Samfélagsmiðlar

Hitnar í kolunum

Bresk ferðaskrifstofa veðjar á að kostnaðarvitund þeirra sem hræðast spár um hrikalega orkureikninga í vetur beini þeim í hlýindi á suðlægum slóðum

Vetrarferðalangar leggja að á La Gomera á Kanaríeyjum

Breska ferðaskrifstofan TravelTime World hóf á dögunum nýja markaðsherferð með tvíræðri yfirskrift: The Heat is On. Þrátt fyrir orkukreppuna má njóta yls í heitu löndunum og svo er í þessu óeiginleg merking: „það hitnar í kolunum” eða „nú færist fjör í leikinn.” Þetta auglýsingaskrúð er kannski ekki sérlega smekklegt á þessum óvissutímum. Árásarstríð Rússa á hendur Úkraínumönnum hefur leitt til orkukreppu í Evrópu. Það blasir við að veturinn verði mörgum erfiður, kaldur og kostnaðarsamur.

Skjáskot af vefsíðu TravelTime World

Í kynningartexta þessarar herferðar bresku ferðaskrifstofunnar er hugsanlegur viðskiptavinur hvattur til að hugleiða hvort hann eigi ekki skilið að hlýja sér í sólinni í vetur eftir að hafa þolað tveggja ára heimsfaraldur og eiga nú fyrir höndum að borga himinháa orkureikninga til að þrauka breska kuldatíð. Bent er á að reikningar fyrir gas og rafmagn eigi eftir að hækka sexfalt í komandi orkukreppu. Tölur sem nefndar eru ekki áreiðanlegar, aðeins byggðar á spádómum, en ekki er ólíklegt að ársreikningar meðal heimilis í Bretlandi fyrir orkunotkun fari vel yfir sem svarar 1,1 milljón íslenskra króna.

Þá færi nú betur um fólk ef það flygi burt úr nepjunni og illa kyntum híbýlum Bretlandseyja til Möltu á ylvolgu Miðjarðarhafi, Suður-Spánar eða Portúgals, segir breska ferðaskrifstofuliðið. Það ætti að koma út á nokkurn veginn jöfnu að borga fyrir flug þangað suðureftir og gistingu þar eins og það kostar að halda á sér yl og njóta sæmilegrar birtu í íbúðinni heima í Bretlandi. Bent er á það í veffréttum frönsku sjónvarpsstöðvarinnar Euronews, sem er með höfuðstöðvar í Lyon, að enn hlýrri staðir eins og Kanaríeyjar séu hinsvegar dýrari.

Baðströnd í Portúgal – Mynd: ÓJ

Íslendingar ætla einmitt að þyrpast þúsundum saman fyrir jólin til Kanaríeyja, eins og Túristi hefur sagt frá. Fyrir jólin býður Icelandair upp á allt að þrjár brottfarir á dag til Tenerife. Samtals verða ferðir Icelandair til Tenerife 20 á tímabilinu 13. til 23. desember. Play gerir ráð fyrir sex ferðum þangað fyrir jólin, Ferðaskrifstofa Íslands, sem rekur m.a. Heimsferðir og Úrval-Útsýn, býður upp á fjórar ferðir og Niceair ætlar að fara í tvær ferðir frá höfuðstað Norðurlands til Tenerife. Í heildina verða ferðirnar því 32 talsins.

Íslendingurinn er hinsvegar ekki að flýja undan háum orkureikningi heldur myrkri og kuldatíð – og til að verðlauna sig eftir heldur svalt og sólarlítið sumar. Lágir orkureikningar á Íslandi eru meðal þess sem gerir meðaltekjufólki einmitt kleift að kaupa vetrarferð á hlýrri slóðir. Euronews hefur eftir Ashley Quint, ferðaskipuleggjanda hjá TravelTime World, að ef fólk kaupi miða í langflug, sem nú eru dýrir, verði það að fara til langrar dvalar – láta lágan kostnað af uppihaldi vega upp á móti dýrum fargjöldunum. Þetta geti t.d. átt við ferðir til Tælands. 

En ætli það sé líklegt að Bretar eða aðrir Norður-Evrópubúar hópist í vetur til fjarlægra og hlýrri landa á flótta undan orkureikningum heima fyrir? Ekki er hægt að skrúfa alveg fyrir hitann án þess að eiga á hættu skemmdir á húsnæðinu fyrr eða síðar. Þá fer því auðvitað fjarri að allir eigi kost á því að láta sig hverfa til annars lands eða ráði við að greiða út í hönd fyrir flugmiða og gistingu til langs tíma. Euronews veltir fyrir sér hvort þetta gæti þó helst átt við eldri borgara og vaxandi hóp fólks sem stundar fjarvinnu. Það gæti verið freistandi fyrir það fólk að forða sér í sólina með tölvuna og símann í lengri tíma en venjulega.

En hvað sem um þetta framtak bresku ferðaskrifstofunnar má segja þá geta Bretar og aðrir Norður-Evrópubúar ekki flúið afleiðingar orkuverðskrísunnar með því einfaldlega að skella sér í sólarlandaferð.

Nýtt efni
Arnar Guðmundsson, Íslandsstofu

Íslandsstofa vinnur að því að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland, kemur íslenskum fyrirtækjum á framfæri á erlendri grundu og liðkar til eftir bestu getu fyrir erlendri fjárfestingu á fimm sviðum atvinnulífs: orku og grænum lausnum, sjávarútvegi og matvælaframleiðslu, hugviti og tækni, listum og skapandi greinum - og loks ferðaþjónustu. Allt byggist þetta á útflutningsstefnu landsins, sem …

Það voru 27.293 starfandi í einkennandi greinum ferðaþjónustu hér á landi í mars 2024 sem er aukning um 2 prósent frá sama tíma í fyrra en 2 prósent færri í samanburði við mars 2018. Það ár voru ferðamenn hér flestir en gert er ráð fyrir álíka ferðamannastraumi í ár. Vægi starfsfólks með íslenskan bakgrunn er …

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur slitið viðræðum við franska Renault um að þróa og smíða saman nýja gerð af rafknúnum smábíl á viðráðanlegu verði, sem keppt gæti við ódýrustu kínversku bílana. Hugmyndin var sú að bíllinn yrðu byggður á grunni Twingo-smábílsins frá Renault. Renault hyggst nú upp á eigin spýtur þróa Twingo áfram sem rafbíl og …

„Pittsburgh flugið fer vel af stað og er ánægjulegt að sjá að farþegar frá 25 Evrópulöndum hafa bókað flug með okkur til Pittsburgh um Ísland og þaðan hafa farþegar bókað flug til 30 áfangastaða Evrópumegin," sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilefni af fyrstu áætlunarferð flugfélagsins til bandarísku borgarinnar á fimmtudaginn. Forstjórinn lagði um …

Undirbúningur er á lokastigi um að koma á fót ævintýramiðstöð á Suðurlandi, þar sem gistiaðstaða og þjónusta verður tengd þjónustu, gönguferðum og útivist ævintýragjarnra ferðamanna. Ferðafólk, statt við Skógafoss, í ævintýraleit á Suðurlandi - MYND: ÓJ „Það koma stundum mjög athyglisverð verkefni, eins og þegar reynslumikill aðili úr ævintýraferðaþjónustu, sem hefur verið í slíkum rekstri …

Það er auðvitað eðlilegt að Barselóna, höfuðborg Katalóníu, dragi til sín mikinn fjölda ferðafólks. Borgin er fögur, sögurík og spennandi - en líka dálítið þreytt orðin á öllum þessum vinsældum, hömlulausum gestaganginum. Á síðasta ári gistu yfir 12 milljónir manna borginni, um sjö prósentum færri en 2019. Við bætast síðan allir þeir sem koma í …

Argentíski víniðnaðurinn hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna óðaverðbólgu, óstöðugs gengis og minnkandi útflutnings. Það virðist þó heldur vera að lyftast brúnin á vínframleiðendum og virðast þeir helst þakka það harkalegri aðhaldsstefnu öfgakennda frjálshyggjumannsins Javier Milei, sem tók við forsetaembættinu í Argentínu í desember. Það tók strax að hægja á verðbólgu á fyrstu mánuðum …

Árið 2023 var 4.240 bókum bætt á lista yfir bannaðar bækur í Bandaríkjunum. Aldrei fyrr hafa jafn margar bækur verið bannaðar á einu ári. En á síðustu árum hefur þeim bókum sem settar eru á þennan bannlista fjölgað ár frá ári. Afleiðingin er sú að aðgengi að bókunum er takmarkað og þær eru fjarlægðar af …