Samfélagsmiðlar

„Umskapa verður flugvélaiðnaðinn“

Flugfélög sem einblína á skammtíma hagnað munu ekki ein og sér leiða umbreytingu flugvélatækni, sem leiði til þess að vistvænar flugvélar leysi þær mengandi af hólmi. Þetta er álit eins forystumanna heims í þróun og smíði rafmagns- og tvinnflugvéla.

Anders Forslund

Anders Forslund, forstjóri Heart Aerospace

Flugheimurinn hefur gefið fyrirheit um að kolefnishlutleysi verði náð árið 2050 en vandséð er hvernig það eigi að takast nema að ríki heims styðji með markvissum aðgerðum nauðsynleg umskipti frá jarðefnaeldsneyti yfir í græna eða vistvæna orkugjafa.

Flugfélögin sjálf einblína á hagnað til skamms tíma og eru ekki tilbúin nema að litlu leyti til að taka á sig kostnað vegna þróunar nýrrar vistvænnar tækni. Þetta kemur fram hjá Anders Forslund, forstjóra og eins stofnanda Heart Aerospace í Svíþjóð, í viðtali við Financial Times. 

ES-30 á flugi yfir sjó – MYND: Heart Aerospace

Heart Aerospace vinnur að þróun og smíði 30 sæta tvinnflugvélar sem nefnist ES-30. Stefnt er að því að hún verði notuð í innanlandsflugi og geti flogið á hreinu rafmagni frá rafhlöðu í 200 kílómetra – en a.m.k. tvöfalda þá fluglengd með tvinntækni þar sem notast yrði við sjálfbært eldsneyti (SAF). Stefnt er að því að ES-30 verði tekin í notkun árið 2028 – eftir fimm ár.

Þegar hafa United Airlines, Mesa Airlines og Air Canada pantað vélar. Icelandair er meðal flugfélaga sem undirritað hafa viljayfirlýsingu við Heart Aerospace um þróun 30 sæta-vélarinnar fyrir innanlandsflug á Íslandi. En þrátt fyrir þessa viðleitni flugfélaga telur forstjóri Heart Aerospace að það verði að koma til miklu sterkari hvatar svo hraða megi þessum umskiptum frá mengandi í vistvænt áætlunarflug. 

ES-30 í flughermi – MYND: Heart Aerospace-ITF

„Ríkisstjórnir ráða lögum og lofum. Flugfélögin þurfa að hafa hagræna hvata til að taka af skarið. Það verður að koma þessu í gang – og það strax,” segir Anders Forslund, og bendir á Noreg sem fordæmi. Í því ríka landi hafi verið gefinn afsláttur á kaupum á rafbílum til að hraða orkuskiptum.

Forslund segir að þungamiðja þessarar sprotagreinar sé að stórum hluta að færast til Bandaríkjanna í kjölfar stefnu Biden-stjórnarinnar um innviðaaðgerðir sem beinast gegn loftslagsvánni og eiga að kveða niður verðbólgu. „Það má segja að við bíðum eftir því hvað Evrópuríkin ætli að gera,” segir Forslund sem í viðtalinu bendir á áhugaverða markaði á Íslandi og í Danmörku vegna aðgengis að sjálfbærri orku og fremur stuttra flugleiða. 

Hreyfill ES-30 – MYND: Heart Aerospace-ITF

Eins og áður sagði, geta þær rafhlöður sem ES-30 styðjast nú við, borið orku til að knýja hreyfla á 200 kílómetra flugi. Búist er við að árið 2040 verði komnar til sögunnar rafhlöður sem leyfi 400 kílómetra flug – og hægt verði að lengja flug um 600 kílómetra með tvinntækni. Með þróun rafhlaðna eykst svo enn fluggeta hreinna rafflugvéla. Hraðinn á umbreytingunni ræðst þó af áhuga flugfélaga og vilja stjórnvalda í löndum heims.

„Vandinn er ekki að það sé of mikið að gerast á of skömmum tíma, heldur gerist of lítið alltof hægt. Flugfélög, ríki og ríkisstjórnir þurfa að skynja hversu brýnt þetta mál er og ákveða hvernig staðið verður að umbreytingunni. Þetta krefst samvinnu þeirra sem fyrir eru á markaðnum, rótgróinna framleiðenda og sprotafyrirtækja. Umskapa verður flugvélaiðnaðinn.” 

