Samfélagsmiðlar

Hitnar í kolunum

Bresk ferðaskrifstofa veðjar á að kostnaðarvitund þeirra sem hræðast spár um hrikalega orkureikninga í vetur beini þeim í hlýindi á suðlægum slóðum

Vetrarferðalangar leggja að á La Gomera á Kanaríeyjum

Breska ferðaskrifstofan TravelTime World hóf á dögunum nýja markaðsherferð með tvíræðri yfirskrift: The Heat is On. Þrátt fyrir orkukreppuna má njóta yls í heitu löndunum og svo er í þessu óeiginleg merking: „það hitnar í kolunum” eða „nú færist fjör í leikinn.” Þetta auglýsingaskrúð er kannski ekki sérlega smekklegt á þessum óvissutímum. Árásarstríð Rússa á hendur Úkraínumönnum hefur leitt til orkukreppu í Evrópu. Það blasir við að veturinn verði mörgum erfiður, kaldur og kostnaðarsamur.

Skjáskot af vefsíðu TravelTime World

Í kynningartexta þessarar herferðar bresku ferðaskrifstofunnar er hugsanlegur viðskiptavinur hvattur til að hugleiða hvort hann eigi ekki skilið að hlýja sér í sólinni í vetur eftir að hafa þolað tveggja ára heimsfaraldur og eiga nú fyrir höndum að borga himinháa orkureikninga til að þrauka breska kuldatíð. Bent er á að reikningar fyrir gas og rafmagn eigi eftir að hækka sexfalt í komandi orkukreppu. Tölur sem nefndar eru ekki áreiðanlegar, aðeins byggðar á spádómum, en ekki er ólíklegt að ársreikningar meðal heimilis í Bretlandi fyrir orkunotkun fari vel yfir sem svarar 1,1 milljón íslenskra króna.

Þá færi nú betur um fólk ef það flygi burt úr nepjunni og illa kyntum híbýlum Bretlandseyja til Möltu á ylvolgu Miðjarðarhafi, Suður-Spánar eða Portúgals, segir breska ferðaskrifstofuliðið. Það ætti að koma út á nokkurn veginn jöfnu að borga fyrir flug þangað suðureftir og gistingu þar eins og það kostar að halda á sér yl og njóta sæmilegrar birtu í íbúðinni heima í Bretlandi. Bent er á það í veffréttum frönsku sjónvarpsstöðvarinnar Euronews, sem er með höfuðstöðvar í Lyon, að enn hlýrri staðir eins og Kanaríeyjar séu hinsvegar dýrari.

Baðströnd í Portúgal – Mynd: ÓJ

Íslendingar ætla einmitt að þyrpast þúsundum saman fyrir jólin til Kanaríeyja, eins og Túristi hefur sagt frá. Fyrir jólin býður Icelandair upp á allt að þrjár brottfarir á dag til Tenerife. Samtals verða ferðir Icelandair til Tenerife 20 á tímabilinu 13. til 23. desember. Play gerir ráð fyrir sex ferðum þangað fyrir jólin, Ferðaskrifstofa Íslands, sem rekur m.a. Heimsferðir og Úrval-Útsýn, býður upp á fjórar ferðir og Niceair ætlar að fara í tvær ferðir frá höfuðstað Norðurlands til Tenerife. Í heildina verða ferðirnar því 32 talsins.

Íslendingurinn er hinsvegar ekki að flýja undan háum orkureikningi heldur myrkri og kuldatíð – og til að verðlauna sig eftir heldur svalt og sólarlítið sumar. Lágir orkureikningar á Íslandi eru meðal þess sem gerir meðaltekjufólki einmitt kleift að kaupa vetrarferð á hlýrri slóðir. Euronews hefur eftir Ashley Quint, ferðaskipuleggjanda hjá TravelTime World, að ef fólk kaupi miða í langflug, sem nú eru dýrir, verði það að fara til langrar dvalar – láta lágan kostnað af uppihaldi vega upp á móti dýrum fargjöldunum. Þetta geti t.d. átt við ferðir til Tælands. 

En ætli það sé líklegt að Bretar eða aðrir Norður-Evrópubúar hópist í vetur til fjarlægra og hlýrri landa á flótta undan orkureikningum heima fyrir? Ekki er hægt að skrúfa alveg fyrir hitann án þess að eiga á hættu skemmdir á húsnæðinu fyrr eða síðar. Þá fer því auðvitað fjarri að allir eigi kost á því að láta sig hverfa til annars lands eða ráði við að greiða út í hönd fyrir flugmiða og gistingu til langs tíma. Euronews veltir fyrir sér hvort þetta gæti þó helst átt við eldri borgara og vaxandi hóp fólks sem stundar fjarvinnu. Það gæti verið freistandi fyrir það fólk að forða sér í sólina með tölvuna og símann í lengri tíma en venjulega.

En hvað sem um þetta framtak bresku ferðaskrifstofunnar má segja þá geta Bretar og aðrir Norður-Evrópubúar ekki flúið afleiðingar orkuverðskrísunnar með því einfaldlega að skella sér í sólarlandaferð.

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …