Samfélagsmiðlar

Engin loðnuleit í háloftunum

Ferðafólki fækkaði umtalsvert hér á landi í fyrra og útlitið í ár er tvísýnt. Ekki verður þó sérstaklega vart við áhyggjur meðal ráðamanna og búið að skera niður fjármagn til talningar á túristum.

Það er ekki í hendi að erlendum ferðamönnum fjölgi þegar líður á árið. Sætiframboð í Íslandsflugi dregst saman í vor og sumar.

Nú í ársbyrjun hefur Hafrannsóknarstofnun staðið fyrir leit eftir loðnu á miðunum fyrir norðan og austan landið. Aldrei munu eins mörg skip hafa tekið þátt í svona aðgerð og fylgst er með gangi mála á ríkisstjórnarfundum enda mikil aflaverðmæti í húfi.

Á sama tíma heldur ferðafólki hér á landi áfram að fækka sem hefur líka verulega áhrif á þjóðabúskapinn. Samdrátturinn í janúar nam tuttugu þúsund ferðamönnum samkvæmt mánaðarlegu mati Ferðamálastofu. Stofnunin fær nefnilega ekki lengur fjármagn til að telja alla ferðamenn á Keflavíkurflugvelli.

Þar með sparar ríkið sér, í gegnum hið opinbera Isavia, um fimmtíu milljónir króna á ári. Til samanburðar borgaði Hafró þrjátíu milljónir króna í leigu á skipum frá útgerðarfyrirtækjum vegna loðnuleitarinnar í síðasta mánuði.

Loðnuleit og talning á ferðafólki er vissulega ekki alveg sami hluturinn en báðar aðgerðir skila okkur betri skilningi á núverandi stöðu í lykilatvinnugreinum. Það að fjármagn til talningar á túristum sé skorið niður á óvissutímum í ferðaþjónustunni er því óheppilegt. Svo ekki sé minnst á þá séríslensku hefð að leyna öllum upplýsingum um farþegaflug til og frá landinu aftur í tímann.

Og ennþá hafa ráðamenn ekki svarað kalli ferðaþjónustunnar um að koma landinu á framfæri á erlendum vettvangi. Þar með dregur Icelandair eiginlega eitt vagninn í landkynningunni enda heyrist ekki lengur rödd WOW air og Íslandsstofa hefur ekki lengur úr miklu að moða.

Þetta áhugaleysi ráðamanna á talningu ferðafólks og landkynningum skrifast kannski á að greiningaraðilar sjá flestir fyrir sér hóflegan vöxt í fjölda ferðamanna í ár. Forstjóri Isavia er á sömu línu og gaf út um áramótin að erlendum ferðamönnum myndi ekki fækka í ár miðað við mat fyrirtækisins.

Þessar spár gera allar ráð fyrir að ferðafólki fækki fyrstu þrjá mánuði ársins enda stöðvaðist rekstur WOW air ekki fyrr en í lok mars í fyrra. Ef samdrátturinn í febrúar og mars verður álíka og í janúar þá þýðir það að erlendum ferðamönnum fækki um sextíu þúsund á fyrsta þriðjungi ársins. Sú tala gæti lækkað um nokkur þúsund ef kínverskum ferðamönnum hefur fækkað vegna ferðabannsins sem sett var á til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.

Síðan ætti leiðin að liggja upp á við til að jafna út niðursveifluna fyrstu þrjá mánuði ársins ef þessar jákvæðu spár eiga að ganga eftir. Það lítur aftur á móti út fyrir að sætaframboð í flugi til landsins dragist saman um þrjá af hundraði frá byrjun apríl og til enda október samkvæmt útreikningum Túrista. Það þarf ekki að þýða að ferðafólki fækki um sama hlutfall en ef það gerist þá mun heildarfjöldi ferðamanna í ár fara undir 1,9 milljón. Þeir voru aftur á móti rétt tæplega 2 milljónir í fyrra og um 2,3 milljónir árið á undan.

Ef þoturnar sem hingað fljúga verða aftur á móti þéttsetnari en í fyrra og með fleiri erlenda ferðamenn þá gæti þeim fjölgað þegar líður á árið. Það er þó ekkert í hendi og til að mynda kom það fram í máli forstjóra Icelandair Group nýverið að erfiðara væri að lesa bókunarstöðuna en oft áður.

Það atriði eykur þá ennþá meira á óvissuna enda flytur Icelandair um annan hvern ferðamanna til landsins yfir sumarmánuðina. Í ofan á lag þá er útbreiðsla kórónaveirunnar farin að hafa bein áhrif á flug til og frá Keflavíkurflugvelli í ár.

Það er því kannski full ástæða fyrir stjórnvöld að kortleggja leit eftir þeim ferðamönnum sem hingað eiga að koma næstu mánuði og misseri. Og jafnvel að vera með í ráðum varðandi aðgerðir til að fá hingað reglulegri ferðir frá erlendum flugfélögum. Stjórnendur nokkurra þeirra hafa nefnilega skorið niður Íslandsflug sitt að undanförnu.

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …