Samfélagsmiðlar

Ekki öruggt að afköst ferðaþjónustunnar haldi í við áform flugfélaganna

Gisting út á land í sumar er víða af skornum skammti og hætt við að margir ferðamenn borgi of mikið miðað við gæði. Hærra verð á bílaleigubílum fælir ekki frá.

Ferðamenn við Námaskarð.

Það stefnir í að framboð á flug um Keflavíkurflugvöll í sumar verði á pari við það sem var sumarið 2019. Þetta sýna talningar Túrista sem byggja á þeim flugferðum sem eru í sölu í dag og hins vegar raunverulegum fjölda áætlunarferða yfir sumarvertíðina fyrir þremur árum síðan.

Þá voru ferðamennirnir í heildina 678 þúsund yfir sumarmánuðina þrjá.

Hvort álíka margir skili sér í þotunum í sumar á eftir að koma í ljós en nú þegar eru merki um það verði áskorun að taka á móti svo mörgum ferðamönnum. Alla vega ef stór hluti þeirra vill gista annars staðar en í Reykjavík.

„Staðan í dag er sú að víða út á landi er gisting af mjög skornum skammti eða svo til uppseld yfir hásumarið. Þetta á til mynda við á Suðurlandi og Vestfjörðum. Þeir sem eru að skipuleggja hringferð um landið í sumar eiga því erfiðleikum með að finna hentuga gistingu. Verðlagið er líka hátt í mörgum tilfellum og því hætt við að margir borgi of mikið miðað við gæði. Ísland er þó hvergi nærri uppselt í sumar. Það er til að mynda næga gistingu að fá höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ásberg Jónsson, forstjóri Travel Connect, móðurfélags ferðaskrifstofanna Iceland Travel, Nordic Visitor og Terra Nova.

Gæti orðið erfitt að veita öllum þjónustu

Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Bændaferða og Hey Iceland, tekur í sama streng og segir það alveg ljóst að víða sér fari að þrengja að. Þannig sé útlit fyrir að erfitt verði að bóka gistingu fyrir samfellt ferðalag um landið í sumar. Sævar segist hafa áhyggjur af því að ekki verði hægt að þjónusta alla þá flugfarþega sem komast til landsins í sumar. Alla vega miðað við núverandi framboð á flugi.

Verðlag fælir ekki frá

Almenningssamgöngur hér á landi eru takmarkaðri en víða þekkist og sérstaða Keflavíkurflugvallar er sú að þar er ekkert innanlandsflug í boði. Öfugt við það sem tíðkast á alþjóðaflugvöllum í löndunum í kringum okkur.

Þessar takmarkanir eru líklega ein skýring á því afhverju stór hluti ferðamanna hér á landi leigir sér bíl. Niðurstöður könnunar Ferðamálastofu árið 2019 sýndu til að mynda að sex af hverjum tíu ferðamönnum ferðuðust um á bílaleigubíl.

Verðlagið á bílaleigunum við Keflavíkurflugvöll er aftur á móti nokkru hærra í dag en það var fyrir þremur árum síðan. Hækkunin skrifast meðal annars á skort á bílum, ekki bara hér á Íslandi heldur víða um heim.

Verðlagið er þó ekki farið að hafa neikvæð áhrif á bókanir að mati Sigfúsar Sigfússonar, forstjóra Hertz á Íslandi. Hann segir bókanir vera mjög margar nú í vor, sumar og haust og hætt sé við því að uppselt verði á einhverjum tímum í júlí og ágúst. „Við hefðum viljað hafa fleiri bíla en þeir fást bara ekki,“ bæti Sigfús við.

Hjá Bílaleigu Akureyrar er ennþá til nóg af bílum í flestum flokkum í sumar og gengið hefur bærilega að fá nýja þó það mætti ganga betur að sögn Steingríms Birgissonar, forstjóra. Hann segir leiguverð alls ekki fæla neinn frá og bendir á að nú komi inn fleiri bókanir á dag en árið 2019.

Líklega offjárfesting ef aldrei er uppselt

„Ég er ekkert viss um að Ísland verði „ uppselt“ í svo langan tíma og ef það gerist þá vænti ég þess að það verði með stuttum fyrirvara. Það er í raun er ekkert að því að verða uppbókuð í smá tíma. Það væri óeðlilegt ef gisting, bílar eða önnur fjárfrek starfsemi verði ekki uppseld yfir stutt tímabil. Ef það gerist ekki þá er líklega um offjárfestingu í viðkomandi grein að ræða,“ útskýrir Steingrímur

Sem fyrr segir þá komu tæplega sjö hundruð þúsund ferðamenn til Íslands yfir sumarmánuðina þrjá árið 2019. Sumarið áður voru þeir um 800 þúsund enda hélt Wow Air þá úti víðtæku leiðakerfi en rekstur þess stöðvaðist í mars 2019.

Nýtt efni

Borgaryfirvöld í Lissabon hafa samþykkt að hækka gistináttagjald úr 2 í 4 evrur. Gjaldtaka nær ekki til tjaldstæða. Þá hefur komugjald á skipafarþega verið hækkað úr 1 í 2 evrur. Tillaga um að hækka það gjald í 4 evrur var felld.  Lusa-fréttastofan hefur eftir Carlos Moedas, borgarstjóra, að það sé „sanngjarnt fyrir borgina og íbúa …

MYND: ÓJ

Kínverskir ferðamenn hafa verið töluvert áberandi í Reykjavík og víðar um land í vor. Auðvitað er fólk af kínverskum uppruna búsett um allan heim og eitthvað af því fer í Íslandsferðir en þeim hefur snarfjölgað sem koma hingað alla leið frá Alþýðulýðveldinu Kína. Samkvæmt talningu Ferðamálastofu á Keflavíkurflugvelli komu hingað í marsmánuði 8.642 Kínverjar og …

Brasilíski flugframleiðandinn Embraer greinir frá góðum gangi í pöntunum og afhendingu véla á fyrstu mánuðum ársins. Mestur var fögnuðurinn í höfuðstöðvunum í São José dos Campos þegar American Airlines staðfesti kaup á 90 farþegaþotum af gerðinni E175, sem verða notaðar í innanlandsflugi og eru hluti af stórri endurnýjun flugflota félagsins. E175 eru meðaldrægar vélar, oftast …

Faxaflóahafnir héldu vorfund sinn fyrir helgi til að kynna fyrirtækjum í ferðaþjónustu skipulag sumarsins við móttöku skemmtiferðaskipa, sem tekur mið af því raski sem verður vegna byggingar farþegamiðstöðvar Faxaflóahafna. Þeim framkvæmdum á að ljúka að tveimur árum liðnum, eins og FF7 greindi nýverið frá. Fram kom á fundinum að gert er ráð fyrir rúmlega 308 …

Fréttaveitan Bloomberg sagði frá því á dögunum að mikil úlfúð ríkti í alþjóðlegu kolefnisvottunarsamtökunum Science Based Targets initiatives, eða SBTi.  Fyrirtæki um allar koppagrundir hafa lengi reitt sig á vottanir frá SBTi þegar þau hafa fullyrt að þau stefni að kolefnishlutleysi.  Yfirleitt er kannski lítil ástæða til þess að fólk kippi sér upp við slæman starfsanda og …

Þegar lent er á flugvelli á ESB-svæðinu bíður farþeganna ekki verslun með tollfrjálsan varning við töskubeltin. Þess háttar er aðeins í boði fyrir brottför. Í Evrópuríkjum utan ESB gefst hins vegar tækifæri til að kaupa ódýrara áfengi við komuna eins og við þekkjum frá Keflavíkurflugvelli. Þeir sem nýta tollinn sinn þar til að kaupa léttvín …

Þrjár þotur Loftleiða munu næstu misseri fljúga viðskiptavinum erlendra ferðaskrifstofa hringinn í kringum heiminn. Um borð eru sætin stærri og færri en í hefðbundnu áætlunarflugi enda kostar ferðalagið skildinginn. Hver farþegi borgar 25 milljónir fyrir ferðalag líkt og farið var yfir í fréttum Stöðvar 2.  Það er ekkert nýtt að Icelandair leigi þotu og áhöfn í …