Samfélagsmiðlar

„Umskapa verður flugvélaiðnaðinn“

Flugfélög sem einblína á skammtíma hagnað munu ekki ein og sér leiða umbreytingu flugvélatækni, sem leiði til þess að vistvænar flugvélar leysi þær mengandi af hólmi. Þetta er álit eins forystumanna heims í þróun og smíði rafmagns- og tvinnflugvéla.

Anders Forslund

Anders Forslund, forstjóri Heart Aerospace

Flugheimurinn hefur gefið fyrirheit um að kolefnishlutleysi verði náð árið 2050 en vandséð er hvernig það eigi að takast nema að ríki heims styðji með markvissum aðgerðum nauðsynleg umskipti frá jarðefnaeldsneyti yfir í græna eða vistvæna orkugjafa.

Flugfélögin sjálf einblína á hagnað til skamms tíma og eru ekki tilbúin nema að litlu leyti til að taka á sig kostnað vegna þróunar nýrrar vistvænnar tækni. Þetta kemur fram hjá Anders Forslund, forstjóra og eins stofnanda Heart Aerospace í Svíþjóð, í viðtali við Financial Times. 

ES-30 á flugi yfir sjó – MYND: Heart Aerospace

Heart Aerospace vinnur að þróun og smíði 30 sæta tvinnflugvélar sem nefnist ES-30. Stefnt er að því að hún verði notuð í innanlandsflugi og geti flogið á hreinu rafmagni frá rafhlöðu í 200 kílómetra – en a.m.k. tvöfalda þá fluglengd með tvinntækni þar sem notast yrði við sjálfbært eldsneyti (SAF). Stefnt er að því að ES-30 verði tekin í notkun árið 2028 – eftir fimm ár.

Þegar hafa United Airlines, Mesa Airlines og Air Canada pantað vélar. Icelandair er meðal flugfélaga sem undirritað hafa viljayfirlýsingu við Heart Aerospace um þróun 30 sæta-vélarinnar fyrir innanlandsflug á Íslandi. En þrátt fyrir þessa viðleitni flugfélaga telur forstjóri Heart Aerospace að það verði að koma til miklu sterkari hvatar svo hraða megi þessum umskiptum frá mengandi í vistvænt áætlunarflug. 

ES-30 í flughermi – MYND: Heart Aerospace-ITF

„Ríkisstjórnir ráða lögum og lofum. Flugfélögin þurfa að hafa hagræna hvata til að taka af skarið. Það verður að koma þessu í gang – og það strax,” segir Anders Forslund, og bendir á Noreg sem fordæmi. Í því ríka landi hafi verið gefinn afsláttur á kaupum á rafbílum til að hraða orkuskiptum.

Forslund segir að þungamiðja þessarar sprotagreinar sé að stórum hluta að færast til Bandaríkjanna í kjölfar stefnu Biden-stjórnarinnar um innviðaaðgerðir sem beinast gegn loftslagsvánni og eiga að kveða niður verðbólgu. „Það má segja að við bíðum eftir því hvað Evrópuríkin ætli að gera,” segir Forslund sem í viðtalinu bendir á áhugaverða markaði á Íslandi og í Danmörku vegna aðgengis að sjálfbærri orku og fremur stuttra flugleiða. 

Hreyfill ES-30 – MYND: Heart Aerospace-ITF

Eins og áður sagði, geta þær rafhlöður sem ES-30 styðjast nú við, borið orku til að knýja hreyfla á 200 kílómetra flugi. Búist er við að árið 2040 verði komnar til sögunnar rafhlöður sem leyfi 400 kílómetra flug – og hægt verði að lengja flug um 600 kílómetra með tvinntækni. Með þróun rafhlaðna eykst svo enn fluggeta hreinna rafflugvéla. Hraðinn á umbreytingunni ræðst þó af áhuga flugfélaga og vilja stjórnvalda í löndum heims.

„Vandinn er ekki að það sé of mikið að gerast á of skömmum tíma, heldur gerist of lítið alltof hægt. Flugfélög, ríki og ríkisstjórnir þurfa að skynja hversu brýnt þetta mál er og ákveða hvernig staðið verður að umbreytingunni. Þetta krefst samvinnu þeirra sem fyrir eru á markaðnum, rótgróinna framleiðenda og sprotafyrirtækja. Umskapa verður flugvélaiðnaðinn.” 

Þetta segir Anders Forslund og hvetur Evrópu til dáða.

Það verður áhugavert að fylgjast með viðbrögðum við þessari hvatningu og sjá hversu hröð nauðsynleg umbreyting verður í flugiðnaðinum.

ES-30 í næturþoku – MYND: Heart Aerospace
Nýtt efni

Samkvæmt nýútkominni ársskýrslu Ferðamálaráðs Grænlands - Visit Greenland fjölgaði flugfarþegum sem komu til Grænlands um 9 prósent á síðasta ári. Met fyrra árs var þar með slegið. Alls voru 64.910 taldir við brottför frá landinu, tæplega 40 þúsund Grænlendingar og nærri 37 þúsund Danir. Af einstökum öðrum þjóðahópum voru Þjóðverjar fjölmennastir, nærri 3.600, Bandaríkjamenn rúmlega …

Ef ekki nást samningar milli Norwegian og norska flugmanna félagsins fyrir lok vinnuvikunnar þá munu 17 flugmenn félagsins leggja niður störf strax um helgina. Alf Hansen, formaður félags flugmanna hjá Norwegian, segir að krafa sé gerð um bæði hærri laun og betri vinnutíma. „Við vinnum sex af hverjum níu helgum. Til viðbótar er vinnuálagið mest …

Þetta eru góðar fréttir fyrir starfsmenn Mirafiori-verksmiðja Fiat í Tórínó, eins anga Stellantis-samsteypunnar, en bakslag í augum þeirra sem vilja ekkert hik í orkuskiptum í samgöngum. Eitt sinn var Mirafiori stærsta verksmiðjuhverfi Ítalíu og þar starfar enn elsta bílaverksmiðja Evrópu. En í bílaiðnaði nútímans lifir enginn á fornri frægð. Verði blendingsútgáfa af litla 500e smíðuð …

Evrópuþingið hefur samþykkt tilskipun Framkvæmdastjórnar ESB um kolefnishlutlausan iðnað, Net Zero Industry Act, eða NZIA, sem ætlað er að efla vistvænan iðnað í Evrópu og auka framleiðsluafköst í hreinorkutækni. Samræmdar reglur og fyrirsjáanleiki í viðskiptaumhverfi græns iðnaðar eiga að skila sér í meiri samkeppnishæfni og styrk iðnaðar í álfunni og fjölgun sérhæfðra starfa. Vonast er …

Komið hefur í ljós að gjaldtaka af ferðamönnum sem koma til Feneyja hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að hemja troðningstúrisma í borginni fögru við Adríahaf. Dagpassarnir svonefndu hafa þvert á móti valdið ólgu meðal íbúa og ruglað ferðamenn í ríminu. Útgáfa passanna hófst 25. apríl og verður ekki sagt að á þeim mánuði sem …

Bílaframleiðendur í Brasilíu hafa fulla trú á því að auk þess sem notaðir verði málmar á borð við litíum, nikkel og kóbalt til að búa til bílarafhlöður verði líka þörf á gamla, góða sykrinum til að gera samgöngur vistvænni í framtíðinni. Flestir bílar sem framleiddir eru fyrir Brasilíumarkað ganga fyrir blöndu af bensíni og etanóli, …

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP29) fer fram í Bakú í Aserbaísjan dagana 11. – 22. nóvember og nú á föstudaginn rennur úr frestur til að skila inn umsóknum um þátttöku í viðskiptasendinefnd Íslands. Að hámarki 50 manns fá þar sæti en gert er ráð fyrir að hvert fyrirtæki sendi að hámarki tvo fulltrúa. Í sendinefndinni sem …

Hann er önnum kafinn við að búa til smjördeig fyrir bökurnar þegar símaviðtalið hefst en er með hendurnar frjálsar og spjallar á meðan. Smjördeigið á leið yfir botninn með fyllingunni - MYND: © Arctic Pies „Við vorum þrír Ástralir sem stofnuðum þetta fyrirtæki saman og tengdum í gegnum þessa sömu matarupplifun. Það er pínu flókið …