Samfélagsmiðlar

Feluleikur íslensku flugfélaganna í Kauphöllinni

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar og Birgir Jónsson, forstjóri PLAY.

Íslenskir fjárfestar og lífeyrissjóðir hafa lagt tugi milljarða króna í rekstur Icelandair og Play síðastliðið ár. Upplýsingagjöf félaganna tveggja er þó ekki til fyrirmyndar eins og þessi nýjustu dæmi eru vísbending um.

Byrjum á Icelandair

Frá og með byrjun næsta mánaðar fá bólusettir Evrópubúar að ferðast til Bandaríkjanna. Þetta var tilkynnt í lok september og síðan þá hafa stjórnendur bandarískra og evrópskra flugfélaga tjáð sig um margfalda eftirspurn eftir flugmiðum.

Lufthansa gaf það út um lok september að sala á flugi til Bandaríkjanna hefði þrefaldast og þá helst á ferðum til New York og Flórída. Forstjórar bandarísku flugfélaganna Delta og JetBlue hafa sagt að eftirspurn eftir flugi yfir Norður-Atlantshafið hafi tífaldast. Fleiri dæmi má finna um sambærilegar yfirlýsingar.

Þegar forsvarsfólk Icelandair er spurt hvort sala á flugi til og frá Bandaríkjunum hafi tekið kipp að undanförnu þá er svarið á þá leið að ekki sé hægt að ræða í stöðuna þar sem félagið sé skráð á hlutabréfamarkað. Það má því ljóst vera að hluthafar erlendu flugfélaganna hafi mun betri sýn á gang mála í dag en hluthafar Icelandair.

Túristi beindi því þeirri spurningu til Kauphallarinnar hvort eðlilegt sé að Icelandair deili ekki þessu upplýsingum með markaðnum. Í svarinu segir að talsmönnum flugfélagsins ætti að vera frjálst að tjá sig án athugasemda frá Kauphöllinni eða Fjármálaeftirlitinu ef Icelandair metur upplýsingar um sölu á Bandaríkjaferðum ekki sem innherjarupplýsingar.

Þetta svar er ekki hægt að skilja öðruvísi en á þann veg að stjórnendur Icelandair megi ræða farmiðasöluna, annað hvort beint í fjölmiðlum eða þá í kauphallartilkynningum. Þeir kjósa hins vegar frekar að segja sem allra minnst. Og breyta ekki út af vananum þegar framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála félagsins segir starfi sínu lausu akkúrat þegar helsti markaður flugfélagsins er að opnast á ný.

Þess má geta að strax eftir ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að opnan landamærin þá fjölgaði Icelandair ferðunum til Flórída líkt og lesendur Túrista vita. Síðan þá hafa fargjöldin hjá Icelandair til Orlandó, í nóvember og desember, samt í raun ekkert hækkað. En sem fyrr segir þá hefur sala á flugi til Flórída aukist sérstaklega mikið hjá Lufthansa.

Snúum okkur að Play

Hlutabréf þess flugfélags voru skráð á First North markaðinn í byrjun júlí. Nokkrum dögum áður lét forstjóri félagsins hafa það eftir sér að nú þegar hefði helmingur allra sæta í ferðir félagsins í júlí verið bókaður. Það kom svo á daginn að sætanýtingin í mánuðinum var rétt 42 prósent. Í tilkynningu hampaði Play því í staðinn að vera stundvísasta flugfélagið á landinu. Stærsta hluta júlímánaðar var félagið hins vegar bara með eina flugvél og umsvifin því lítil.

Og sætanýtingin hjá Play náði fyrst fimmtíu prósenta markinu nú í september. Þá sagði í fréttatilkynningu frá félaginu að betri sætanýting „endurspeglaði aðlögun félagsins á framboði í flugáætlun í september og aukna eftirspurn.“ Þessi aðlögum var í raun niðurskurður á hluta af ferðum félagsins til London, Parísar og Berlínar. Farþegahópurinn í september var því tólf prósent fámennari en í ágúst. Á það var ekki minnst í tilkynningunni og reyndar sagði í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar að betri sætanýting skrifaðist á aukna eftirspurn.

Og nú þegar Play hefur verið í loftinu í rúma þrjá mánuði er orðið ljóst að farþegarnir í ár verða ekki eins margir og fjárfestum var kynnt í tengslum við hlutafjárútboð félagsins í júní sl. Sætanýtingin í ferðum Play hefur nefnilega verið umtalsvert frá þeim 72 prósentum sem horft var til. Samskiptastjóri flugfélagsins hefur reyndar sagt að ekki sé lengur horft til þessa hlutfalls.

Hjá Play fást engin svör um hvaða áhrif færri farþegar hafa á tekjuáætlunina og hvort tapið í ár verði þá umfram þá tæpu tvo milljarða króna. sem lagt var upp með. Samskiptastjóri Play vísar einfaldlega til skráningar á hlutabréfamarkað þegar spurt er um afleiðingar þess að farþegarnir verði umtalsvert færri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Það má þó spyrja sig hvort það væri nokkuð mál fyrir stjórnendur Play að gefa það út að ennþá sé raunhæft að áætlunin sem fjárfestum var kynnt muni ganga upp. Það gera þeir þó ekki.

Ef tekjuáætlunin er hins vegar farin út af sporinu þá ættu stjórnendur Play að upplýsa um það samkvæmt því sem lesa má úr svari Kauphallarinnar við fyrirspurn Túrista um málið. Þar segir: „Ef mat félags er á þá leið á áður útgefnum fjárhagsáætlunum verði ekki náð og frávikið þess eðlis að um innherjaupplýsingar sé að ræða þá þarf félag að upplýsa markaðinn með opinberlega birtri tilkynningu.“

Þess má geta í lokin að nú styttist í að flugfélögin tvö birti uppgör sín fyrir þriðja ársfjórðung. Þá fæst betri sýn á stöðu flugfélaganna tveggja sem margir fjárfestar hafa veðjað á.

Nýtt efni

„Við erum á lokametrunum í undirbúningi og opnum vonandi í september," segir Inga Harðardóttir, framkvæmdastjóri Flóra hotels, um nýtt íbúðahótel á vegum Reykjavik Residence við Vatnsstíg. Á nýja hótelinu verða 26 íbúðir í nýuppgerðum fasteignum milli Laugavegs og Hverfisgötu en Reykjavik Residence rekur íbúðahótel á nokkrum stöðum í miðborginni. Flóra hotels, móðurfélag Reykjavík Residence, rekur …

Níunda fjórðunginn í röð lækkar verð á notuðum lúxus úrum og verðlækkun ársins nemur 1,2 prósentum, samkvæmt fjárfestingabankanum Morgan Stanley sem vel fylgist með verðþróuninni. Dýrustu úrin hafa lækkað ennþá meira og þannig hefur verðið á notuðu Rolex farið niður um 7,2 prósent síðastliðna 12 mánuði. Morgan Stanley gerir ráð fyrir að þessi verðþróun verði …

Rekstrarafkoma Play var neikvæð um 2,9 milljarða króna í fyrra og svo bættust við rúmir þrír milljarðar í fjármagnskostnað. Tapið fyrir skatt nam því 6,3 milljörðum króna. Afkomuspáin fyrir yfirstandandi ár gerði ráð fyrir að rekstrarafkoman yrði í kringum núllið en nú hefur staðan versnað og reiknað er með neikvæðri afkomu. Þetta kemur fram í …

Verð á hlutabréfum í þýska rafhlöðuframleiðandanum Varta hrundi við opnun markaðar í Frankfurt í dag, eða um nærri 80%, eftir að fréttir bárust af tillögum um endurskipulagningu fyrirtækisins. Þær myndu leiða til þess að hlutabréf núverandi eigenda yrðu nánast verðlaus.  Meðal þess sem að rætt er um er að núverandi meirihlutaeigandi, austurríski milljarðamæringurinn Nichael Tojner, …

Meðal þess sem kom í ljós eftir Covid-19-faraldurinn var að starfsfólk skorti í vaxandi ferðaþjónustu víða um heim. Faraldurinn truflaði gangverk vinnumarkaðar margra landa og sér ekki fyrir endann á því. Skortur á starfsfólki gæti hamlað vexti í greininni. Ætli megi ekki segja að fólk vilji fremur ferðast en þjóna öðrum? Vandræði eru á mörgum …

Íslandssjóðir eru ekki lengur meðal 20 stærstu hluthafa Icelandair en sjóðastýringafyrirtækið, sem er í eigu Íslandsbanka, varð stærsti hluthafinn í Play eftir hlutafjáraukningu í apríl sl. Íslandssjóðir hafa síðustu mánuði dregið töluvert úr fjárfestingu sinni í Icelandair og eru ekki lengur meðal tuttugu stærstu hluthafanna. Nú eru aftur á móti tvö eignarhaldsfélög á vegum Högna …

Ekkert félag flýgur fleirum innan Evrópu en lágfargjaldaflugfélagið Ryanair gerir og síðustu mánuði hafa farþegar félagsins að jafnaði borgað minnað fyrir sætin en þeir sem voru á ferðinni í fyrra. Tekjur félagsins lækkuðu þannig á milli ára samkvæmt uppgjöri sem félagið birti í morgun fyrir fjórðunginn apríl til júní. Sá er fyrsti fjórðungur reikningsársins hjá …

BYD

Kínverski rafbílaframleiðandinn BYD lækkaði verð á bílum sínum á íslenska markaðnum í ársbyrjun þegar dregið var úr opinberum stuðningi við kaup á nýjum rafbílum. Þar með gat Vatt, sem er með umboð fyrir BYD hér á landi, boðið ódýrustu tegundina á lægra verði en í fyrra að því gefnu að kaupandinn fái hinn nýja rafbílastyrk …