Samfélagsmiðlar

Undirbúningi að ljúka fyrir móttöku metfjölda farþega

Búist er við 269 skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur í sumar með 280 þúsund farþega. Nokkrum sinnum verða þrjú skip í einu í Sundahöfn og tvö í gömlu höfninni. Aðstaða til að taka á móti farþegum hefur verið bætt og stýring umferðar til og frá höfninni.

Nýjar merkingar á Skarfabakka eiga að bæta flutning á farþegum sem koma með skemmtiferðaskipum.

Unnið hefur verið að því að undanförnu að bæta aðstöðu til móttöku farþega sem koma með skemmtiferðaskipum í Sundahöfn í Reykjavík. Faxaflóahafnir fengu verkfræðifyrirtækið Mannvit til að hanna umferðarleiðir til og frá farþegamiðstöðvum. Akstursleiðir hafa verið merktar og komið fyrir upplýsingaskiltum á Skarfabakka þar sem skemmtiferðaskipin leggjast að. Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, segir að merkingar eigi að auðvelda umferðarflæði til og frá höfninni og auka öryggi. 

Sigurður Jökull á bílaplaninu á Skarfabakka – MYND: ÓJ

„Í sumar munu skutlur (cruise shuttle) ganga frá miðstöðvum hér á Skarfabakka að Hörpu. Þetta er gert til að tengja farþegana við miðborgina. Við viljum að atvinnulífið þar njóti góðs af komu þessara gesta. Þessi akstursþjónusta var boðin út. Samið var við Kynnisferðir, sem keyptu bíla frá Þýskalandi fyrir þetta verkefni.”

Þarna verða raðir bíla á komudögum skipanna – MYND: ÓJ

Móttökuhúsið á Skarfabakka hefur verið endurnýjað og bætt og færanlegu einingahúsin sitt hvorum megin við hafa verið stækkuð og tryggar gengið frá festingum. Þarna á að rísa varanleg bygging árið 2025 sem verður fjölnota farþegamiðstöð. Þrjú teymi vinna nú að tillögum í hugmyndasamkeppni um hvernig þessi tveggja hæða 5.000 fermetra bygging þarna á bakkanum verður. 

Bráðabirgðahúsin beggja vegna núverandi þjónustubyggingar – MYND: ÓJ

„Þessi bygging mun skipta miklu máli til að tryggja öryggi og þjónustu við farþega. Það má líkja þessu við að hér rísi lítil Leifsstöð. Þarna verða brottfarar- og komusalir, landamæraeftirlit, innritun og öryggisleit, aðstaða fyrir fólk og farangur.”

Verða engar verslanir í væntanlegri farþegamiðstöð?

„Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um það. Yfirleitt eru ekki verslanir í svona stöðvum. Það sem er ólíkt hér og í flugstöðinni er að með hverri flugvél koma 180 til 200 farþegar en hingað koma með skipi 1.000 til 3.000 manns í einu. Þetta eru miklu stærri bylgjur af fólki. Öllu skiptir að þetta gangi snurðulaust fyrir sig.“

Horft út í Viðey – MYND: ÓJ

Þið viljið að fólk fari héðan eins fljótt og mögulegt er?

„Já, það skiptir miklu máli. Ekki má gleyma því að við erum hér í stærstu gámahöfn landsins. Þetta er vinnusvæði og það er öryggismál að fólk fari hér hratt og örugglega í gegn á næstu áfangastaði – niður í bæ, á veitingastaði eða annað.”

Íslenskar áletranir eru á öllum skiltum og veggspjöldum – MYND: ÓJ

Þrátt fyrir sambýlið við gámaskipin og flutningastarfsemina hér í Sundahöfn þá er hér góð aðstaða og svigrúm til úrbóta?

„ Alveg klárlega. Við erum heppin að því leyti að hér er gott pláss. Bryggjan hér er 650 metra löng og nægt rými fyrir rútur og bíla.”

Horft út úr farþegamiðstöðinni – MYND: ÓJ

Fáein skip hafa þegar lagst hér að það sem af er ári. Framundan er mikil traffík.

„Því er ekki að neita að mikill fjöldi skipa er á leiðinni. Það stefnir í að hingað til Reykjavíkur komi 269 skip með 280 þúsund farþega. Af þeim eru 90 þúsund skiptifarþegar. Þetta er heilmikil fjölgun. Það koma dagar í sumar þegar þrjú skip leggjast að á Skarfabakka, tvö stór og eitt lítið, og tvö niðri við gömlu höfnina.”

Þið teljið að þessar úrbætur sem gerðar hafa verið eigi eftir að bæta þjónustuna við farþegana og koma í veg fyrir ástand eins og skapaðist hér í fyrra, þegar talað var um ráðvillta farþega hér á hafnarbakkanum?

„Já, við höfum séð það nú þegar. Þetta skiptir miklu máli fyrir farþegana, skipafélögin, umboðsmenn og þjónustuaðila. Það eru allir samdóma um að þetta sé allt annað og betra. Það er ekki hægt að horfa framhjá því að menn voru ekki tilbúnir eftir Covid-19 að taka á móti þessum fjölda sem kom. En nú hefur nýtt umferðarskipulag verið njörvað niður.”

Aksturleið farþegaskutlunnar milli Skarfabakka og Hörpu – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um helming síðastliðna 12 mánuði og þar af um nærri fjórðung frá áramótum. Fyrir helgi fór gengið niður í 1,03 kr. og markaðsvirði félagsins er núna 42,3 milljarðar. Eftir heimsfaraldur hefur það hæst farið upp í 95 milljarða króna en það var í júlí síðastliðnum. Á síðasta áratug náðu …

Ferðamönnum hefur fjölgað í friðlandi Hornstranda eins og víðar á landinu, áætlað er að um 10.500 manns hafi haldið í friðlandið síðasta sumar, sem var tölvuverð aukning frá sumrinu þar á undan, 2022. Ólíkt mörgum öðrum ferðamannastöðum er ekki ætlunin að auka mikið við innviði til að bregðast við auknum fjölda„Hlutverk ferðamannsins er að aðlagast …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …