Samfélagsmiðlar

Feluleikur íslensku flugfélaganna í Kauphöllinni

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar og Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

Íslenskir fjárfestar og lífeyrissjóðir hafa lagt tugi milljarða króna í rekstur Icelandair og Play síðastliðið ár. Upplýsingagjöf félaganna tveggja er þó ekki til fyrirmyndar eins og þessi nýjustu dæmi eru vísbending um.

Byrjum á Icelandair

Frá og með byrjun næsta mánaðar fá bólusettir Evrópubúar að ferðast til Bandaríkjanna. Þetta var tilkynnt í lok september og síðan þá hafa stjórnendur bandarískra og evrópskra flugfélaga tjáð sig um margfalda eftirspurn eftir flugmiðum.

Lufthansa gaf það út um lok september að sala á flugi til Bandaríkjanna hefði þrefaldast og þá helst á ferðum til New York og Flórída. Forstjórar bandarísku flugfélaganna Delta og JetBlue hafa sagt að eftirspurn eftir flugi yfir Norður-Atlantshafið hafi tífaldast. Fleiri dæmi má finna um sambærilegar yfirlýsingar.

Þegar forsvarsfólk Icelandair er spurt hvort sala á flugi til og frá Bandaríkjunum hafi tekið kipp að undanförnu þá er svarið á þá leið að ekki sé hægt að ræða í stöðuna þar sem félagið sé skráð á hlutabréfamarkað. Það má því ljóst vera að hluthafar erlendu flugfélaganna hafi mun betri sýn á gang mála í dag en hluthafar Icelandair.

Túristi beindi því þeirri spurningu til Kauphallarinnar hvort eðlilegt sé að Icelandair deili ekki þessu upplýsingum með markaðnum. Í svarinu segir að talsmönnum flugfélagsins ætti að vera frjálst að tjá sig án athugasemda frá Kauphöllinni eða Fjármálaeftirlitinu ef Icelandair metur upplýsingar um sölu á Bandaríkjaferðum ekki sem innherjarupplýsingar.

Þetta svar er ekki hægt að skilja öðruvísi en á þann veg að stjórnendur Icelandair megi ræða farmiðasöluna, annað hvort beint í fjölmiðlum eða þá í kauphallartilkynningum. Þeir kjósa hins vegar frekar að segja sem allra minnst. Og breyta ekki út af vananum þegar framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála félagsins segir starfi sínu lausu akkúrat þegar helsti markaður flugfélagsins er að opnast á ný.

Þess má geta að strax eftir ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að opnan landamærin þá fjölgaði Icelandair ferðunum til Flórída líkt og lesendur Túrista vita. Síðan þá hafa fargjöldin hjá Icelandair til Orlandó, í nóvember og desember, samt í raun ekkert hækkað. En sem fyrr segir þá hefur sala á flugi til Flórída aukist sérstaklega mikið hjá Lufthansa.

Snúum okkur að Play

Hlutabréf þess flugfélags voru skráð á First North markaðinn í byrjun júlí. Nokkrum dögum áður lét forstjóri félagsins hafa það eftir sér að nú þegar hefði helmingur allra sæta í ferðir félagsins í júlí verið bókaður. Það kom svo á daginn að sætanýtingin í mánuðinum var rétt 42 prósent. Í tilkynningu hampaði Play því í staðinn að vera stundvísasta flugfélagið á landinu. Stærsta hluta júlímánaðar var félagið hins vegar bara með eina flugvél og umsvifin því lítil.

Og sætanýtingin hjá Play náði fyrst fimmtíu prósenta markinu nú í september. Þá sagði í fréttatilkynningu frá félaginu að betri sætanýting „endurspeglaði aðlögun félagsins á framboði í flugáætlun í september og aukna eftirspurn.“ Þessi aðlögum var í raun niðurskurður á hluta af ferðum félagsins til London, Parísar og Berlínar. Farþegahópurinn í september var því tólf prósent fámennari en í ágúst. Á það var ekki minnst í tilkynningunni og reyndar sagði í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar að betri sætanýting skrifaðist á aukna eftirspurn.

Og nú þegar Play hefur verið í loftinu í rúma þrjá mánuði er orðið ljóst að farþegarnir í ár verða ekki eins margir og fjárfestum var kynnt í tengslum við hlutafjárútboð félagsins í júní sl. Sætanýtingin í ferðum Play hefur nefnilega verið umtalsvert frá þeim 72 prósentum sem horft var til. Samskiptastjóri flugfélagsins hefur reyndar sagt að ekki sé lengur horft til þessa hlutfalls.

Hjá Play fást engin svör um hvaða áhrif færri farþegar hafa á tekjuáætlunina og hvort tapið í ár verði þá umfram þá tæpu tvo milljarða króna. sem lagt var upp með. Samskiptastjóri Play vísar einfaldlega til skráningar á hlutabréfamarkað þegar spurt er um afleiðingar þess að farþegarnir verði umtalsvert færri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Það má þó spyrja sig hvort það væri nokkuð mál fyrir stjórnendur Play að gefa það út að ennþá sé raunhæft að áætlunin sem fjárfestum var kynnt muni ganga upp. Það gera þeir þó ekki.

Ef tekjuáætlunin er hins vegar farin út af sporinu þá ættu stjórnendur Play að upplýsa um það samkvæmt því sem lesa má úr svari Kauphallarinnar við fyrirspurn Túrista um málið. Þar segir: „Ef mat félags er á þá leið á áður útgefnum fjárhagsáætlunum verði ekki náð og frávikið þess eðlis að um innherjaupplýsingar sé að ræða þá þarf félag að upplýsa markaðinn með opinberlega birtri tilkynningu.“

Þess má geta í lokin að nú styttist í að flugfélögin tvö birti uppgör sín fyrir þriðja ársfjórðung. Þá fæst betri sýn á stöðu flugfélaganna tveggja sem margir fjárfestar hafa veðjað á.

Nýtt efni

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …