventures fyrir rúmu ári, þegar margir bundu vonir við …