Samfélagsmiðlar

Þar sem allir brosa

Barnafjölskylda ofan af Íslandi fór í minnisstætt 30 stunda ferðalag til Filippseyja fyrir jólin. Fjölskyldufaðirinn Sigurður Tómas Björgvinsson, ráðgjafi, segir Túrista frá ferðinni á þessar slóðir þar sem ferðaþjónusta er fremur vanþróuð en íbúarnir brosandi og vingjarnlegir.

Siggi og Marianie

Sigurður Tomas og Marianie á Filippseyjum

Það er alltaf áhugavert að heyra af ferðum landa okkar á fjarlægar slóðir. Um hávetur sækjast æ fleiri eftir því að komast í mildara loftslag og meiri birtu. Flestir láta sér þá duga að fara til Tenerife eða annarra Kanaríeyja en alltaf heyrir maður sögur af einhverjum sem fara miklu lengra – til enn fjarlægari slóða.

Túristi frétti af því að Sigurður Tómas Björgvinsson, ráðgjafi, hefði farið alla leið til Filippseyja fyrir jól ásamt eiginkonu sinni Marianie Agua, sem ættuð er frá Filippseyjum, og tveimur börnum þeirra: Tómasi Daníel, 20 mánaða, og Aron Blæ, átta mánaða. 

Cebu á Filippseyjum – Unsplash/Zany Jadraque

„Ferðin til Filippseyja tók hátt í 30 tíma, með tveimur millilendingum og töfum á öllum flugferðum. Við flugum frá Íslandi til Amsterdam og þurftum að bíða þar í sjö tíma. Þá tók við 10 tíma flug til Seúl í Suður-Kóreu. Þar biðum við í fjóra tíma. Síðasti leggurinn var svo til Cebu-borgar á Filippseyjum, sem er gamla höfuðborgin og sú næst stærsta á eyjunum. Þetta var auðvitað óvenjuleg ferð, bæði vegna lengdarinnar og ekki síður af því að við vorum með tvo syni okkar, báða undir tveggja ára aldri. Þeir bræður áttu ekki rétt á sætum en við vorum svo heppin að þeir fengu báðir að nota aukasæti á leið til Amsterdam og þaðan til Seúl. Í fluginu frá Seúl til Filippseyja þurftu þeir hinsvegar að sitja í fanginu á okkur í tæpa fjóra tíma. Á heimleiðinni var okkur hinsvegar vísað í sérstök sæti með góðu plássi fyrir barnafjölskyldur – yngri sonur okkar fékk vöggu sem skrúfuð var föst á vegginn.

Við vorum afar ánægð með þjónustu og hjálpsemi flugþjóna bæði hjá Icelandair og Korean Airlines. 

Því má bæta við að við misstum næstum því af vélinni í Seúl þar sem alltaf var verið að breyta flugtíma og hliðum. Allt í einu stóð: Gate Closed! Við hlupum af stað með strákana í fanginu. Fyrir einstaka tilviljun hittum við konu frá Korean Airlines á miðri leið í gegnum flugstöðina. Hún var að leita að okkur:

„Are you Mr. Björgvinsson?“

Ég játaði því.

Þá tók hún upp símann og stöðvaði vélina sem var u.þ.b. að leggja af stað. Við vorum ansi skömmustuleg þegar við loks komumst inn í vélinna. Allir störðu á okkur.

Aron Blær í vöggu um borð í vél Korean Airlines á heimleiðinni – Mynd: STB

Það kom okkur verulega á óvart að á öllum þremur flugvöllunum þurftum við að sýna Covid-vottorð um bólusetningar og að við hefðum fengið sjúkdóminn. Einnig þurfti að fylla út eyðublöð á pappírsformi. Við þurftum því að fara í símana okkar og tölvu til að finna þessi vottorð. Margir voru með grímur í fluginu og margt fólk var með grímur á götum úti á Filippseyjum.“

Sinulog-hátíðin fer fram í janúar ár hvert – Mynd: Unsplash / Chloe Evans

Eru margir ferðamenn á Filippseyjum og hvaðan koma þeir helst?

„Á Cebu-eyju er töluvert um ferðamenn, þó flestir lendi fyrst í höfuðborginni Manila. Ég hef á tilfinningunni að flestir séu frá Kóreu, Japan, Kína og Ástralíu. Í sundlaugagarðinum við Quest-hótelið spjallaði ég við fólk frá Bandaríkjunum, Kanada, Þýskalandi, Írlandi og Danmörku. Flestir eiga maka frá Filippseyjum en margir eru hér af ævintýraþrá.“

Setið á hnyðju í Bohol – Mynd: STB

Hvernig myndir þú lýsa þessum slóðum – með augum ferðamannsins? Eftir hverju eru ferðamenn að sækjast helst?

„Eyjarnar eru 7.200 talsins. Þannig að það gefur auga leið að strandlífið er það sem flestir ferðamenn vilja njóta. Það eru samt fáar eyjar sem skarta hvítum og hreinum ströndum eins og við þekkjum á Kanaríeyjum og víða í Evrópu.

Fyrir okkur hjónin var þetta fyrst og fremst fjölskylduferð, þar sem við höfðum ekki séð fólkið okkar hér í tæp fjögur ár. En við ferðuðumst líka talsvert þar sem tengdaforeldrar mínir sóttust eftir því að passa strákana í Balamban, í fjöllunum þar sem þau búa.

Fjölskyldan á ströndinni í Balamban – Mynd: STB

Fyrst fórum við til Boracay, sem er fjölsóttasta eyjan þarna, bæði af innfæddum og erlendum ferðamönnum. Þar eru hvítar strendur, góð hótel og veitingastaðir. Við vorum þarna í Airbnb-íbúð, sem var ágætt, en hún var aðeins fyrir utan bæinn. Þegar ég var þarna síðast gisti ég á fimm-stjörnu hóteli með einkaströnd og ýmsum munaði, enda var það talsvert dýrara. Þarna er vinsælt að fara í köfun, snorkla, sigla milli eynna, sörfa og láta draga sig í fallhlíf við ströndina. Við sigldum á milli eyja í hefðbundnum bátum sem heita banco og hafa verið notaðir þarna í 600 ár. 

Hefðbundinn banco-bátur – Mynd: STB

Við fórum líka víða um Cebu-eyju. Þar eru fallegar strendur, eins og á Machtan-eyju, Moaboal, Bantayan og Malapascua. Ef ekið er í þrjá tíma frá Cebu-borg er komið að litlum strandbæ sem heitir Oslob, sem hefur þá sérstöðu að hægt er að synda með hvalháfum. Það hljómar ekki vel en þetta eru meinlausar skepnur á stærð við hrefnur. Nálægt Oslob eru líka Kawasan-fossar, þar sem vinsælt er að hoppa fram af klettum. Aðrar áhugaverðar og vinsælar eyjar eru Bohol, suður af Cebu, og Palawan. Bohol er þekkt fyrir hvítar strendur en þar er líka að finna fjölda fallegra hella, fljótandi veitingahús og minnstu apa í heimi. Palawan er þekkt fyrir stóran sjávarhelli og strandstaðina El Nido og Coron, sem eru alveg á pari við Krabi og Phuket í Tælandi. Einnig eru þar flottir og vinsælir golfvellir.

Synt með hvalháfum – Mynd: STB

Flestir áðurnefndir staðir eru mest sóttir af erlendum ferðamönnum, þannig að það voru forréttindi fyrir okkur að heimsækja fjölskylduna í fjöllum Balamban. Þar fögnuðum við nýja árinu með stórfjölskyldunni og nágrönnum í afar einangruðu og vanþróuðu umhverfi. Rafmagn og internet eru af skornum skammti, ekkert sjónvarp, eldað er á hlóðum og nýlega fengu þau rennandi vatn í húsið. Á hátíðisdögum koma allir með mat af ýmsu tagi. Þarna smakkaði ég geitakjöt í fyrsta skipti og var það bara ansi ljúffengt. Þjóðarréttur Filippseyinga er Lechon sem er heilgrillað svín. Fjölskyldan ræktar svín og þarna var boðið upp á 100 kílóa gölt sem fylltur var með ýmsum kryddjurtum og laufum sem vaxa rétt utan við húsið. Einn af eftirréttunum er mér minnistæður, en það voru vel stropuð og úldin andaregg. Íslendingurinn lagði nú ekki í að smakka þau.