Þetta segir Anders Forslund og hvetur Evrópu til dáða.

Það verður áhugavert að fylgjast með viðbrögðum við þessari hvatningu og sjá hversu hröð nauðsynleg umbreyting verður í flugiðnaðinum.

ES-30 í næturþoku – MYND: Heart Aerospace
Nýtt efni

Notkun á sjálfbæru eldsneyti er besta leiðin til að draga hratt úr losun frá flugsamgöngum, segir Willie Walsh, framkvæmdastjóra Alþjóðasambands flugfélaga, IATA. Hann ræddi mikilvægi þess að minnka losun í ávarpi sínu á flugmálaráðstefnu Changi í Singapúr í vikunni.  Willie Walsh undirstrikaði í ávarpi sínu að flugheimurinn stefndi staðfastlega að kolefnishlutleysi árið 2050: „Við megum …

Vesturland er í útjaðri meginstraums erlendra ferðamanna sem koma til Íslands. Flestir eru þeir á Suðvesturlandi, fara Gullna hringinn og meðfram suðurströndinni - en auðvitað aka margir þeirra eftir Hringveginum í gegnum Borgarfjörð eða halda upp á Snæfellsnes - og áfram sem leið liggur til Vestfjarða með ýmsum útúrdúrum. Við ætlum sem sagt ekki að …

Gott símasamband í höfuðborg Bretlands byggði lengi á hinum 177 metra háa BT Tower sem kenndur var við eigandann, British Telecom. Turninn varð hæsta mannvirkið í London þegar hann var reistur af símafyrirtækinu árið 1964. Það var ekki fyrr en 16 árum síðar að annað mannvirki í London fór upp fyrir þetta símamastur sem einnig …

Velta í ferðaþjónustu í nóvember og desember í fyrra var nærri óbreytt miðað við sama tíma árið 2022 eða rúmlega 121 milljarður króna. Ef veltan hefði verið í takt við verðbólgu og fjölgun gistinátta ferðamanna þá hefði hún verið um 13 milljörðum kr. hærri. Af undirgreinum ferðaþjónustunnar þá var veitingareksturinn sá eini sem hélt í …

Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Bain Capital Credit varð langstærsti hluthafinn í Icelandair í júní 2021 og á nú 17,2 prósenta hlut. Sjóðurinn hefur fjárfest fyrir 10,4 milljarða króna í flugfélaginu en fengi rétt 7,5 milljarða fyrir hlutinn í dag. Mismunurinn nemur nærri 3 milljörðum króna en gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um 18 prósent frá því …

Tölur sem Kóperníkus, lofthjúpsvöktunaþjónusta Evrópusambandsins, og ítölsku umhverfisverndarsamtökin Legambiente kynntu nýlega sýna að í Mílanó mælist svifryk og önnur loftmengun áfram hvað mest í allri Evrópu. Nú er loks rætt um það af yfirvöldum í Mílanó og nærliggjandi borgum og bæjum á Langabarðalandi að grípa einhverra aðgerða - eins og að takmarka notkun á mest …

Þátttaka hins opinbera í rafbílakaupum landsmanna er nú með breyttu sniði. Í stað skattaafsláttar upp á 1,3 milljónir króna, sem dreginn var frá söluverði nýrra rafbíla, þá verða kaupendur bílanna að greiða fullt verð í umboðinu og sækja svo um 900 þúsund króna styrk hjá Orkustofnun í framhaldinu. Þessi breyting var gerð um síðustu áramóti …

Sá sem kaupir ódýrasta fargjaldið hjá Icelandair, Economy Light, þarf að borga aukalega fyrir innritaðan farangur. Áður var töskugjaldið 5.280 krónur en nú þarf að borga allt að 6.600 krónur undir farangurinn aðra leið. Hækkunin nemur 25 prósentum og svo mikil eru hún líka ef innrita á skíði. Flutningur á þeim kostar núna allt að …