Samfélagsmiðlar

Skiptistöðin Leifsstöð

Um helmingur farþega Icelandair og WOW air eru tengifarþegar og vísbendingar eru um að sá hópur sé líka að verða fjölmennur í Íslandsflugi erlendu flugfélaganna.

kef farthegar

Þeim farþegum fjölgar hratt sem aðeins stoppa í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að skipta um flugvél á leið sinni milli Norður-Ameríku og Evrópu. Fyrstu átta mánuði ársins voru skiptifarþegarnir rétt rúmlega 2 milljónir talsins samkvæmt tölum Isavia eða álíka margir og þeir voru allt árið í fyrra. Í þessum hópi eru þeir farþegar sem fljúga annað hvort með Icelandair eða WOW air yfir hafið og er vægi tengifarþeganna komið upp í 34% af heildarfarþegafjöldanum í flugstöðinni. Þessar breytingar haldast í hendur við þróunina hjá íslensku flugfélögunum tveimur því hlutfall skiptifarþega Icelandair hefur aukist verulega síðustu ár og var akkúrat helmingur í fyrra og það sama mun eiga við hjá WOW air samkvæmt því sem RÚV hafði eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW, í síðustu viku.

Þessir farþegar íslensku flugfélaganna eru ekki taldir sem ferðamenn hér á landi nema þeir fari út úr Leifsstöð á milli flugferða en öðru máli gegnir um svokallaða sjálftengifarþega sem fljúga hingað með einu flugfélagi en halda samdægurs af landi brott með öðru. Koma til dæmis hingað frá Toronto með Air Canada og halda svo ferðinni áfram með Norwegian til Óslóar. Ef þessir farþegar ferðast með meira en handfarangur þurfa þeir að sækja töskurnar á Keflavíkurflugvelli og innrita sig á ný og eru því taldir sem erlendir ferðamenn á Íslandi þegar þeir fara í gegnum vopnaleitina. Í könnun sem Isavia gerði á dögunum á vægi þessa farþegahóps kom í ljós að 11% farþega töldust vera sjálftengifarþegar og ferðamannafjöldinn því ofmetinn sem þessu nemur. Auk þess var hlutfall útlendinga sem búsettir eru hér á landi 3% af ferðamannafjöldanum.

Á sama hátt og þessi skekkja veldur ofmati á fjölda túrista verður hún til þess að fjöldi skiptifarþega á Keflavíkurflugvelli er vanmetinn. Því eins og áður segir nær opinbera talan aðeins yfir þann hóp sem flýgur alla leið með annað hvort Icelandair eða WOW en ekki til þeirra sem víxla milli íslensku félaganna á Keflavíkurflugvelli, t.d. sá flýgur hingað frá Dublin með WOW og fer beint til Denver með Icelandair. Ef hlutfall sjálftengifarþega hefur verið 11% í allt sumar þá hefur sá hópur talið 85 þúsund farþega í júní, júlí og ágúst og í raun þarf að tvöfalda þá tölu því skiptifarþegar eru taldir á Keflavíkurflugvelli bæði á útleið og heimleið.

Í dag er ekki vitað hvort hlutfall sjálftengifarþega er hærra eða lægra yfir sumarið en hin óvenju mikla fjölgun ferðamanna hér síðastliðinn vetur gæti þó verið vísbending um að á því tímabili hafi sjálftengifarþegarnir skipt tugum þúsunda. Til að mynda mun ferðamönnum hafa fjölgað um 64% á síðasta ársfjórðungi í fyrra en gistinóttum útlendinga fjölgaði hins vegar um 43%. Það er jafnmikil aukning og síðustu þrjá mánuðina 2015 en þá nam fjölgun ferðamanna hins vegar „aðeins“ 39%. Ef við gefum okkur að þróun gistinátta gefi réttari mynd af fjölgun ferðamanna þá hafa sjálftengifarþegarnir síðustu þrjá mánuði í fyrra verið 60 til 70 þúsund talsins.

Fyrstu fimm mánuðina í ár nam fjölgun ferðamanna 46% en var 35% á sama tíma í fyrra. Þá fjölgaði hótelnóttum útlendinga líka um jafn hátt hlutfall (35%) en svo var ekki fyrstu fimm mánuðina í ár því þá fjölgaði hótelnóttunum mun minna eða um 23%. Ef við gefum okkur að fjöldi skiptifarþega skýri þessa mismunandi þróun milli ára þá hefur sá hópur talið um 120 þúsund manns í janúar til maí og skekkjan í ferðamannatalningunni því 16% á því tímabili. En sem fyrr segir var hlutfall sjálftengifarþega 11% í könnun Isavia í sumar. Í heildina gætu því skiptifarþegarnir, sem taldir voru sem ferðamenn, hafa verið samtals um 200 þúsund fyrstu átta mánuði ársins. Þá tölu má svo aftur margfalda með tveimur og raunverulegur fjöldi sjálftengifarþega því um 2,4 milljónir fyrstu 8 mánuði ársins eða fimmtungi fleiri en skráð er.

Þessa útreikninga ber þó að taka með fyrirvara því eins og áður segir hefur hlutfall sjálftengifarþega aðeins einu sinni verið athugað og það var í júlí sl. í kjölfar umræðu sem skapaðist vegna greinar Túrista um hugsanlegt ofmat á ferðamönnum. Styttri Íslandsferðir, vegna styrkingar krónu, skýra væntanlega hluta af þróuninni og eins aukin ásókn í óskráða gistingu á vegum fyrirtækja eins og Airbnb. Túristi hefur ítrekað beðið forsvarsmenn íslenskra og erlendra flugfélaga um upplýsingar sem geta gefið mynd af fjölgun sjálftengifarþega en af svörum að dæma þá hafa flugfélögin enga hugmynd um þetta atriði. Ali Gayward, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlands, segir þó í sínu svari að á bandarískri vefsíðu flugfélagsins hafi síðastliðna 12 mánuði meira en 7 þúsund farþegar bókað flug með easyJet frá Keflavíkurflugvelli og sú tala kunni að gefa einhverja vísbendingu. Gayward ítrekar að þetta þurfi ekki að vera heildarfjöldi sjálftengifarþega hjá easyJet á Keflavíkurflugvelli því margir þeirra gætu hafa bókað far á bresku heimasíðu flugfélagsins. Hjá flugbókunarfyrirtækinu Kiwi.com, sem sérhæfir sig í að tengja saman flug ólíkra flugfélaga, fengust þar upplýsingar að síðustu 24 mánuði hafi orðið hátt í fimmfaldur vöxtur í bókunum á tengiflugi um Keflavíkurflugvöll og fjöldinn nemi þúsundum á ári. Áður hefur Túristi greint frá því að hjá Kayak, einni stærstu flugleitarvél heims, hafi einnig orðið mikil aukning í bókunum á flugi með millilendingu á Keflavíkurflugvelli.

Á sama hátt og setja skal varnagla við útreikningana hér fyrir ofan þá má líka velta upp þeirri spurningu hversu raunhæft það er, miðað við óvissuna í dag, að spá fyrir um fjölda ferðamanna líkt og Arion banki gerði fyrr í þessum mánuði. Hafi t.d. ofmatið í fyrra verið álíka mikið og það var í júlí sl. þá nam það um 240 þúsund ferðamönnum allt síðasta ár. Það eru álíka margir ferðamenn og komu hingað í ágúst í fyrra, stærsta ferðamánuði þess árs. Það munar um minna.

Í nóvember er von á fyrstu niðurstöðum í landamærakönnun Hagstofunnar og Ferðamálastofu en upphaflega var gert ráð fyrir þeim í ágúst síðastliðnum. Sú könnun gæti gefið nánari upplýsingar um skekkjuna sem nú er í ferðamannatalningunni. Isavia hyggst jafnframt gera nýja könnun á vægi sjálftengifarþega í vetur en í ljósi þess hve skekkjan var stór í júlí má hins vegar spyrja hvort ekki sé áríðandi að gera aðra könnun í haust til að fá betri mynd af stöðunni. Til að mynda er Ferðamálastofa hætt að birta talningu erlendra ferðamanna hér á landi og talar nú um fjölda erlendra brottfararfarþega.

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …