Samfélagsmiðlar

Mikilvægi íslensku flugfélaganna vanmetið

Eru íslensku flugfélögin of stór til að falla? Þetta er spurning sem hefur verið velt upp síðustu misseri. Af svörum framkvæmdastjóra hjá Seðlabankanum að dæma þá myndu önnur flugfélög taka við ábatasömum flugleiðum. Staðan er þó ólíklega svo einföld eins og hér er rakið.

icelandair wow

Ferðaþjónustan hér á landi á allt undir góðum flugsamgöngum og í ljósi þess að atvinnugreinin er ein helsta stoðin í hagkerfi landsins þá hefur verið bent á þjóðhagslegt mikilvægi íslensku flugfélaganna. Það var til að mynda gert í skýrslu Landsbankans í haust. Í kjölfarið sagði Túristi frá því að innan stjórnarráðsins væri á byrjunarstigi vinna við að meta nauðsyn undirbúa áætlun ef íslensku millilandaflugfélögin lenda í rekstrarvanda. Síðan þá hefur Túristi reglulega óskað eftir upplýsingum um framvindu málsins en engar upplýsingar fengið. Það er vísbending um að málið sé ennþá á byrjunarreit.

Í fréttaskýringu í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um afleiðingar þess ef rekstur Icelandair eða WOW myndi stöðvast. Þá myndi gengi krónunnar lækka og eignaverð sömuleiðis. Útflutningur gæti dregist saman og rekstrarerfiðleikar myndu blasa við mörgum fyrirtækjum í íslenskri ferðaþjónustu. Í blaðagreininni er rætt við Hörpu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, og af orðum hennar að dæma þá gætu önnur flugfélög séð hag auknu Íslandsflugi ef þau íslensku myndu lenda í vanda. „Það mun hafa áhrif [á stöðu hagkerfisins] ef ferðaþjónustan snýst hratt til baka, sama hver ástæðan er. Þar spila flugfélögin auðvitað stóra rullu en að sama skapi er það alltaf þannig að ef eftirspurnin er til staðar frá ferðamönnum og það er hægt að reka flugleiðina með hagnaði að þá mun einhver annar grípa boltann,“ segir Harpa í Viðskiptablaðinu.

Fókusinn ekki á Íslandsflug hjá íslensku flugfélögunum

Það má hins vegar færa rök fyrir því að í orðum Hörpu endurspeglist ofmat á aðdráttarafli íslenska flugmarkaðarins fyrir aðra flugrekendur. Staðreyndin er nefnilega sú að íslensku flugfélögin tvö standa undir bróðurparti flugferða frá Keflavíkurflugvelli og ekkert Evrópuland á jafn mikið undir innlendum flugrekendum og Ísland. Þrátt fyrir þessa stöðu þá er megináherslan í rekstri Icelandair og WOW air ekki á ferðamenn á leið til Íslands heldur á áætlunarflug yfir Atlantshafið með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Þetta viðskiptamódel hefur gengið það vel, sérstaklega síðustu ár, að áfangastöðum Icelandair og WOW hefur fjölgað mjög hratt bæði í Evrópu og vestanhafs og vægi tengifarþeganna eykst jafnt og þétt. Nú er svo komið að um annað hvert sæti í þotum flugfélaganna er skipað tengifarþegum.

Það er því ekki hefðbundið Íslandsflug sem dregur vagninn í íslenskum flugrekstri heldur áætlunarferðir yfir hafið í samkeppni við stærstu flugfélög Bandaríkjanna og Evrópu. Og til marks um hvað Íslandsflugið er ennþá óaðlaðandi í hugum erlendu flugfélaganna þá nægir að líta til Boston og Amsterdam. Til beggja þessara borga fljúga Icelandair og WOW nokkrum sinnum á dag sem er vísbending um að þessar flugleiðir séu arðsamar. Þrátt fyrir það flýgur ekkert hollenskt flugfélag til Íslands og ekkert bandarískt kemur hingað frá Boston. Flugvélarnar sem taka á loft frá þessum borgum, á leið yfir hafið, fljúga einfaldlega beinustu leið án viðkomu á Keflavíkurflugvelli. Ekki er ólíklegt að stjórnendur erlendu flugfélaganna viti fyrir víst að þorri flugfarþeganna hjá íslensku flugfélögunum er líka á leið yfir hafið en ekki til Íslands.

Ef Icelandair eða WOW hyrfu af markaðnum þá myndi forstjóri hins hollenska KLM sennilega fagna því að samkeppnin í flugi til Norður-Ameríku hefði minnkað og ef til vill myndi hann ákveða að hefja flug til Íslands frá Amsterdam. Hann gæti þá gert eins og kollegi hans hjá Lufthansa, stærsta flugfélagi Þýskalands, og boðið upp á þrjár ferðir í viku yfir vetrarmánuðina. En þar með hefðu hollenskir ferðamenn á leið til Íslands úr margfalt færri ferðum að velja og fargjöldin yrðu jafnvel hærri en áður. Samdrátturinn í komum Hollendinga til Íslands yrði þá vafalítið mikill. Sambærileg dæmi um lítinn áhuga erlendra flugfélaga til Íslands má finna í Kaupmannahöfn, París, Brussel, Stokkhólmi og víðar í Evrópu. Aðeins í Bretlandi sinna þarlend flugfélög Íslandsflugi af kappi en þó eru vísbendingar um að nýtingin í þeim ferðum hafi dalað í vetur því breskum ferðamönnum hefur fækkað örlítið í vetur á sama tíma og flugumferðin jókst.

Staðan vestahafs viðkvæmari

Staðan í Bandaríkjunum, stærsta markaðnum fyrir Íslandsferðir, gæti orðið ennþá verri ef rekstur annars, eða beggja, íslensku flugfélaganna myndi dragast saman eða stöðvast. Bandarísku flugfélögin takmarka nefnilega millilandaflug við fáa flugvelli og það er því útilokað að farþegar á 23 bandarískum flugvöllum gætu flogið beint til Íslands ef ekki væri fyrir íslensku flugfélögin. En svo mikið er framboðið í dag og er það mun meira en í flugi frá Bandaríkjunum til hinna Norðurlandanna. Ástæðan fyrir því er ekki sú að miklu fleiri Bandaríkjamenn langar til Íslands en Skandinavíu. Skýringin er fyrst og fremst sú að leiðakerfi Icelandair og WOW eru mjög víðfeðm af því að flugfélögin sjá tækifæri í að bjóða upp á Evrópuflug frá mörgum bandarískum borgum.

Til marks um takmarkaðan áhuga bandarískra flugfélaga á Íslandsflugi þá hefur Delta verið það eina með Ísland á sinni dagskrá en í ár bætast við sumarflug frá United Airlines frá New York og American Airlines frá Dallas. Meira er það ekki og íslensku flugfélögin eru því ein um flugið til allra hinna 19 borganna og oft í samkeppni við hvort annað. Þar með hafa íbúar Washington, Boston, Chicago og San Francisco úr að velja ferðum tveggja flugfélag til Íslands sem líklega hefur orðið til þess að fargjöldin eru hagstæðari en ella.

Ekkert erlent flugfélag með starfsstöð á Íslandi

Það er auðvitað ekki útilokað að erlent flugfélag sjái tækifæri í að fylla það gat sem íslenskt flugfélag myndi skilja eftir sig á Keflavíkurflugvelli. En til að gera það með sambærilegum hætti þyrfti erlenda flugfélagið að opna hér starfsstöð og það er ef til vill álíka fjarlægur möguleiki og að útlenskur banki hefji starfsemi hér á landi. Það er nefnilega allt annað fyrir flugfélag að fljúga til Íslands frá sínum heimavelli í stað þess að hefja flugrekstur héðan og stunda viðskipti með íslenska krónu.

Það eru einnig vísbendingar um að Ísland sé jaðarmarkaður fyrir erlend flugfélög og svo má ekki vanmeta þann álitshnekk sem landið yrði fyrir ef rekstur íslensks flugfélags myndi stöðvast. Til að mynda í lok vetrar þegar margir hafa bókað sumarfrí en skaðinn yrði líklega minni um haust. Hvað sem því líður þá er ljóst að íslenski flugmarkaðurinn er um margt sérstakur og það yrði flóknara að fylla skarð íslensku flugfélaganna en fylla upp í það gat sem gjaldþrot Airberlin skyldi eftir sig á þýska markaðnum í vetur.

Nýtt efni

Lufthansa-flugsamsteypan tilkynnti í dag að flugferðum til Amman í Jórdaníu, Erbil í Kúrdahéruðum Íraks og Tel Aviv í Ísrael yrði frestað til þriðjudags og ekki yrði flogið til Beirút í Líbanon og Teheran í Íran a.m.k. til fimmtudags vegna stríðsógnarinnar og hernaðaraðgerða í Mið-Austurlöndum. Á flugvellinum í Amman í Jórdaníu - MYND: Unsplash/Cila Photography Reuters-fréttastofan …

Hjá Könglum er rík áhersla lögð á að nýta afurðir úr nærumhverfinu, hvort sem það eru jurtir, afgangar eða aukaafurðir bruggunarferlisins. Sjálfbær hugsun og skynsöm nýting náttúrunnar er auk þess í farabroddi þar sem aldrei er tekið meira en náttúran hefur að gefa, svo hún geti tekið við sér aftur eftir uppskeruna. Heitið Könglar varð …

Árið 2001 starfaði Khaled Hosseini sem heimilislæknir en stundaði bókaskrif í frístundum sínum. Hann vaknaði á hverjum morgni klukkan 4:30 og sat við eldhúsborðið yfir bókaskrifum fyrstu þrjár morgunstundirnar. Síðan fór hann í sturtu, klæddi sig og keyrði á læknastofuna til að meðhöndla sjúklinga sína. En sjálfur segir höfundurinn að allan þann tíma sem hann …

Icelandair tekur í notkun þrjár nýjar Boeing Max þotur fyrir sumarvertíðina og sú fyrsta er komin til landsins en hún er fengin af lager flugvélaframleiðandans í Seattle. Hinar tvær eru splunkunýjar og segir Guðni Sigurðsson, talsmaður flugfélagsins, að þær séu báðar komnar af færibandinu og nú fari fram lokaskoðun á þeim. Von er á þessum …

Íslendingar hafa líklega önnur viðmið um það hvað sé hæfilega margt fólk samankomið á einum stað en þjóðir sem vanar eru meiri mannþröng og umferðarþunga alla daga. Sjálfsagt er það eigingjarnt og sjálfmiðað að ætlast til þess að fá að ganga einsamall í friði og ró niður Almannagjá á Þingvöllum á góðum sumardegi. Þeir dagar …

Frestur til að skila inn tilboðum í 35 prósent hlut Landsbankans í Keahótelin, eina stærstu hótelkeðju landsins, rann út fyrir síðustu jól. Ennþá er söluferlið í gangi samkvæmt svari frá bankanum en engar nýjar upplýsingar er að fá um stöðuna. Hluturinn í Keahótelunum var auglýstur til sölu í lok nóvember í fyrra og þá sagði …

Wizz Air er meðal þeirra flugfélaga í heiminum sem losa minnst af CO2 og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir viðleitni til sjálfbærni. Þessi árangur skýrist fyrst og fremst af því að ungverska félagið er með nýjan flugflota í þjónustu sinni, aðallega Airbus A321neo sem flestar eru innan við fimm ára gamlar. Þá hjálpa góð sætanýting …

Þessar niðurstöður komu í ljós í könnun sem Jacques Delors-stofnunin gerði í mars í þessum löndum, en niðurstöðurnar fóru ekki mjög hátt fyrr en The Guardian gerði þær að umtalsefni á dögunum. Niðurstöðurnar þykja nefnilega athyglisverðar í ljósi þess að mikið hefur verið rætt um að bakslag hafi orðið í stuðningi almennings í Evrópu við aðgerðir í umhverfismálum. Könnunin …