Heilgrillaður göltur – Mynd: STB

Við fórum líka á strendur í Balamban sem eingöngu eru sóttar af heimafólki og aðstaðan er í samræmi við það. Ferðalagið þangað tók rúma tvo tíma og vegirnir liggja um fjallahryggi og djúpa dali og eru bæði hrikalegir og hættulegir. Fyrir Siglfirðinginn mig var þetta eins og að keyra Skarðið, Ólafsfjarðarmúla og Mánárskriður 10 sinnum sama daginn. Farkosturinn var pínulítill eiturgrænn pikköpp. Tengdasonurinn fékk að sitja frammí en restin af fjölskyldunni aftan á pallinum. Þetta er auðvitað ekki fólki bjóðandi en í raun eina leiðin. Við skemmtum okkur vel á ströndinni, þar var grillaður fiskur, drukkið Tanduay-romm og buslað í sjónum. Það skal tekið fram að fæstir Filippseyingar kunna að synda, sem er furðulegt í ljósi aðstæðna: eyjalífs og fiskveiða.

Skálað á gamlársdag – Mynd: STB

Er ferðaþjónustan þróuð á Filippseyjum?

„Ferðaþjónusta á Filippseyjum er langt frá því að vera þróuð. Það er einungis á örfáum vinsælum stöðum sem hægt er að tala um nútímalega þjónustu – og þá erum við líka að tala um verðlag sem ekki er á allra færi. Innviðir eru mjög vanþróaðir, hvort sem um er að ræða vegi, rafmagn, internet eða aðgang að hreinu vatni.

Mikið vantar upp á að þjónusta sé góð, t.d. á veitingastöðum, hótelum og verslunum. Ég gafst fljótlega upp á að bjóða kortagreiðslur, þannig að nauðsynlegt er að vera með peninga á sér. Víða er skortur á leigubílum og oft löng bið eftir þeim. Það er varla hægt að tala um almenningssamgöngur í borg eins og Cebu. Þar eru svokallaðir Jeepneys, sem aka ákveðna hringi og hleypa fólki upp í hvar sem er. Þú borgar einn eða tvo peso og hoppar af þegar hentar. Umferðin í stórborgum er hæg og langan tíma tekur að komast á milli staða. Umferðarljós eru óalgeng og þar sem þau eru loga er rauða ljósið í fimm mínútur, sem er ávísun á umferðaröngþveiti.

Eitt sinn var ég í leigubíl og ferðinni miðaði hægt. Bílstjórinn var eldri maður og ég tók eftir að hann söng með útvarpinu, svo kom rautt ljós og hann hætti að syngja. Eftir fimm mínútur kom grænt ljós en minn maður fór ekki af stað og þá tók ég eftir því að hann hafði sofnað við stýrið. Ég ræskti mig og hann tók kipp og fór af stað. Þetta gerðist ekki bara einu sinni heldur þrisvar. Þessir menn eru á sólarhringsvöktum.

Bílstjóri fær sér kríu á rauðu ljósi – Mynd: STB

Það jákvæða við ferðamennsku á eyjunum er að flestir íbúar tala góða ensku og flest skilti og leiðbeiningar eru á ensku.“ 

Hvernig þjóðfélag birtist ferðamanninum á Filippseyjum?

„Það er gríðaleg fátækt og stéttaskipting á Filippseyjum. Það þarf ekki annað en að keyra frá flugvellinum og inn í miðborg Cebu til að sjá örbirgðina og hvernig fólk býr meira og minna í hreysum. Opinberar tölur segja að 55 prósent íbúa lifi undir fátæktarmörkum en margir telja að sú tala sé nærri 70 prósentum. Svo teljast um 20 prósent til einskonar millistéttar, 10 prósent íbúa eru ríkir og tilheyra jafnframt valdastétt landsins.

Börn í fátækrahverfi í Balamban skoða Tómas – Mynd: STB

Völdin skiptast á milli ákveðinna fjölskyldna, hvort sem er á landsvísu eða í sveitarstjórnum. Skýrasta dæmið er frá síðustu forsetakosningum, þar sem Marcos-fjölskyldan og Duterte-fjölskyldan náðu saman. Nú er sonur Marcosar forseti og dóttir Duterte varaforseti.

Misskiptingin er mjög sýnileg og götubörn og betlarar nánast á hverju horni. Í Cebu-borg býr ríka fólkið nánast í höllum í fjallshlíð fyrir ofan borgina, í Manila er borg inn í borginni sem heitir Makati og þar búa íbúar við öll nútíma þægindi.

Þrátt fyrir kröpp lífskjör eru flestir hamingjusamir og brosa framan í heiminn.“

Slakað á við sundlaugina síðasta daginn – Mynd: STB
Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …