Beiðni SAS flugfélagsins um gjaldþrotavernd var tekin fyrir í dómstól í New York í vikunni og það færðist spenna í leikinn þegar dómarinn lýsti efasemdum sínum um nærri 100 milljarða króna lán sem fleyta á félaginu í gegnum hið svokallaða Chapter-11 ferli. Dómarinn taldi lánaskilmálana ósanngjarna þar sem lánveitandinn fær forkaupsrétt á þrjátíu prósent hlut í flugfélaginu. Hærri tilboð verða þá útilokuð og sagðist dómarinn óttast það fordæmi sem þarna væri gefið.
Lögmenn SAS vörðu svo gærdeginum í að reyna sannfæra dómarann um að flugfélagið hafi í raun ekki átt neinn annan valkost. Það hafi einfaldlega enginn annar verið reiðubúinn að lána alla þessa milljarða til að halda rekstrinum gangandi á meðan greiðslustöðvunin gildir. En reiknað er með að fjárhagsleg endurskipulagning SAS muni taka 9 til 12 mánuði. Að þeim tíma liðnum getur flugfélagið í fyrsta lagi afsalað sér verndinni sem Chapter-11 veitir gagnvart kröfuhöfum.
Það er skemmst frá því að segja að dómarinn féllst á rök lögmanna SAS og þar með er félagið komi skrefi nær því að fá hina bandarísku gjaldþrotavernd en stjórnendur flugfélagsins mátu það ákjósanlegra að fara þessa leið vestanhafs en í Skandinavíu.