Samfélagsmiðlar

Flugfélögin stýra ferðamannastraumnum

Þegar nýr áfangastaður bætist við leiðakerfi Icelandair og WOW air þá fjölgar vanalega ferðamönnum hér á landi frá viðkomandi svæði. Á sama hátt fækkar gestunum þegar dregið er úr ferðafjöldanum líkt og kom berlega í ljós í júlí.

Ferðafólk við Seljalandsfoss.

Það er verulegur samdráttur í komum Þjóðverja hingað til lands og það sama á við um Evrópubúa almennt. Margir leita skýringa á þessari þróun í sterkri krónu og í viðtali við RÚV sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, að verðlag á Íslandi væri ekki samkeppnishæft við önnur lönd og þess vegna fækki ferðamönnum. Bætti hann því við að markaðssvæðið í Mið-Evrópu væri viðkvæmara fyrir verðhækkunum en önnur.

Ásdís Kristjánsdóttir, hagfræðingur Samtaka atvinnulífsins, tók í svipaðan streng og bætti því við að það væri áhyggjuefni að vöxturinn væri aðallega frá einu markaðssvæði, Bandaríkjunum. Í júlí fjölgaði t.a.m. bandarísku ferðafólki verulega og stóð það undir rúmlega þriðjungi af ferðamannastraumnum.

Fall Airberlin skildi eftir sig skarð

Þegar þessar breytingar á ferðamannaflórunni eru greindar gleymist hins vegar að horfa til þess hvernig flugáætlanir flugfélaganna hafa breyst á milli ára. Þannig fækkaði áætlunarferðunum milli Íslands og Þýskalands um fjórðung í júlí og skrifast það á nokkra þætti.

Í fyrsta lagi þá varð Airberlin, næststærsta flugfélag Þýskalands, gjaldþrota í vetur en félagið hafði lengi verið umsvifamikið í Íslandsflugi og flaug til að mynda 67 ferðir hingað í júlí í fyrra. Hin þýsku flugfélögin fjölguðu hins vegar ekki ferðunum hingað á móti. Eurowings dró aftur á móti verulega saman seglin og bauð aðeins upp á Íslandsflug frá tveimur þýskum borgum en ekki fimm líkt og sumrin á undan.

Auk þess lagði Germania niður flug sitt frá Friedrichshafen. Það munaði líka mikið um niðurskurð Icelandair á næturflugi til Þýskalands og fleiri Evrópulanda.

Icelandair til Berlínar

Ástæða þess að flugfélögin fylltu ekki skarð Airberlin og skáru þess í stað niður flugið milli Íslands og Þýskalands skrifast ekki bara á minnkandi aðdráttarafl Íslands vegna hækkandi verðlags og neikvæðrar umræðu um massatúrisma á Íslandi í þýskum fjölmiðlum.

Forsvarsmenn Lufthansa og Eurowings hafa viðurkennt að það hafi reynst erfitt að taka við öllum mörkuðum Airberlin og þeir hafa greinilega sett önnur lönd í forgang en Ísland. Icelandair fór reyndar til Berlínar um leið og ljóst var að rekstur Airberlin væri að stöðvast en þar var sennilega aðallega horft til þeirra sem vildu fljúga á milli Bandaríkjanna og höfuðborgar Þýskalands en ekki til Íslands.

Þannig sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, að nýtt flug félagsins til Berlínar og Dusseldorf, sem hefst á næsta ári, væri aðallega tilkomið vegna falls Airberlin og þess markaðar sem flugfélagið skildi eftir sig fyrir áætlunarferðir til Ameríku.

Sókn íslensku félaganna í Bandaríkjunum

Hin mikla fjölgun sem orðið hefur á fjölda bandarískra ferðamanna endurspeglar á sama hátt þann aukna kraft sem Icelandair og WOW air settu í flug til Bandaríkjanna í sumar. Hvort um sig bætti fimm bandarískum borgum við leiðakerfi sitt og er það meiri viðbót en dæmi eru um. Á sama tíma hófu svo bandarísku flugfélögin United Airlines og American Airlines Íslandsflug sem hefur líka mikið að segja.

Vissulega taka flugáætlanir íslensku flugfélaganna mið af eftirspurn í hverju landi fyrir sig eftir ferðum til Íslands. Meirihluti farþega Icelandair og WOW air eru hins vegar skiptifarþegar og það er því ekki aðdráttarafl Íslands eitt og sér sem ræður því hvert þotur félaganna tveggja fljúga. Markaðurinn fyrir Atlantshafsflug vegur þar líklega þyngst og við það býr íslensk ferðaþjónusta enda standa Icelandair og WOW air undir bróðurparti alls áætlunarflugs til landsins. Það má því fullyrða að breytingar á leiðakerfum flugfélaganna hafa ekki minni áhrif á ferðamannastrauminn en sveiflur á gengi krónunnar. Áhrifin eru jafnvel meiri.

;

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …