Samfélagsmiðlar

Undirbúningi að ljúka fyrir móttöku metfjölda farþega

Búist er við 269 skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur í sumar með 280 þúsund farþega. Nokkrum sinnum verða þrjú skip í einu í Sundahöfn og tvö í gömlu höfninni. Aðstaða til að taka á móti farþegum hefur verið bætt og stýring umferðar til og frá höfninni.

Nýjar merkingar á Skarfabakka eiga að bæta flutning á farþegum sem koma með skemmtiferðaskipum.

Unnið hefur verið að því að undanförnu að bæta aðstöðu til móttöku farþega sem koma með skemmtiferðaskipum í Sundahöfn í Reykjavík. Faxaflóahafnir fengu verkfræðifyrirtækið Mannvit til að hanna umferðarleiðir til og frá farþegamiðstöðvum. Akstursleiðir hafa verið merktar og komið fyrir upplýsingaskiltum á Skarfabakka þar sem skemmtiferðaskipin leggjast að. Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, segir að merkingar eigi að auðvelda umferðarflæði til og frá höfninni og auka öryggi. 

Sigurður Jökull á bílaplaninu á Skarfabakka – MYND: ÓJ

„Í sumar munu skutlur (cruise shuttle) ganga frá miðstöðvum hér á Skarfabakka að Hörpu. Þetta er gert til að tengja farþegana við miðborgina. Við viljum að atvinnulífið þar njóti góðs af komu þessara gesta. Þessi akstursþjónusta var boðin út. Samið var við Kynnisferðir, sem keyptu bíla frá Þýskalandi fyrir þetta verkefni.”

Þarna verða raðir bíla á komudögum skipanna – MYND: ÓJ

Móttökuhúsið á Skarfabakka hefur verið endurnýjað og bætt og færanlegu einingahúsin sitt hvorum megin við hafa verið stækkuð og tryggar gengið frá festingum. Þarna á að rísa varanleg bygging árið 2025 sem verður fjölnota farþegamiðstöð. Þrjú teymi vinna nú að tillögum í hugmyndasamkeppni um hvernig þessi tveggja hæða 5.000 fermetra bygging þarna á bakkanum verður. 

Bráðabirgðahúsin beggja vegna núverandi þjónustubyggingar – MYND: ÓJ

„Þessi bygging mun skipta miklu máli til að tryggja öryggi og þjónustu við farþega. Það má líkja þessu við að hér rísi lítil Leifsstöð. Þarna verða brottfarar- og komusalir, landamæraeftirlit, innritun og öryggisleit, aðstaða fyrir fólk og farangur.”

Verða engar verslanir í væntanlegri farþegamiðstöð?

„Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það. Yfirleitt eru ekki verslanir í svona stöðvum. Það sem er ólíkt hér og í flugstöðinni er að með hverri flugvél koma 180 til 200 farþegar en hingað koma með skipi 1.000 til 3.000 manns í einu. Þetta eru miklu stærri bylgjur af fólki. Öllu skiptir að þetta gangi snurðulaust fyrir sig.“

Horft út í Viðey – MYND: ÓJ

Þið viljið að fólk fari héðan eins fljótt og mögulegt er?

„Já, það skiptir miklu máli. Ekki má gleyma því að við erum hér í stærstu gámahöfn landsins. Þetta er vinnusvæði og það er öryggismál að fólk fari hér hratt og örugglega í gegn á næstu áfangastaði – niður í bæ, á veitingastaði eða annað.”

Íslenskar áletranir eru á öllum skiltum og veggspjöldum – MYND: ÓJ

Þrátt fyrir sambýlið við gámaskipin og flutningastarfsemina hér í Sundahöfn þá er hér góð aðstaða og svigrúm til úrbóta?

„ Alveg klárlega. Við erum heppin að því leyti að hér er gott pláss. Bryggjan hér er 650 metra löng og nægt rými fyrir rútur og bíla.”

Horft út úr farþegamiðstöðinni – MYND: ÓJ

Fáein skip hafa þegar lagst hér að það sem af er ári. Framundan er mikil traffík.

„Því er ekki að neita að mikill fjöldi skipa er á leiðinni. Það stefnir í að hingað til Reykjavíkur komi 269 skip með 280 þúsund farþega. Af þeim eru 90 þúsund skiptifarþegar. Þetta er heilmikil fjölgun. Það koma dagar í sumar þegar þrjú skip leggjast að á Skarfabakka, tvö stór og eitt lítið, og tvö niðri við gömlu höfnina.”

Þið teljið að þessar úrbætur sem gerðar hafa verið eigi eftir að bæta þjónustuna við farþegana og koma í veg fyrir ástand eins og skapaðist hér í fyrra, þegar talað var um ráðvillta farþega hér á hafnarbakkanum?

„Já, við höfum séð það nú þegar. Þetta skiptir miklu máli fyrir farþegana, skipafélögin, umboðsmenn og þjónustuaðila. Það eru allir samdóma um að þetta sé allt annað og betra. Það er ekki hægt að horfa framhjá því að menn voru ekki tilbúnir eftir Covid-19 að taka á móti þessum fjölda sem kom. En nú hefur nýtt umferðarskipulag verið njörvað niður.”

Aksturleið farþegaskutlunnar milli Skarfabakka og Hörpu – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Tónlistarmaðurinn hefur á þessum árum lagt inn 689 lög í eigin nafni. En þrátt fyrir afar litlar vinsældir hefur maðurinn fengið útborgaðar um það bil sem svarar 90 milljónum íslenskra króna frá streymisveitunum vegna þess hve oft lögin hafa verið spiluð. Til að fá útborgað um eitt hundrað krónur frá tónlistarstreymisveitu þarf lag að vera …

Árið 2023 varð metár í komum ferðamanna til hinnar fornu, fögru og söguríku Aþenu. Um sjö milljónir erlendra ferðamanna lentu á Aþenu-flugvelli sem kenndur er við Eleftherios Venizelos, 600 þúsundum fleiri en 2019. Bandaríkjamenn voru stærsti hópurinn, ein milljón, en næst á eftir komu 687 þúsund Bretar, 478 þúsund Þjóðverjar, 462 þúsund Frakkar og 410 …

Áætlun Ryanair á komandi sumarvertíð byggir á því að félagið fái að lágmarki 50 nýjar Boeing Max þotur en forstjóri flugfélagsins, Michael O'Leary, er svartsýnn á að það gangi eftir. Nýju þoturnar verði í besta falli fjörutíu en upphaflega hafði Boeing lofað 57 nýjum Max-þotum samkvæmt frétt Bloomberg. „Það hamlar vexti okkar að vita ekki …

Stellantis er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Í viðtali við þýska blaðið Welt am Sonntag ítrekar Carlos Tavares, forstjóri Stellantis, stuðning samsteypunnar við banni við sölu á bílum knúnum bensíni og dísil árið 2035. Ummælin falla í tilefni af því að margir spá íhaldssveiflu í Evrópuþingskosningum í júní og að í framhaldi af því verði áformum …

Það vakti athygli að fáum dögum eftir lát eins af þekktari ritstjórum The New York Times, Joseph Lelyveld, streymdu inn á Amazon-netverslunina fjölmargar nýjar ævisögur ritstjórans. Lelyveld lést í janúar í ár og þegar bróðir hans Michael fór inn á netið fáum dögum eftir útför Josephs til að sjá hvernig samferðarmenn minntust bróðurins tók hann eftir …

Skotar hafa löngum verið hrifnir af hafragraut. Fornleifarannsókn á Suðureyjum á vegum Bristolháskóla árið 2022 leiddi í ljós að hafragrautur hefur verið hluti af mataræði þeirra árþúsundum saman. Á miðöldum einkenndist veðurfar í Skotlandi af miklum raka og skornum skammti af sólarljósi. Þar af leiðandi náðu aðeins harðgerðustu korntegundir að vaxa og upp frá því …

Árið 1952 kom út bók á Ítalíu sem bar þann fallega titil Allir okkar liðnu dagar. Í rauninni heitir bókin á ítalska frummálinu Tutti i nostri ieri, sem í beinni þýðingu væri: Allir okkar gærdagar. Bókin sem var skrifuð af ítalska rithöfundinum Natalia Ginzburg var meira eða minna gleymd af heiminum. Árið 2023 gekk bókin skyndilega og …

Amalfiströndin eða Costiera Amalfitana í Campania-héraði er talin meðal mest heillandi ferðamannaslóða Ítalíu. Ströndin snýr að Salernoflóa og Tyrrenahafi, litríkir bæirnir kúra undir bröttum hlíðum Sorrentine-skaga og hafa laðað til sín gesti víða að frá 18. öld, fyrst fína fólkið en síðan fjölbreyttari mannflóru. Yfirvöld vilja fá enn fleiri gesti og unnið er að því …